Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:23:16 (326)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan bæta fáeinum orðum við í framhaldi af ræðum hæstv. forsrh. og iðnrh. áðan. Í fyrsta lagi fullyrti hæstv. forsrh. að atvinnuástand væri ekki nálægt því eins slæmt hér eða stefndi ekki í að verða það eins og í nálægum löndum. Þetta er því miður einfaldlega rangt og fram á það hefur verið sýnt með tölum. Samkvæmt upplýsingum frá OECD er áætlað að atvinnuleysi í Svíþjóð verði á þessu ári 4,5%, í Noregi um 5,5%, í Japan 2,2%, í Þýskalandi 4,7% og meðaltal OECD-ríkjanna verði 7,5%. Og hver er þá orðinn munurinn ef atvinnuleysi hér stefnir í 4--6% á næsta ári? Ég tel að fullyrðingar hæstv. forsrh. um að þetta séu ósambærilegar stærðargráður hafi verið hraktar.
    Í öðru lagi tók hæstv. forsrh. furðulega til máls í sambandi við afkomu sjávarútvegsins. Hann taldi að hún væri ekki mjög slök á þessu ári. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh.: Hvenær verður afkoma sjávarútvegsins mjög slök að hans mati þegar veiðar og vinnsla samanlagt eru reknar með 7% halla á þessu ári og stefna í að verða reknar með 12--14% halla á næsta ári, hvenær er þá afkoma íslensks sjávarútvegs orðin mjög slök?
    Varðandi batamerkin, sem ekki væru langt undan, nefndi hæstv. forsrh. sérstaklega að halli á ríkissjóði væri smátt og smátt að minnka. Er það byggt á nýjustu upplýsingum um 10--12 milljarða halla ríkissjóðs á þessu ári, hæstv. forsrh.? Í aðalatriðum var þó ræða hæstv. forsrh. á þá leið að þetta væri allt saman meira og minna á réttri leið og í góðu lagi að best varð séð og það sem úrskeiðis hefði farið væri fortíðarvandi. Í eigin ranni fann hæstv. forsrh. ekki eitt einasta atriði til þess að efast um að 100% og hárrétt og nákvæmlega fullkomlega hefði verið stjórnað þennan tíma sem hæstv. forsrh. hefur setið við völd
    Hæstv. iðnrh. flutti líka skringilega ræðu. Hann fullyrti t.d. að vegna veikrar stöðu hins opinbera hefðum við ekki sömu möguleika til að grípa til úrræða og Japanar geta vegna þess hve skuldastaða þeirra er sterk. Staðreynd málsins er sú að opinberar skuldir í Japan eru 63% af þjóðarframleiðslu á sama tíma og þær eru 36,5% á Íslandi. Hvað var hæstv. iðnrh. að fara? Þekkir hann ekki þessar tölur og ef svo fer, hví er hann þá að úttala sig um þær með þessum hætti?
    Ég vil einnig, hæstv. forseti, vekja athygli á merkilegum tíðindum og tímamótum, ég leyfi mér að segja vatnaskilum sem urðu í ræðu hæstv. iðnrh. þegar hann minntist ekki í 15 mínútna ræðu og reyndar rúmlega það í einu orði á álver. Ég fullyrði að þetta er fyrsta ræðan í fimm og hálft ár sem hæstv. iðnrh. flytur án þess að nefna álver á nafn og það eru auðvitað geysileg tímamót á hans ferli.
    Ég ítreka að lokum spurningar mínar til hæstv. forsrh. um úrræði hæstv. ríkisstjórnar. Ég vænti þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. eða einhver annar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar komi hér og svari til um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs og að sjálfsögðu hlýtur hæstv. félmrh. að taka til máls í þessari umræðu um atvinnuleysi. Eða hvar er sá hæstv. félmrh. sem flutti hina hjartnæmu ræðu sl. vor rétt fyrir eða í aðdraganda flokksþings Alþfl.?
    Hæstv. forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Niðurstaðan af þessari umræðu er í raun og veru alveg skýr. Ríkisstjórnin stefnir óðfluga að því að slá atvinnuleysismetið á lýðveldistímanum og bíður þess með hendur í skauti að það met falli.