Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:37:37 (332)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fara nokkrum orðum um atvinnuleysisskráninguna og nýjustu upplýsingar sem liggja fyrir þar að lútandi. Hið aukna atvinnuleysi þessa árs endurspeglar þann mikla samdrátt í efnahagslífi sem verið hefur og felur í raun í sér eðlisbreytingar á atvinnulífinu.
    Á þeim tímum þegar atvinnuleysi var innan við 1% mældu atvinnuleysistölurnar fyrst og fremst tímabundnar og oft staðbundnar sveiflur í veiðum og vinnslu. Nú er það svo að atvinnuleysi tekur til nánast allra atvinnugreina og kemur þyngst niður á ófaglærðum körlum og konum. Þá hefur atvinnuleysi verið mikið í þjónustugreinum og verslun sem fyrr var nánast óþekkt. Þá tekur atvinnuleysi nú til opinberra starfsmanna og háskólafólks sem áður hefur ekki verið. Samhliða hefur atvinnuleysið aukist verulega á höfuðborgarsvæðinu en takmarkast ekki lengur við landsbyggðina eins og oft var áður.
    Annað einkenni á atvinnuleysinu er að atvinnuleysi fólks á aldrinum 25--40 ára hefur aukist og þá bendir margt til þess að varanleiki atvinnuleysis, þ.e. lengd atvinnuleysis hjá hverjum og einum, hafi aukist talsvert. Allt eru þetta vísbendingar sem taka verður alvarlega.
    Síðustu tölur Vinnumálaskrifstofunnar um atvinnuástandið fyrir landið allt eru fyrir júlímánuð en þá voru skráðir 81.000 atvinnuleysisdagar á landinu öllu. Fjöldi skráðra atvinnuleysisdaga svarar til þess að 3.700 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum en það jafngildir 2,7% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði í mánuðinum samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar. Tölur fyrir ágústmánuði liggja ekki fyrir nema fyrir höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt þeim hefur heldur dregið úr atvinnuleysi miðað við mánuðina á undan eða um rúmlega 7.000 atvinnuleysisdaga. Jafngildir það fækkun atvinnulausra um 300, eða úr rúmlega 2.100 í um það bil 1.800 manns. Þykir þetta benda til þess að í ágústmánuði hafi til að mynda aðgerðir sveitarfélaganna í atvinnumálum farið að bera nokkurn árangur.
    Í septembermánuði höfðu fyrirtæki tilkynnt hátt í 500 uppsagnir til Vinnumálaskrifstofu félmrn. samkvæmt lögum um vinnumiðlun. Er það þreföldun miðað við uppsagnir á sama tíma og í fyrra. Hins vegar er ástæða til að vara mjög við því að taka þessar tölur of bókstaflega. Oft koma uppsagnir ekki til framkvæmda og fólk er endurráðið. Breytingar í einu fyrirtæki geta auðveldlega raskað myndinni en inni í þessum tölum eru t.d. rúmlega 100 manns sem sagt var uppstörfum hjá Gutenberg en ljóst er að flestir þeirra verða endurráðnir.
    Atvinnuleysi fyrstu sjö mánuði þessa árs er 2,8% sé tekið mið af reynslu áranna varðandi dreifingu atvinnuleysis á einstaka mánuði. Má áætla að niðurstaða þessa árs verði um 3% atvinnuleysi sem er heldur meira en ráð var fyrir gert í upphafi árs.
    Ég vil í stuttu máli koma inn á nokkur atriði sem ég tel að muni stuðla að eflingu atvinnulífsins til viðbótar því sem fram hefur komið hjá forsrh. og viðskiptaráðherra. Ljóst er að það efnahagsmarkmið ríkisstjórnarinnar að halda niðri verðbólgunni hefur tekist. Ekki skyldi vanmetið að það er einn mikilvægasti þátturinn til að skapa betri skilyrði fyrir atvinnulífið og til að stuðla að eflingu atvinnulífsins og þróun nýrra vaxtagreina og að tryggja atvinnuöryggi sem og að halda niðri framfærslukostnaði heimilanna. Með lágri verðbólgu og aðhaldi í ríkisfjármálum hefur ríkisstjórninni tekist að skapa skilyrði fyrir bættu efnahagsumhverfi fyrirtækja. Áform ríkisstjórnarinnar um að ákveðnu hlutfalli tekna af sölu ríkisfyrirtækja verði

varið í þágu atvinnulífsins er afar mikilvægur þáttur til uppbyggingar atvinnulífsins ásamt þeim tækifærum fyrir atvinnulífið sem EES-samningarnir gefa.
    Ég nefni einnig sameiningu sveitarfélaga sem ég tel engan vafa á að geti stuðlað að hagræðingu og eflingu atvinnulífsins úti á landsbyggðinni. Ég tel ljóst að núverandi skipan sveitarstjórnarmála er hemill á frekari verkefnatilflutning frá ríki til sveitarfélaga. Verkefni á sviði skóla og heilbrigðismála, svo sem rekstur grunnskóla og heilsugæsla, eru betur komin hjá sveitarfélögunum sem og málefni fatlaðra og aldraðra svo dæmi sé tekið. Því er mikilvægt að breið samstaða geti tekist um slíka verkefnatilflutninga til sveitarfélaganna ásamt tilsvarandi tekjustofnum og að til komi aðgerðir í atvinnu-, byggða- og samgöngumálum til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.
    Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin varið verulegum fjármunum til aðstoðar við atvinnulífið. Það hefur gerst með hlutabréfakaupum, lánum, niðurfellingu gjalda, beinum framlögum, styrkjum og árbyrgðum. Lausleg athugun sem Samband ísl. sveitarfélaga gerði fyrr á þessu ári sýndi að hvað kaupstaðina varðar námu slíkar veittar ábyrgðir þeirra um 1,8 milljörðum kr. árin 1987--1991 en framlög til atvinnulífsins í öðru formi um 1,7 milljörðum kr. á sama tímabili eða samtals um 3,5 milljarðar. Þessi framlög og ábyrgðir eru mjög misjöfn eftir kjördæmum. Þau eru hlutfallslega langlægst í Reykjavík en hæst á Vesturlandi og Norðurlandi eystra. Sé tekið dæmi af Vesturlandi þá var varið á sl. fimm árum 955 millj. kr. til atvinnulífsins með þessum hætti og tæpum 1.500 millj. kr. á Norðurl. e. sem er mjög hátt hlutfall af tekjum sveitarfélaganna. Ljóst er að slíkur fjármagnstilflutningur frá sveitarfélögunum til atvinnulífsins er ekki hlutverk sveitarfélaganna sem lamar þá aftur getu þeirra til þess að sinna sínum hefðbundnu verkefnum. En ljóst er að vegna atvinnuástandsins hafa sveitarfélögin verið knúin í þetta og er afar óæskilegt að framhald verði á slíku.
    Ég vil fara nokkrum orðum um niðurfellingu aðstöðugjalds sem hefur nokkuð komið til umræðu. Í janúar 1991 skipaði ég nefnd til þess að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga, einkum með tilliti til nýrra hugmynda og tillagna um skattlagningu atvinnulífsins. Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar var henni m.a. falið að gera tillögur um hvort fella eigi niður aðstöðugjald og hvaða breytingar þurfi þá að gera á öðrum tekjustofnum sveitarfélaga. Þá var nefndinni einnig falið að gera samanburð á tekjustofnakerfi sveitarfélaga hérlendis og í nágrannalöndunum. Nefndin var skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af mér ásamt tveimur fulltrúum tilnefndum af fjmrh. og tveimur af Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Eftir að núverandi sveitarstjórn kom til valda í fyrra var nefndinni falið að starfa áfram. Í stefnuyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar segir að skattlagning fyrirtækja og neyslu verði samræmd því sem gerist með samkeppnisþjóðum og í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir að lög um tekjustofna sveitarfélaga verði endurskoðuð með það fyrir augum að samræma skattlagningu fyrirtækja því sem gerist í nágrannalöndunum. Nefnd þessi lauk störfum í febrúar sl. og skilaði áliti sem sent var öllum sveitarfélögunum þar sem fram koma ýmsir valkostir sem kæmu í staðinn ef aðstöðugjald yrði lagt niður. En nefndarmenn urðu þar ekki sammála um niðurstöðu. Þeir nefndarmenn sem tilnefndir voru af mér og fjmrh. telja aðstöðugjald að ýmsu leyti óheppilegan tekjustofn og því beri að fella það niður, m.a. standi það í vegi fyrir samræmingu í skattlagninu atvinnurekstursins hérlendis og í nágrannalöndunum. Þeir leggja jafnframt áherslu á að sveitarfélögin fái jafngildan tekjustofn í staðinn og breyting þessi verði gerð í tengslum við heildarendurskoðun á skattlagningu fyrirtækja. Nefndarmenn sem tilnefndir voru af Sambandi ísl. sveitarfélaga stóðu ekki að tillögunni um að fella niður aðstöðugjaldið og því heldur ekki um það hvað ætti að koma í staðinn.
    Í framhaldi af þessu tilnefndu ríkisstjórnarflokkarnir tvo fulltrúa hvor í starfshóp til að fjalla áfram um málið og þá einkum um breytta tekjuöflun sveitarfélaga við niðurfellingu aðstöðugjaldsins og sá starfshópur skilaði áliti fyrir skömmu. Það er tillaga meiri hluta starfshópsins að í stað aðstöðugjaldsniðurfellingar hækki útsvar um 1% í sérhverju sveitarfélagi óháð stærð og tekjuþörf, þ.e. að aukinn verði hlutur sveitarfélaganna í staðgreiðslunni sem þessu 1% nemur. Jafnframt komi í hlut hvers sveitarfélags 1,1% hækkun tryggingagjalds á öll laun í sveitarfélaginu og einnig greiði ríkissjóður beint framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í stað landsútsvars.
    Til að mæta tekjutapi ríkissjóðs af aukinni hlutdeild sveitarfélaga í óbreyttri staðgreiðslu og vegna beins ríkisframlags í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er lagt til að tryggingagjald á öll laun verði hækkað um 2,1%. Meiri hluti starfshópsins álítur að tekjur sveitarfélaga og ríkissjóðs verði mjög áþekkar fyrir og eftir greindar breytingar þegar tillit hefur verið tekið til staðgreiðsluinnheimtu tryggingagjalds og útsvars, eftiráinnheimtu aðstöðugjalds og skilvirkari innheimtu tryggingagjalds og útsvars en aðstöðugjalds. Þessi atriði metur starfshópurinn 20% af aðstöðugjaldinu. Álitið hefur verið kynnt í ríkisstjórn. Í framhaldi af því var ákveðið að félmrh. og fjmrh. héldu fund með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem mál þetta yrði rætt áfram. Óskað hefur verið eftir slíkum fundi og verður hann væntanlega haldinn á næstunni.
    Eftir að álit starfshópsins lá fyrir hafa verið athugaðir lauslega fleiri valkostir í því efni hvaða tekjustofnar gætu leyst aðstöðugjaldið af hólmi. Einn af þeim kostum er að í stað hækkunar á tryggingagjaldi sem leggst á launagreiðslur komi einhvers konar skattur á virðisauka í fyrirtækjum. Einnig hefur sú leið verið athuguð að hækkun tryggingagjaldsins verði mismunandi eftir atvinnugreinum. Hef ég lagt fyrir ríkisstjórnina ýmsa valkosti í útfærslu tryggingagjalds í stað aðstöðugjalds og áhrif þess á hinar ýmsu atvinnugreinar. Ég get tekið undir það að þessi leið er að ýmsu leyti gölluð, bæði álagningarstofninn sem slíkur

sem og að ríki og sveitarfélög hafa tekjur af sama gjaldstofni.
    Ég hef því einnig látið skoða þann valkost að gjaldstofn aðstöðugjalds verði virðisauki einstakra fyrirtækja en ekki heildarkostnaður þeirra eins og nú er. Í þeirri leið eru ýmsir kostir fyrir hendi sem nauðsynlegt er að huga vandlega að í samráði við sveitarfélögin og samtök atvinnulífsins.
    Heppilegasta leiðin að mínu mati, sem hefur þó ekki náðst samstaða um, er að sveitarfélögin fái aukinn hlut af staðgreiðslunni sem nemur niðurfellingu aðstöðugjaldsins en ríkið taki að sér skattlagningu atvinnulífsins sem er í samræmi við það fyrirkomulag sem er í nágrannalöndum okkar.
    En þetta er stórt mál sem verður áfram til skoðunar. Ég vil taka fram að ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu til þeirra tillagna sem fjórmenningarnir skiluðu henni fyrir skömmu. Ríkisstjórnin taldi rétt að fá fram afstöðu sambands sveitarfélaga og atvinnulífsins til þeirra tillagna áður en endanleg afstaða verður tekin í ríkisstjórninni.
    Í lokin, virðulegi forseti, vil ég minnast á í sambandi við þessa umræðu að aukin starfsmenntun í atvinnulífinu er mjög mikilvæg við þær aðstæður sem við búum við núna og minni á það frv. sem var samþykkt á Alþingi sl. vor. Ég tel að lög þessi skapi forsendur til þess að efla starfsmenntun í landinu og þar með möguleika þeirra sem hafa ekki náð fótfestu í atvinnulífinu. Alls staðar í Evrópu og Ameríku hafa viðbrögð stjórnvalda við auknu atvinnuleysi verið einmitt í því fólgin að efla starfsmenntun og það er samdóma álit allra að öflug starfsmenntun hafi mikla þýðingu fyrir einstaklingana og atvinnulífið í heild sem nýtur góðs af henni líka.
    Á fjárlögum þessa árs voru veittar 48 millj. kr. til starfsmenntunar í atvinnulífinu á móti 15,5 millj. í fyrra og er þar um nærri þreföldun fjárframlaga að ræða.
    Nú er unnið að ráðstöfun þessa fjármagns og er það von mín að aukið fé til þessa mikilvæga verkefnis skili sér fljótt og vel og ekki síst til þeirra sem hafa átt erfitt með atvinnuöflun.
    Ég vil einnig minna á að á fjárlögum þessa árs voru veittar 15 millj. til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni og það er annað árið í röð sem það er gert. Nú þegar hefur verulegum huta af þessari upphæð verið ráðstafað. Þó hér sé ekki um stóra upphæð að ræða er það mín sannfæring að hún hafi komið að góðum notum. Ráðstöfun fjárins hefur einkum tekið mið af þróunarverkefnum sem líkleg þykja til að fjölga atvinnutækifærum kvenna á viðkomadi atvinnusvæði. Þau atvinnusvæði þar sem atvinnuleysi kvenna hefur verið vaxandi eða varanlegt að undanförnu hafa komið sérstaklega til álita við úthlutun. Atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni hefur sums staðar verið mjög alvarlegt, t.d. á Suðurnesjum þar sem það hefur verið 9--10%. Ég hef trú á því að þrátt fyrir að 15 millj. kr. sé ekki há upphæð skili ráðstöfun þess miklum árangri, hvetji konur og geri þeim kleift að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum í atvinnumálum sem margar hverjar eru mjög athyglisverðar. Þannig hefur þessum fjármunum verið ráðstafað til verkefna eins og minjagripagerðar, framleiðslu á flíkum úr hreindýraskinni, fjarvinnslu, ferðamannaþjónustu og í markaðs- og þróunarstyrki svo sem vegna fiskvinnslu. ( Gripið fram í: Og þetta verður gert áfram?) Ég skal svara þeirri spurningu. Ég tel mjög mikilvægt að á fjárlögum verði áfram veitt fjármagn til þessa verkefnis þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir sem áfram þarf að fylgja við næstu fjárlagagerð.
    Ég hef farið yfir nokkur atriði sem ég tel skipta máli til úrlausnar á því erfiða atvinnuástandi sem þjóðin stendur frammi fyrir og læt hér lokið máli mínu.