Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 13:59:51 (321)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns þakka ég málshefjanda fyrir að hefja umræðuna og fyrir ræðu hans sem ég hlustaði auðvitað á með athygli. Sem vonlegt var fór drjúgur hluti ræðunnar í að útskýra illsku og skilningsleysi ríkisstjórnarinnar og er ekkert við því að segja, en það var þó þakkarvert að hv. þm. fjallaði allmikið um það hvað væri til ráða. Hann lét ekki nægja að gagnrýna ríkisstjórnina heldur lét einnig í ljós skoðanir sínar og hugmyndir um hvað væri helst til ráða varðandi umræðuefnið. Ég mun víkja að því síðar en get þó sagt að flest af því sem hann nefndi, sem var allt jákvætt, eru þættir sem menn hafa einmitt verið að sýsla við að undanförnu. Ég mun víkja að því nánar síðar.
    Hv. þm. sagði að atvinnuástandið væri að færast á það stig sem það væri í nálægum löndum. Sem betur fer er það nú ekki svo og ekkert bendir til þess að það sé svo. Þó hefur atvinnuástandið orðið lakara hér en það hefur verið á undanförnum árum, en hvergi nálægt því sem við þekkjum til frá nálægum löndum.
    Allt frá lokum síðustu heimsstyrjaldar hefur atvinnuástand í landinu í rauninni verið mjög gott með fáeinum undantekningum og auðvitað tímabundnum og svæðisbundnum undantekningum. Menn muna eftir samdrætti og atvinnuleysi sem varð fyrir aldarfjórðungi í kjölfar hruns síldarstofnsins. Atvinnuleysisvandinn var sem sagt samstofna þá og hann er nú. Ekkert undarlegri þá en hann er nú.
    Við skulum líka minnast þess að fyrir örfáum árum bjuggum við við þensluástand. Ég minnist þess sem borgarstjóri í Reykjavík að fá iðulega skilaboð frá ríkisstjórninni um að rétt væri að fara að hægja á því þenslan væri allt að drepa í landinu. Það eru ekki mörg ár síðan ástandið var með þeim hætti, þannig að sveiflurnar hafa verið nokkrar.
    Fyrstu sjö mánuði þessa árs hefur atvinnuleysi mælst nokkru meira en á undanförnum árum, eða um 2,9% að meðaltali. Á sama tíma í fyrra mældist það um 1,5%. Það var athyglisvert og áberandi og gaf tilefni til nokkurs ótta en það dró lítið úr atvinnuleysi yfir sumarmánuðina eins og við höfum jafnan átt að venjast á Íslandi.
    Ef horft er fram í tímann þá eru spár um atvinnuleysi nokkuð misvísandi en sýna þó, því miður, áþekka þróun. Þannig hefur Vinnuveitendasamband Íslands látið í ljós þá skoðun að atvinnuleysi á næsta ári gæti orðið á bilinu 4--6%, þarna skakkar að vísu mjög miklu. Félag ísl. iðnrekenda er með nokkuð varkárari spá eða um 3,8% atvinnuleysi og reyndar spáir Félag ísl. iðnrekenda öfugt við aðra spámenn að hagvöxtur verði nokkur á næsta ári. Því spáir hvorki Vinnuveitendasambandið né Þjóðhagsstofnun.
    Fyrir nokkrum dögum hélt hv. þm. Guðni Ágústsson því fram í þinginu að félmrn. hefðu borist tilkynningar um uppsagnir þúsunda starfsmanna um síðustu mánaðamót. Þessar fullyrðingar voru sem betur fer algjörlega rangar. Kannski má segja að það sé fótur fyrir þeim vegna þess að um mánaðamótin júlí--ágúst hafði verið tilkynnt um uppsagnir 300 starfsmanna í landinu samkvæmt þeim ákvæðum sem um það gilda, en þar af voru 100 vegna skipulagsbreytinga sem leiða til endurráðningar en ekki til fækkunar, skipulagsbreytingar eins og við þekkjum frá fyrirtækjum eins og Gutenberg og fyrirtækjum með svipaðar aðstæður.
    Flestar þessar uppsagnir tengjast uppsögnum í þjónustugreinum á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að bæði þróunin í sumar og eins þessi þróun bendir til þess eða er a.m.k. vísbending um að atvinnuleysi sé ekki eins tíma- og staðbundið eins og það hefur stundum verið á liðnum árum.
    Auðvitað er það eðlilegt að hv. þm. vilji kenna ríkisstjórn landsins, þeirri sem nú situr, um þetta atvinnuleysi, eða að atvinnuleysi hafi aukist nokkuð og mundi jafnvel enn aukast samkvæmt spám eins og ég gat um. Eins og hann sjálfsagt veit er málið reyndar eins og gjarnan flóknara en það.
    Í Hagvísi Þjóðhagsstofnunar, dagsett 27. ágúst sl. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Atvinnuleysi er svipað um þessar mundir og það varð mest á samdráttarárunum 1967--1969. Þetta stafar m.a. af því að fjöldi starfa í boði hefur nánast staðið í stað frá árinu 1989 eftir að hafa minnkað nokkuð frá árinu 1987. Á sama tíma hefur fólki fjölgað á vinnufærum aldri.``
    Það eru athyglisverðar upplýsingar sem þarna koma fram, að störfum fækkaði frá 1987--1989 og hafa síðan staðið í stað. Þetta gerist á sama tíma og miklum peningum er dælt inn í hagkerfið með innlendum en þó einkum erlendum lánum. Á sama tíma og 10 þús. millj. kr. brunnu uppi í fiskeldi, þúsundir milljóna í loðdýrarækt og 15 milljarðar króna bundust í virkjanaframkvæmdum sem ekki hefur enn reynst

þörf fyrir, því miður, þá fjölgar atvinnutækifærum ekki. Með öðrum orðum, meðan 30 milljarðar ganga þannig inn í hagkerfið án þess að forsendur séu fyrir þeim fjárfestingum standa atvinnutækifærin í stað en fólki á vinnumarkaði fjölgar. Hér er verið að tala um sex ára tímabil. Þegar ekki er lengur fært að halda áfram fjárfestingu af þessu tagi, sem ekki hefur skilað nokkrum arði a.m.k. í svip, þó kannski komi það til síðar meir. Þegar það gerist að það stöðvast og menn þurfa að fara að borga af þessum 30 milljörðum króna er því eðlilegt að atvinnuleysistölurnar hækki nokkuð.
    Til viðbótar þessu hefur komið verulegur aflasamdráttur tvö ár í röð. Ég hef ekki séð þetta sjónvarpsviðtal og veit ekki hvernig hinir ágætu fjölmiðlamenn hafa klippt það en í mörgum viðtölum þykist ég hafa sagt og einmitt vakið athygli á því að gengisskráning gagnvart sjávarútveginum er honum ekki óhagfelld miðað við reynslu og að verðlag er honum hagfellt miðað við reynslu. En það er aflasamdrátturinn sem hefur gert það að verkum að svo er spáð um afkomu hans eins og spár segja fyrir um.
    Ég hlýt einnig að minna á að þegar fyrstu hugmyndir fiskifræðinga komu fram og margir vildu fylgja þeim út í hörgul, þóttust menn sjá fyrir og því var spáð af hálfu mjög marktækra aðila að atvinnuleysi gæti orðið á bilinu 5--7%. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar var sú að fara ekki eftir ýtrustu tillögum fiskifræðinga í þorskveiðiheimildum og auka nokkuð afla í öðrum stofnum umfram tillögur þeirra. Það mildaði höggið sem enn er þó tilfinnanlegt.
    Vissulega hafa heyrst gagnrýnisraddir eins og hv. þm. nefndi, um að ekki sé nóg gert af hálfu ríkisvaldsins og ekki nógu fljótt. En það er ekki hægt að líta fram hjá því að ýmislegt hefur verið gert þótt stjórnvöld hafi ekki viljað láta teyma sig lengra en þau telja skynsamlegt. Ef við lítum aðeins til sjávarútvegsins þá hafa skuldbreytingar og lengingar lána átt sér stað hjá Atvinnutryggingarsjóði sem nemur háum fjárhæðum. Slíkar skuldbreytingar í lánastofnunum standa enn yfir. Þetta var einn sá þáttur sem hv. þm. nefndi að væri mikilvægur og hvað mikilvægastur í þessum efnum. Þetta hefur verið gert og stendur enn yfir.
    Þá voru inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð stöðvaðar og síðan tekin ákvörðun um að greiða 2,5 milljarða út úr þeim sjóði til fyrirtækjanna í sjávarútvegi. Þessar ákvarðanir endurspegla auðvitað skilning á stöðu sjávarútvegsins og skipta sköpum um afkomu hans á þessu ári. Þegar menn eru að tala um stöðu sjávarútvegsins eru menn að horfa á spár fyrir næsta ár. Afkoman er ekki slök eða mjög slæm á þessu ári vegna þeirra aðgerða sem gripið var til.
    Það breytir ekki hinu um myndina á næsta ári því aðgerð af þessu tagi, það felst í eðli þeirra, er tímabundin, bundin við tiltekið ár, tiltekna peninga og lýkur þegar sjóðir eru ekki lengur fyrir hendi.
    Það er líka rétt, sem menn hafa sagt, að miðað við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur viljað grípa til, það má lesa út nokkra varfærni, og ég er þeirrar skoðunar að enginn réttsýnn maður geti neitað því að það séu full rök fyrir varfærni af því tagi. Það er nefnilega óráð að segja sem svo og ætla svo að ríki geti bætt mönnum að fullu þann mikla aflasamdrátt sem orðinn er. Það getur gerst til að mynda í löndum eins og Noregi þar sem sjávarútvegurinn er sáralítill hluti af ríkiskassanum. En þar sem sjávarútvegurinn er jafnstór hluti af ríkiskassanum eins og hjá okkur veikist ríkiskassinn sem heild um leið og sjávarútvegurinn veikist. Þetta þekkja menn afskaplega vel. Það þrengir líka þessa stöðu mjög hversu skuldugur sjávarútvegurinn er, að sumu leyti vegna offjárfestinga í sjávarútvegi á undanförnum árum, menn verða að horfa til þess, og ekki síður vegna hins hversu veikir opinberir sjóðir og lánastofnanir hafa orðið á síðustu árum vegna þeirrar umgengni sem þar hefur átt sér stað.
    Því er ekki að neita að það heyrist að ýmsir óska eftir því að ríkisvaldið komi með eitt allsherjarlausnarorð í atvinnumálunum. Reynsla okkar af slíkum lausnarorðum er þó afleit hvort sem þau hafa falist í fiskeldi eða loðdýrarækt sem hið opinbera hefur haft veg og vanda af hér á landi. Þær lausnir eru að mínu mati fremur víti til varnaðar heldur en forskrift fyrir nýja ríkisstjórn. Nýsköpun í atvinnulífinu verður í öllum meginefnum að byggjast á öðru en valdboði, opinberum fjárfestingarlánasjóðum og miðstýringu.
    Þegar vestrænum hagstjórnaraðferðum var hafnað opinberlega hér fyrir nokkrum árum og reynt var að örva atvinnulífið með opinberri forsjá fór að síga á ógæfuhliðina. Það er þess vegna sem enginn hagvöxtur hefur orðið hér sex ár í röð. Það tekur heilmikinn tíma að hreinsa til og snúa síðan dæminu við. Við sjáum þó mjög mörg tákn þess að batinn sé ekki langt undan þótt við séum ekki endilega enn komin yfir það versta. Smátt og smátt er að draga úr ríkissjóðshalla og lánsfjáreftirspurn ríkisins sem er mikilvægt. Viðskiptahalli fer minnkandi og gjaldeyrisvarasjóðurinn eflist. Það bendir ekki til þess að gengið sé vitlaust skráð. Reyndar tók ég eftir því að hv. þm. vildi ekki fara þá leið sem sumir hafa kallað eftir, gamalkunnug leið, að gengið væri einfaldlega fellt. Í fyrsta lagi er það svo að gengið er ekki vitlaust skráð miðað við þá stöðu sem við þekkjum frá gamalli tíð og í annan stað nýtist gengisfelling ekki með sama hætti og fyrr einmitt vegna þeirra miklu erlendu skulda, gengistryggðu skulda sem á sjávarútveginum hvíla.
    Það má líka segja að eins og gengið hefur þróast, eða innbyrðis gengi körfunnar, þá er það fremur hagstætt okkur en óhagstætt að meginstofni til. Dollarinn hefur lækkað mjög mikið og það hefur rést af í gengiskörfunni, aðrar myntir hafa verið hækkaðar til halda genginu stöðugu eins og stefnan er. Meginhluti okkar skulda er í dollurum. Meginhluti okkar útflutnings er í öðrum myntum þannig að sem heild er slík innbyrðis breyting í myntkörfunni okkar efnahag hagstæð. Það breytir ekki því að fyrir mörg einstök fyrirtæki getur þessi breyting verið afskaplega erfið. Það fer eftir því hvort þannig gæti verið statt í einstökum fyrirtækjum að útflutningur þeirra væri í dollurum en skuldirnar í öðrum myntum. Þá er þetta

hrikaleg staða. En fyrir heildina er dæmið öðruvísi. Meginhluti skuldanna er í dollurum, meginhluti teknanna er í öðrum myntum.
    Varðandi gengið sérstaklega má benda á ágætan greinarstúf í Vísbendingu í gær þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Nánast má slá því föstu að verðbólga verði lítil á næsta ári nema gengi krónunnar falli. Innflutningur er nálægt 35% af landsframleiðslu og því hafa verðbreytingar í útlöndum mikil áhrif á verðbólgu hér. Nú er verðbólga í viðskiptalöndum Íslendinga rúm 3% og fer lækkandi. Meðalgengi krónunnar hefur verið stöðugt frá árslokum 1989. Gengisskráning var áður miðuð við afkomu sjávarútvegs en hún hefur verið að slæm að undanförnu eins og kunnugt er. Halli sjávarútvegs nú stafar þó ekki af því að gengi krónunnar sé of hátt. Verðlag sjávarafurða í alþjóðamyntinni SDR er 15--20% hærra en 1989 og raungengi krónunnar er aðeins 1--2% hærra en þá.`` --- Ég vek athygli á þessum tölum. ,,Verðlag sjávarafurða í alþjóðamyntinni SDR er 15--20% hærra en 1989 og raungengi krónunnar aðeins 1--2% hærra en þá. Aðalástæður hallans eru að afli hefur minnkað. Óeðlilegt væri að lækka gengi til þess að hægja á aðlögun sjávarútvegsfyrirtækja að minni veiði.``
    Þetta er hárrétt sem hér er skrifað og menn verða að horfa á þessar staðreyndir. Og eins og ég segi þá tók ég eftir því að hv. málshefjandi virtist vilja, rétt eins og ríkisstjórnin, að raungengisbreytingin í þágu útflutningsaðilanna gerðist með þeim hætti að kostnaður hér innan lands væri lægri en kostnaður erlendis og ég held að það sé hárrétt hjá honum.
    Hv. þm. nefndi vexti. Vextir eru enn háir hér á landi en þó er það svo að vaxtastigið er orðið miklu sambærilegra hér því sem annars staðar gerist í nálægum löndum ef Bandaríkin eru frátalin þar sem aðstæður eru mjög sérstakar. Og reyndar eru raunvextir lægri hér en í nokkrum nálægum viðskiptalöndum okkar og raunvextir á borð við það sem þingmaðurinn nefndi eru ekki fyrir hendi í dag sem hann nefndi sem víti til varnaðar.
    Á hinn bóginn er það staðreynd og það heyrum við þessa dagana að bankar verða að hafa hér meiri vaxtamun en annars staðar gerist meðan verið er að borga niður fjárfestingarmistök liðinna ára og að ná fram aukinni hagræðingu og sparnaði í bankakerfinu.
    Einn þáttur enn sem er mikilvægur er verðbólgan, sem er nú minni en nokkru sinni fyrr, en einmitt stöðugt verðlag gerir forsvarsmönnum fyrirtækja hægara um vik að gera langtímaáætlanir í sínum fyrirtækjum. Við sjáum enda að fyrirtækin eru að vinna að betri nýtingu innan dyra hjá sér og að hagræðingu og sparnaði. Og það var eitt af því sem hv. þm. nefndi, að áríðandi væri að fyrirtækin næðu niður kostnaðinum við starfsemi sína við þessar þrengingar. Þetta er akkkúrat það sem hefur verið að gerast. En á hinn bóginn er það líka rétt að slíkar aðgerðir fyrirtækjanna ýta undir samdrátt til skemmri tíma litið en um leið gerir slíkur sparnaður og hagræðing fyrirtækjunum kleift að eflast aftur til nýrra átaka þegar menn horfa til lengri tíma.
    Þá er mikilvægur þáttur að sparnaðurinn hjá einstaklingum og heimilum er að aukast. Við sjáum mjög glögg merki þess að sparnaður einstaklinga og heimila er að aukast jafnvel þó það gerist í fyrstunni svo að menn eru einkum og sér í lagi að borga af neyslulánum sínum en ekki að leggja inn fjármuni í sparnaðarform nema í minna mæli. En þessi sparnaður er þó að aukast með þessum hætti og það er afskaplega mikilvægt. En það má líka segja eins og í hinu fyrra dæmi að slíkur sparnaður til skemmri tíma horft ýtir undir samdrátt en er á hinn bóginn mjög heilbrigt merki þegar horft er til lengri tíma. Og það er mikilvægt í öllu þessu að það tekst að varðveita kaupmátt þeirra sem lægst hafa launin við allar þessar aðstæður. Samningagerðin síðast tryggir það, og var ólík mörgum öðrum samningum þar sem menn hafa talað um það fjálglega að vernda kaupmátt lægstu launa en útkoman þegar upp er staðið hefur verið allt önnur, en það tekst einmitt núna í þessum samningum og það er mikilvægt.
    Ég tel að allir þessir þættir sem ég hef hér vitnað til séu afskaplega mikilvægir þegar unnið er að því að koma efnahagslífinu á traustari grundvöll á ný. Það er nefnilega þannig að traustur efnahagsgrundvöllur er eina haldbæra forsendan fyrir ásættanlegu atvinnustigi í landinu og ég get verið alveg sammála hv. þm. að það atvinnustig, sem spástofnanir hafa verið að spá og ég rakti hér í upphafi, er ekki merki um ásættanlegt atvinnustig. En það er hins vegar eina haldbæra forsendan til að tryggja varanlegt atvinnustig sem er ásættanlegt að efnahagsgrundvöllurinn sé traustur.
    Ég tel að í meginatriðum hafi tekist einmitt að ná þeim efnahagslegu markmiðum sem að var stefnt þrátt fyrir ytri aðstæður sem hafa verið óhagfelldar. Og að það skuli hafa tekist tel ég að leiði til þess að þjóðin hafi mjög góða ástæðu til þess að vera bjartsýn á það að við vinnum okkur fljótt út úr vandanum.
    Menn ræða um sérstakar aðgerðir til að örva atvinnulíf og uppbyggingu og auðvitað er eðlilegt að slík atriði og þættir verði kynntir í tengslum við lok fjárlagagerðar eins og eðlilegt er. Ég tel að þótt íslenskt efnahagslíf sé út af fyrir sig að ganga í gegnum vissar þrengingar, það hefur oft verið sagt að það væri eldraun fyrir efnahagslífið sem það væri að ganga í gegnum núna, en ég tel að þrátt fyrir þær þrengingar sé ekki minnsta ástæða til þess að örvænta. Við erum í fremstu röð þjóða í efnahagslegum samanburði, í samanburði í lífskjörum. Hér hefur að vísu ekki orðið hagvöxtur í sex ár samfellt og menn höfðu látið undir höfuð leggjast að skapa efnahagslífinu eðlileg skilyrði. Þar eru allar forsendur, eins og ég hef farið yfir, að breytast hægt en örugglega til hins betra. Þar með hefur þá skapast grundvöllur til að grípa ný færi og skapa ný tækifæri.

    Eins og kom fram hjá hv. málshefjanda eru tvær af höfuðatvinnugreinum okkar á miklu umbreytingaskeiði um þessar mundir, bæði sjávarútvegur og landbúnaður. Þar mun mikil endurskipulagning eiga sér stað á næstu árum, endurskipulagning sem mun leiða til betri nýtingar og aukinnar framleiðni, en jafnframt, og menn eiga ekki að draga fjöður yfir það, verða auknar kröfur gerðar til þeirra sem að þessum greinum vinna. Forsjá ríkisvaldsins mun minnka en frumkvæði og ábyrgð einstaklinganna aukast. Alls staðar í veröldinni, hvarvetna í veröldinni hafa slíkar breytingar verið breytingar til batnaðar.
    Ég vil líka nefna samninginn um hið Evrópska efnahagssvæðið sem mun gefa okkur ný tækifæri og bæta samkeppnisstöðu okkar allra, ekki bara sjávarútvegs en þó einkum og sér í lagi hans í fyrstunni. Það er þess vegna sem ég hef talið og segi enn að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði sé því ekki síst hagsmunamál byggðanna í landinu.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja meiri fjármunum til rannsóknar- og þróunarverkefna á næstu árum en áður hefur verið gert. Slíkt skilar ekki fjármagninu í hendur okkar á morgun eða daginn þar á eftir en er þó aðgerð sem hægt er að kenna við morgundaginn. Við vitum einnig að orkan í fallvötnum okkar og iðrum jarðar mun innan tíðar skila okkur miklu í aðra hönd þótt tafir hafi orðið á vegna efnahagslegrar kyrrstöðu á Vesturlöndum. Þar liggja fyrir mótaðar og tilbúnar áætlanir sem hægt er að grípa til um leið og ytri skilyrði opna þá leið. Við höfum því alla ástæðu til að vera bjartsýn. Sú bjartsýni er engin bjánabjartsýni, engin innantóm orð, heldur bjartsýni sem byggð er á traustum forsendum. Við höfum tekið á okkur nokkrar þrengingar, nokkrar fórnir. Þær fórnir eru að skila árangri og sá árangur mun leggja grundvöllinn að öruggri uppbyggingu í landinu. Í mínum huga er meginatriðið það að hvika hvergi af leið, halda sínu striki, hafna gervilausnum sem gefa stundarávinning en byggja einmitt á stefnu, af því að þingmaðurinn nefndi það, byggja á stefnu sem stenst dóm sögunnar. Það er slík stefna sem skilar okkur mestu þegar til lengri tíma er horft og ég fyrir mitt leyti hef engar áhyggjur af þeim dómi sögunnar og hef þess vegna engar áhyggjur af því að hér kæmu einhvern tíma forráðamenn ríkisstjórnar í þessu landi sem hefðu mikinn áhuga á því að velta fyrir sér fortíðinni, þeirri fortíð sem ég hef lifað hér sem nútíð.