Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:31:30 (305)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get í mínum huga bæði glaður og stoltur borið saman afskipti Sjálfstfl. og Framsfl. af landhelgismálunum. Það get ég gert. Hins vegar hefði ég auðvitað mátt nefna ef ég hefði verið að tala um samninga almennt að Framsfl. stóð að varnarsamningnum sem var afskaplega mikilvægur samningur og gerði það ágætlega og þeirra forustumenn höfðu víðsýni til þess á þeim tíma. Sumir hafa hins vegar haldið því fram að í varnarsamningnum felist mesta valdaframsal á ríkisvaldi sem nokkru sinni hefur verið gert á Íslandi vegna þess að varnir sem eru meginhluti af verkefni hvers ríkis eru með samningnum færð yfir á annað þjóðríki. En það gerði nú Framsfl. og hafði a.m.k. ekki þessar áhyggjur af því máli þá.