Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 14:23:24 (322)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er ekki seinna vænna að fá tækifæri til að ræða þessi alvarlegu mál sem snúa að atvinnuástandi og efnahagsástandi í landinu nú í haustbyrjun. Það liggur fyrir að atvinnuástandið er það versta sem við höfum séð í áratugi. Það hefur verið að staðaldri 2--3% nú í sumar um hábjargræðistímann og er slíkt óþekkt frá fyrri tíð. Það stefnir í það að atvinnuleysismet viðreisnaráranna verði slegið. Núverandi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. stefnir hraðbyri að því að slá þetta met sömu flokka frá árunum 1967--1969.
    Fyrstu sjö mánuði þessa árs hefur atvinnuleysi að meðaltali verið 2,8%. Samkvæmt nýlegri spá Þjóðhagsstofnunar verður atvinnuleysi á árinu í heild 3% eða rúm 3%. Það þýðir að 3.600 Íslendingar hafa gengið án atvinnu að meðaltali allt árið. Samkvæmt nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1993, það ár sem í hönd fer, er talið að atvinnuleysi verði í heild á árinu 3,5--4%. Það þýðir að 4.200--5.000 Íslendingar ganga án atvinnu allt árið 1993. Svartsýnni spár hafa komið fram sem taka mið af nýjustu tilkynningum um uppsagnir og nýjustu hræringum á vinnumarkaði. Þær ganga jafnvel svo langt að meta líklegt atvinnuleysi á næsta ári 4--6% af mannafla. Gengju þær eftir og væri hærri talan tekin mundi það þýða að 7.200 Íslendingar yrðu án atvinnu allt næsta ár. Það lætur nærri að hvert prósentustig í atvinnuleysi kosti hér 600--650 millj. kr., þ.e. í atvinnuleysisbótunum einum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hefur engin tilraun verið gerð til þess að meta þjóðhagslegt áfall af atvinnuleysinu að öðru leyti, þ.e. þegar vinnutapið og minni verðmætasköpun bætist við. Það er þó ljóst að hvert prósentustig í auknu atvinnuleysi kostar þjóðarbúið fremur milljarða en hundruð milljóna.
    Það er óhjákvæmilegt í þessu sambandi að líta á stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hún er harla alvarleg og fyrir liggur ný skýrsla frá Ríkisendurskoðun um úttekt á hagsmunum sjóðsins. Þar segir m.a. í niðurstöðu:
    ,,Staða sjóðsins er þannig að verðbréfaeign hans verður uppurin og greiðsluþrot blasir við á árinu 1994 komi ekki til sérstakra fjárveitinga á árunum 1992--1993 og verði atvinnuleysi áfram 3% eða meira.``
    Í öðru lagi segir: ,,Núverandi tekjustofnar sjóðsins geta aðeins staðið undir kostnaði vegna um það bil 2% atvinnuleysis.``
    Og í þriðja lagi gagnrýnir Ríkisendurskoðun félmrn. harðlega fyrir slælega upplýsingaöflun hvað skráningu atvinnuleysis snertir.
    Samkvæmt áætlun Ríkisendurskoðunar vantar hið minnsta 500--600 millj. kr. á þessu ári til þess að Atvinnuleysistryggingasjóður geti greitt út bætur. Og samkvæmt sömu stofnun vantar a.m.k. 1.080 millj. kr. til viðbótar tekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að hann geti greitt út bætur á árinu 1993. Þetta er miðað við þáverandi spá Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi upp á 3% á árinu. Ef tekin er nýja spáin með 3,5--4% atvinnuleysi, vantar 1.400--1.700 millj. kr. til þess að greiða út atvinnuleysisbætur á næsta ári. Og ef gengið væri enn lengra og tekin svartsýnasta tala sem komið hefur fram um 6% atvinnuleysi á næsta ári eða 7.200 manns, vantar 2.900 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári til að greiða atvinnuleysisbætur. Ég hlýt því að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh. hér:
    1. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja að unnt verði að greiða atvinnuleysistryggingabætur á þessu ári og vöntun upp á 500--600 millj. kr. í því sambandi?

    2. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja a.m.k. 1.400--1.700 millj. kr. í viðbótarframlög við sjóðinn á næsta ári, svo ekki sé nú minnst á enn hærri tölur?
    3. Hvernig hyggst ríkisstjórnin koma í veg fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður komist í greiðsluþrot og verði eignalaus árið 1994?
    Það er margt sem bendir til þess, því miður, að við séum að festast í keðjuverkun samdráttarskrúfu. Hér er hægagangur í efnahagslífinu, miklar uppsagnir eru í byggingariðnaði og í þjónustu. Allir þekkja vanda skipasmíðaiðnaðarins og verkefni eru að flytjast úr landi í stórum stíl þar sem víða annars staðar í samkeppnisgreinum. Fjárfestingar eru nú þær minnstu á Íslandi í meira en hálfa öld eða aðeins 18,4% af vergri þjóðarframleiðslu. Á sambærilegu verðlagi eru þær aðeins 97,8% af því sem þær voru árið 1980, þ.e. þær eru minni nú að raungildi en þær voru fyrir 12 árum síðan. Og það versta er að þær litlu fjárfestingar sem í gangi eru, t.d. í sjávarútvegi, og á ég þar m.a. við byggingu frystitogara og endurnýjun á fiskiskipum, fara að mestu út úr landinu. Við þetta allt saman bætist svo minni afli og minni vinnsla sjávarfangs vegna aukinnar grófvinnslu úti á sjó. Og ofan á þetta allt kemur svo enn samdráttur hjá hinu opinbera, minni atvinna, minni tekjur, minni skatttekjur og af því leiðir þörf fyrir enn meiri niðurskurð á næsta ári.
    Þessi skrúfa, þessi öfugu margfeldisáhrif eru því miður vel þekkt úr hagsögunni. Í ágætri samantekt hagfræðings Bandalags starfsmanna ríkis og bæja nýlega segir um þetta atriði, svona til upplýsinga fyrir menn, með leyfi forseta:
    ,,Minni eftirspurn ríkisins eftir vörum og þjónustu veldur því að ekki er ráðist í fjárfestingar í sama mæli og fyrr. Það ásamt minni eftirspurn eftir vinnuafli, bæði hjá hinu opinbera og einkaaðilum hefur í för með sér atvinnuleysi og skertar ráðstöfunartekjur. Minni fjárfestingar og minni ráðstöfunartekjur leiða af sér samdrátt í einkaneyslu og eftirspurn eftir innlendum og innfluttum vörum minnkar. Þar sem tekjur þegnanna dragast saman fær ríkið minni skatttekjur í gegnum tekjuskatt en einnig minni tekjur af veltusköttum þar sem eftirspurn og sala á vörum dregst einnig saman. Minni skatttekjur ríkissjóðs hafa síðan í för með sér að næsta ár þarf enn að draga saman ríkisútgjöld, fjárfestingar minnka enn meira, atvinnuleysi eykst og hringekjan er farin að snúast.``
    Ég hygg að þessi orð megi verða mönnum ærið umhugsunarefni og það er full ástæða til að gefa gaum að því hvort við séum ekki að verulegu leyti að festast í heimatilbúinni, heimasmíðaðri kreppu vegna rangrar stjórnarstefnu.
    Það er óhjákvæmilegt í þessu sambandi að nefna vaxtastigið sem hæstv. forsrh. hafði um hér áðan furðuleg ummæli. Staðreyndin er sú að samkvæmt nýjustu upplýsingum frá viðskiptabönkunum í Hagtölum mánaðarins frá þessum mánuði liggur það ljóst fyrir að raunvaxtastigið er enn nokkurn veginn jafnhátt og það hefur hæst orðið á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum eru algengustu útlánaflokkar í vísitölubundnum lánum, þ.e. B- og C-flokkar í áhættumati, með raunvexti upp á 9--9,85%, þ.e. þetta háir vextir ofan á verðtryggingu og lánskjaravísitölu. Og þeir sem ekki trúa þessum upplýsingum eins og hæstv. forsrh. virðist ekki gera ættu að verða sér úti um þetta litla hefti og gagnlegar upplýsingar um það hvernig útlán bankanna dreifast á hina einstöku áhættuflokka. (Gripið fram í.) Ég ber ekki ábyrgð á orðum málshefjanda, ég er eingöngu að svara því sem hæstv. forsrh. sagði.
    Varðandi vexti á almennum skuldabréfalánum þá eru þeir í sömu áhættuflokkum, þ.e. í B-, C- og svo D-flokki, enn hærri sem flest íslensk fyrirtæki því miður verða að lúta, 12,25--13,25% í 1--2% verðbólgu. Þetta segir að mínu mati það sem segja þarf um áhrif hávaxtanna. Þeir eru að sliga atvinnulífið, þeir draga úr framkvæmdum o.s.frv.
    Við þessar aðstæður ætla stjórnvöld að halda að sér höndum eins og við fengum því miður að heyra hér áðan í ræðu forsrh. Á meðan japönsk stjórnvöld taka ákvörðun um að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að örva efnahagslífið og ýta því úr þeim hægagangi sem það hefur verið í á þessu ári, ráðstafa til þess 4.300 milljörðum ísl. kr., þá ætlar ríkisstjórn Íslands ekki að gera neitt. Nú er ekki kreppunni fyrir að fara í Japan. Nei, það er eingöngu vegna þess að þarlend stjórnvöld vilja ekki hafa efnahagslífið í þeim hægagangi sem það hefur verið þar. Þar er þó spáð 1,8% hagvexti á þessu ári, þar er atvinnuleysi aðeins rúm 2%, þar er viðskiptajöfnuður jákvæður o.s.frv. Á meðan stjórnvöld í Bandaríkjunum beita sér fyrir lækkun vaxta á undanförnum missirum, á meðan ríkisstjórnir Bretlands og Ítalíu grípa til varasjóða sinna eða taka erland lán til að tryggja atvinnulífinu starfsskilyrði, á meðan Frakkar veita samkeppnisfyrirtækum sínum margháttaðan stuðning, á meðan Kanadamenn lækka vexti o.s.frv., o.s.frv. þá ætlar ríkisstjórn Íslands sér ekki að gera neitt. Og hér er ég að telja upp lönd sem einmitt telja sig byggja á vestrænum hagstjórnaraðferðum, sem telja sig byggja á markaðshyggju, frjálshyggju, einkavæðingu, kapítalisma og hvað það nú heitir allt saman, hæstv. forsrh. Þetta eru ekki Sovétríkin sem ég er hér að tala um. Þetta eru þeir sem eru í fararbroddi í hinum vestræna efnahagsheimi. Þar sitja einfaldlega ríkisstjórnir sem telja það eðlilega og sjálfsagða stjórnarstefnu að styðja atvinnulífið og örva efnahagsstarfsemina. En hér gerir ríkisstjórnin ekki annað en væla og reyna að draga kjarkinn úr mönnum og helstu sérfræðingar hennar í málefnum sjávarútvegsins hafa ,,gjaldþrot`` sem aðallausnarorð.
    Þegar litið er til þess, hæstv. forseti, hvað fram undan er hjá okkur Íslendingum þá verður ekki sagt að það sé fagurt. --- Og ég fagna því að hæstv. félmrh. er kominn hér til þessarar umræðu og þó fyrr hefði verið. --- Við erum því miður að því er virðist að festast í viðvarandi atvinnuleysi. Það er ekki tímabundið, það er ekki staðbundið heldur viðvarandi og almennt. Ungt fólk kemst ekki út á vinnumarkaðinn, eldra fólk sem missir atvinnu kemst ekki í önnur störf, fyrirvinnur á besta aldri sitja uppi á atvinnuleysisbótum, skólagengið fólk, fólk með mikla starfsreynslu o.s.frv. Allar skuggahliðar viðvarandi og almenns atvinnuleysis eru því miður að láta kræla á sér. Fólk er lengur á atvinnuleysisbótum í hvert sinn en áður var og að lokum bætist það við að nú er nettóinnstreymi á fólki til landsins, þ.e. fleiri flytjast heim en fara út, öfugt við það sem var á atvinnuleysisárum viðreisnarstjórnarinnar en þá var eins konar yfirfall á atvinnuleysi til hinna Norðurlandanna enda atvinnuástand þannig þar að þau gátu tekið við slíkri viðbót.
    Nei, því miður er það svo að satt best að segja er það ótrúlegt að hæstv. forsrh. þjóðarinnar skuli við þessar aðstæður koma í ræðustólinn og hafa þangað ekki meira erindi en raun bar vitni hér áðan. Enn ótrúlegra er það þó að að störfum skuli vera nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem lætur sér helst detta það í hug við þessar aðstæður að auka nú álögur á vinnuaflsfrekar atvinnugreinar. Áhrifamiklir aðilar eins og Reykjavíkurborg eru svo illa komnir fjárhagslega eftir fjárfestingar á þensluárunum að þeir halda nú að sér höndum og það hefur að sjálfsögðu áhrif á atvinnuástandið. Það hefði verið skaplegra að eitthvað af stórhýsum fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík væri nú í byggingu og veitti atvinnu heldur en að bæta þeim framkvæmdum ofan á þenslu liðinna ára.
    Ég tel, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn verði að gera það upp við sig á næstu vikum hvort hún ætlar að stjórna, hvort hún ætlar að veita forustu og benda á leiðir út úr vandanum eða halda áfram að reyna að draga kjarkinn úr mönnum. Ef það er hennar niðurstaða væri henni sjálfri fyrir bestu, svo ekki sé nú talað um þjóðinni, að hún segði af sér strax. Ég tel að það sé hægt að grípa til aðgerða, það sé hægt að skapa samstöðu og víðtæka þátttöku í umfangsmiklum aðgerðum til að treysta hér atvinnu og örva efnahagsstarfsemina á nýjan leik. Þar þarf að mínu mati fyrst að grípa á vanda sjávarútvegsins, úthluta veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs án endurgjalds til jöfnunar og lagfæringa í þeirri grein. Það þarf að knýja fram 1,5--2% raunvaxtalækkun hið minnsta á næstu sex mánuðum. Stjórnvöld þurfa að beita sér fyrir bættum starfsskilyrðum, sérstaklega útflutningsgreinanna með lækkun tilkostnaðar, þjónustugjalda o.s.frv. Það þarf að framkvæma nákvæma könnun á eignastöðu og skuldastöðu sjávarútvegsins til þess að með samræmdum hætti sé hægt að fresta afborgunum, lengja lán og létta á greiðslubyrði þeirra aðila. Það þarf að veita sjóðum og fjárfestingaraðilum heimildir til að auka annaðhvort hlutafé eða breyta skuldum í víkjandi lán.
    Ég tel að við þessar aðstæður ætti að innleiða á nýjan leik auknar skattaívilnanir til handa einstaklingum sem vilja leggja hlutafé í atvinnustarfsemi. Ég tel að það eigi að taka viðmiðunarkörfu gengisskráningar krónunnar til endurskoðunar með það í huga að vægi dollars verði í samræmi við mikilvægi lána og viðskipta íslenskra aðila í þeirri mynt og það eigi að hraða undirbúningi að markaðsskráningu gengisins á næstu missirum. Það á að ráðast í atvinnuskapandi aðgerðir, tvímælalaust. Það er það sem aðrar þjóðir gera við sambærilegar aðstæður. Þar má byggja á samstilltu átaki ríkis, sveitarfélaga, lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar og fleiri aðila. Það á að gera átak til að auka nýtingu innlendrar orku og það á að gera átak til að snúa við óhagstæðri markaðsþróun í íslenskum samkeppnisiðnaði.
    Ég hlýt því að lokum að spyrja hæstv. forsrh.:
    1. Er ríkisstjórn hans tilbúin til þess að grípa til aðgerða af þessu tagi til að berjast gegn atvinnuleysi?
    2. Telur hæstv. forsrh. sig geta setið sem forsrh. ríkisstjórnar sem horfir á atvinnuleysi vaxa um mörg prósent? Og ef ekki, hvenær gerist þá annað tveggja að ríkisstjórn hans komi sér saman um og kynni aðgerðir eða segi af sér ella?
    Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að því fyrr sem núv. ríkisstjórn hættir að vera nútíðarvandi og tilheyrir fortíðarvandanum, sem hæstv. forsrh. hefur orðið svo tíðrætt um, því betra.