Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:44:40 (314)



     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Við höfum nú fengið tækifæri til þess að hlýða á ræður tveggja ráðherra, formanna tveggja stjórnmálaflokka sem mynda þessa ríkisstjórn, og ég verð að segja það að þær ollu mér að sumu leyti nokkrum vonbrigðum. Þær voru reyndar báðar eins og ég bjóst við að þær yrðu, önnur þeirra a.m.k., þ.e. ræða hæstv. forsrh. Hún var flutt í skætingstón, hann hefur ekki enn þá náð þessum rétta landsföðurtón sem mér finnst endilega að forsætisráðherra þjóðar eigi að hafa. Hann flutti þessa ræðu í sínum venjulega skætingstón. En eitt áttu þeir hæstv. ráðherrar sameiginlegt, forsrh. og utanrrh.: Þeir svöruðu ekki spurningum sem fram hafa komið í þessum ítarlegu umræðum. Það er kannski ekki vegna þess að mennirnir hafi ekki viljað svara þeim heldur vegna þess að þeir gátu ekki svarað þeim og ég hlýt að líta svo á að þeir hafi ekki treyst sér til að svara þeim spurningum sem hér hafa komið fram vegna þess að þeir finna innra með sér að málflutningur þeirra dugir ekki. Málflutningur stjórnarandstæðinga í þessum umræðum er með þeim hætti að þeir eiga ekki svör.
    Þeir hafa báðir verið að kvarta yfir því að þessar umræður hafi verið langar. Víst er búið að ræða hér í eina fimm daga um Evrópskt efnahagssvæði. En mér þykir það ekki langur tími vegna þess að af þeim ræðum sem fluttar hafa verið hefur engin ræða verið ákaflega löng. Þær hafa verið ofurlítið á aðra klukkustund, ein eða tvær kannski tveir tímar. En það er ekki langur ræðutími um svo mikið efni. Ég hygg að fyrir utan hæstv. utanrrh. sé ég eini þingmaðurinn hingað til sem hef talað tvisvar, þ.e. ég er að tala í annað sinn núna og hæstv. utanrrh. er búinn að tala tvisvar.
    Það þýðir ekkert að bera saman umræður hér á Alþingi við umræður í þingum annarra EFTA-landa vegna þess að aðstæður eru allt aðrar. Fyrir það fyrsta ætla þessi önnur EFTA-lönd formlega að ganga í Evrópubandalagið ef þau mögulega komast og þar er efniságreiningur um málið minni en er hér á Íslandi. Hér er verulegur efniságreiningur um þennan samning og við ætlum okkur ekki, a.m.k. ekki þorri þingmanna, þrátt fyrir það að ég hafi illan grun á einstöku ráðherrum í ríkisstjórninni, að ganga í Evrópubandalagið.
    Hæstv. forsrh. gerði það nokkuð að umtalsefni að afstaða Framsfl. væri önnur nú en hún var meðan Framsfl leiddi ríkisstjórn. Það er að vísu rétt hjá honum. Framsfl. hefur ekkert breytt um stefnu, heldur er það málið sem hefur tekið aðra stefnu en það hafði undir síðustu ríkisstjórn. Þetta er orðinn annar samningur en við lögðum upp með að gera þegar samningar hófust. Og þetta er meira að segja allt annar samningur en það sem búið var að skrifa um síðustu kosningar. Ég nefni nokkur atriði, bara lykilatriði.
    Fyrirvarar þeir sem settir voru fram af Íslands hálfu við upphaf samningagerðar eru á brottu eða útvatnaðir og þýðingarlausir. Þessi samningur er ekki um fríverslun með fisk sem var þó eitt af þeim grundvallaratriðum sem við lögðum upp með. Það er ekki fríverslun með fisk í þessum samningi. Evrópubandalaginu er heimilt að ríkisstyrkja sína fiskveiði svo mikið sem þeim dettur í hug. Þessi samningur er líka orðinn um yfirþjóðlegt vald. Í þessum samningi er ákveðið framsal á fullveldi lýðveldisins. Það eru engar girðingar í þessum samningi enn þá frá hendi ríkisstjórnarinnar, þær hafa a.m.k. ekki verið settar upp og það eru ekki líkur til að þær verði settar upp, sem verji landið, þ.e. það er allt galopið hér fyrir öðrum íbúum Evrópsks efnahagssvæðis til þess að eignast lendur, til þess að eignast auðlindir. Inn í þennan samning er komin hætta á verulegum innflutningi landbúnaðarvara sem okkur bauð ekki í grun að væri í spilunum eða kæmi til með að verða í lokagerð samningsins. Ég stikla nú bara á stóru um þær breytingar sem orðið hafa frá því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hætti að leiða þetta mál. Það er komið inn í þetta grundvallaratriði, þ.e. að horfið hefur verið frá þeirri prinsippafstöðu sem allar ríkisstjórnir á Íslandi hafa undanfarna tvo áratugi haft, þ.e. þær hafa allar neitað samningum við Evrópubandalagið um það að láta fiskveiðiheimildir fyrir tollaívilnanir. En þessi samningur felur það í sér að við hverfum frá þessu prinsippi. Evrópubandalagið gerir kröfu til þess að fá fiskveiðiheimildir við Ísland, annars verði ekkert af þessum samningi, ef ekki verði gerður svokallaður tvíhliða samningur um veiðiheimildir.
    Það má bæta því við að um síðustu kosningar var þessi dómstólaþáttur óklár, þ.e. í lokagerð er dómstólaþátturinn allt annar og okkar réttur miklu ótryggari samkvæmt samningnum í endanlegri gerð heldur en hann leit út um síðustu kosningar.
    Ég hélt sjálfur fyrir síðustu kosningar og reyndar talsvert lengi eftir það að þessi samningur væri þess eðlis að stjórnarskrárbreyting væri ekki nauðsynleg. Það voru margir fleiri á þeirri skoðun, kannski vegna þess að við höfðum ekki skoðað þetta mál nógu vel. Kannski vegna þess að við höfðum ekki aflað okkur nógu mikilla upplýsinga. Kannski vegna þess að hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, sem er nú skarpur maður, talaði fyrir daufum eyrum okkar. Hann benti á þetta, það er rétt, ég man eftir því. En ég lét það fara svona inn um annað eyrað og út um hitt og hélt að þetta væri einhver hálfgerð sérviska í hv. þm. Ég verð að éta það allt saman ofan í mig. Ég dáist að hv. þm. fyrir skarpskyggni hans.
    Ég stóð reyndar í þeirri meiningu að þó að þarna kynnu nú að vera einhver álitamál þá mundi þetta vera í lagi, þ.e. að samningurinn væri samrýmanlegur stjórnarskránni, alveg þangað til í sumar í starfi okkar í utanrmn. Vendipunkturinn var þegar ég las álitsgerð fjórmenninga utanrrh. Það var vegna þess að þessir fjórir valinkunnu lögfræðingar, sem hæstv. utanrrh. hafði valið til þess að sanna það að samningurinn stæðist stjórnarskrána, gátu ekki fundið haldbær rök. Rökin sem þeir tíndu fram fyrir því að samningurinn stæðist stjórnarskrána voru svo veik að maður hlaut að gagnálykta: Nei, þetta gengur ekki. Síðan hef ég verið sannfærður um að þessi samningur er ekki samrýmanlegur íslensku stjórnarskránni.
    Hæstv. forsrh. vitnaði í forvera sinn, Steingrím Hermannsson, þegar hann sagði fyrir síðustu kosningar að það væri ekkert að óttast. Það var ekkert að óttast þá. En núna er ýmislegt að óttast. Þetta mál hefur gjörbreyst frá því að síðasta ríkisstjórn lét af völdum. Það hefur verið illa haldið á þessu máli af hendi núv. ríkisstjórnar og okkar menn hafa verið lítilþægir við samningaborðið. Þeir hafa að mínu mati ekki haldið til haga nógu vel hagsmunum Íslands og þeir hafa fallist á hluti sem þeir hefðu ekki átt að fallast á. Og ef maður lítur á atriði eins og Húsatryggingar Reykjavíkur og eitt og annað sem önnur ríki hafa komið inn í samninginn, undanþáguákvæði, þá hefði verið unnt að halda betur á okkar hlut.
    Hæstv. forsrh. sagði hér rétt áðan að Framsfl. hefði ekki tekið þátt í eða leitt gerð efnahagssamninga af stærstu gráðu. Ég vil minna á þann efnahagssamning sem hefur skilað okkur mestu á undanförnum áratugum, þ.e. tvíhliða samningurinn við Evrópubandalagið, þ.e. bókun 6. Hún er gerð, ef ég man rétt, 1972 og ef ég man rétt, þá var forsætisráðherra hér á Íslandi það ár Ólafur heitinn Jóhannesson. Ef við berum saman þennan samning og bókun 6, þá er þessi samningur, EES-samningurinn, hugsanlega ofurlítið betri viðskiptalega. Ég treysti mér ekki til að fullyrða að hann sé miklu betri, hugsanlega ofurlítið betri, alls ekki tveim milljörðum á ári betri en bókun 6 hefur gefið okkur eða mundi gefa okkur og mun gefa okkur því ef ekki verður af þessum samningi, þá höfum við þó alltaf bókun 6. En hann er hugsanlega pínulítið betri

viðskiptalega. En það er mikill fórnarkostnaður vegna þess að margt sem tekið er inn í þessa kippu núna er okkur mjög óhagstætt.
    Ég er ekki frá því að hæstv. utanrrh. hafi lært svolítið af þessum löngu umræðum, þessum ítarlegu og góðu umræðum því að hann var miklu hógværari í seinni ræðu sinni en hann var í upphafsræðunni. Og það er út af fyrir sig lofsvert. Það fer honum vel að vera hljóður og hógvær. Hann á ekki að ganga hér fram eins og hann sé einhver sölumaður. Hann á auðvitað að læðast með veggjum eftir að honum er orðið ljóst hvernig hann hefur haldið á málum.
    Hæstv. utanrrh. taldi að við Íslendingar værum komnir yfir endimörk vaxtarins og hér yrði enginn hagvöxtur í framtíðinni nema við gerðumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Mér finnst þetta ótrúleg svartsýni. Mér finnst þetta ákaflega óraunhæf helvítispredikun hjá hæstv. utanrrh. og maðurinn alveg að missa kjarkinn og það er bara alls ekki nógu gott. Hann er að gera samanburð við árin 1967 og 1968. Það er ýmislegt öðruvísi núna en þá. Það eru allt aðrar aðstæður. En ég er ekki frá því að þrátt fyrir allt höfum við á hinum erfiðu árum, 1967 og 1968, haft skynsamari stjórnvöld en við höfum núna. Við höfðum meiri leiðtoga árin 1967 og 1968. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með leiðtoga okkar þá en ég er ansi hræddur um að leiðtogar okkar nú, leiðtogar ríkisstjórnarinnar, færu ekki í fötin þeirra sem þá voru hér við stjórn.
    Frú forseti. Í þessum umræðum hefur margt skýrst. Í þessum umræðum hefur verið velt upp fjöldamörgum atriðum og rökum sem sýna fram á það að þessi samningur er ekki þjóðarhagsmunum til góðs eins og hæstv. utanrrh. vildi vera láta. Ég nefni að hagnaðurinn fyrir sjávarútveginn er hverfandi lítill. Ég vísa til ágætra ræðna sem hér voru fluttar í dag, t.d. af hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjörgu Pálmadóttur, og 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni, sem ræddu sérstaklega sjávarútvegsþátt samninganna og báru það til baka og sönnuðu gjörsamlega að það er alveg úr lausu lofti gripið sem hæstv. ráðherrar hafa verið að halda fram um þetta mál.
    Það sem upp úr stendur í þessu sjávarútvegsmáli er að sú tollalækkun sem við fáum með samningnum er keypt fyrir aðgang að fiskimiðunum. Og það höfum við getað gert alla leið frá 1972. Það hefur aldrei staðið á því að við gætum fengið saltfisktollinn felldan niður bara ef við hleyptum hingað togurunum inn þó það væri ekki nema einhver smákoppur ef það kæmi sem endurgjald. En við erum að tala um 3 þús. tonn af karfa núna. Það er auðvitað smáræði. Út af fyrir sig er það ágæt hugmynd sem hér var varpað fram í umræðunum og hæstv. utanrrh. svaraði nú ekki þeirri spurningu frekar en öðrum. Það væri auðvitað ágæt hugmynd að færa Evrópubandalaginu að gjöf árlega 3 þús. tonn af karfa til þess að sleppa við að fá þá hingað inn á miðin. En ég er alveg viss um það að Evrópubandalagið sættir sig ekki við það. Og hvers vegna sættir það sig ekki við það? Vegna þess að það vill meira. Það vill meira við næstu endurskoðun og þarnæstu endurskoðun og þarnæstu endurskoðun. Og svona gengur þetta áfram.
    Frú forseti. Það er orðið áliðið fundartímans eða fundartíminn er úti og ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Hæstv. utanrrh. taldi það fráleitustu kenninguna sem hér hefði verið varpað fram í þessum umræðum að atvinnuleysi á Íslandi ykist við aðildina að Evrópsku efnahagssvæði. Ég held að það sé ákaflega auðvelt að rökstyðja það. Hv. 2. þm. Vesturl. skýrði frá því hér í umræðunum í dag hvernig færi með atvinnuna í fiskinum, þ.e. þessar sex eða átta Baader-vélar sem við þurfum að starfrækja. Þær koma í staðinn fyrir fiskvinnslufólk sem hringinn í kringum landið er að vinna fisk. Og við erum með þessum samningi að gerast aðilar að efnahagssvæði og atvinnusvæði þar sem atvinnuleysið er fast a.m.k. 10%, sums staðar miklu meira.
    Þessi samningur felur í sér frjálsa för launafólks og það mætti alveg eins segja mér það að vatnið hætti allt í einu að renna undan brekkunni eins og það að þetta atvinnuleysi jafnist ekki eitthvað út. Þar með eykst atvinnuleysi á Íslandi sem blessunarlega hefur verið lítið fram að því að efnahagsaðgerðir eða aðgerðarleysi núv. ríkisstjórnar fór að segja til sín. Atvinnuleysi hér fer hraðvaxandi vegna þeirrar ríkisstjórnar og stjórnarstefnu sem við fylgjum, en það á eftir að versna til stórra muna þegar vinnuafl frá Evrópubandalaginu fer að sækja hingað vegna þess að það hlýtur að vera lögmál að atvinnustig sé svipað á efnahagssvæði þar sem launafólk hefur frjálsa för.
    Ég minni á þegar við gerðumst aðilar að EFTA á sínum tíma að þá töluðu talsmenn iðnaðarins um að það væri stórkostlegt tækifæri fyrir íslenskan iðnað. Störfunum í iðnaði mundi fjölga. Nú loksins yrði iðnaðurinn ofan á í þessu þjóðfélagi. Nú loksins gætum við hætt að leggja þessa ofuráherslu á fiskinn. Ég held að ég muni þessar tölur. En reyndin varð önnur.
    Frú forseti. Ég geymi mér margt sem ég á ósagt í þessu máli. Það kemur dagur eftir þennan dag og það kemur umræða eftir þessa. Ég mun síðar í þessum umræðum rekja þær samþykktir sem Framsfl. hefur gert um Evrópskt efnahagssvæði á hinum ýmsu stigum eftir því sem það mál hefur þróast og það kemur í ljós af þeim að afstaða okkar til málsins er rökrétt og er eðlileg og hefur verið í samfellu alla tíð. Þessi samningur sem við nú stöndum frammi fyrir er allt annar en sá sem við lögum upp með eða ætluðumst til að gerður yrði og þeim skilyrðum sem við settum í upphafi hefur ekki verið fullnægt.