Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:51:44 (333)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. félmrh. nefndi í þessum umræðum um atvinnuleysið sameiningu sveitarfélaga sem eitt af tækjunum til að draga úr atvinnuleysinu. Ég vil vara sérstaklega við því, þótt ég sé samþykkur því að sú verði þróunin að stækka sveitarfélög, að það sé lausn á þeim skammtímavanda sem atvinnuleysið er nú. Sameining sveitarfélaga hefur það í för með sér að reynt verður að nýta betur húsnæði og mannafla sveitarfélaganna. Það fækkar fólki en fjölgar því ekki. Sameining sveitarfélaga út af fyrir sig getur því aukið á atvinnuleysisvandann. Þetta vil ég að komi fram í þessari umræðu vegna þess að mér finnst að stjórnvöld séu farin að líta á þetta sem eitt tækið í baráttunni við þann vanda sem við eigum við að glíma í atvinnumálum.
    Ný atvinnutækifæri eru auðvitað lykilatriði og það er ræður úrslitum að forsvarsmenn starfandi fyrirtækja hafi þann grundvöll í sínu starfi að þeir geti leitað að nýjum atvinnutækifærum en séu ekki uppteknir við að bjarga málum frá degi til dags, eins og því miður er nú, vegna þess að mér finnst það ekki hafa komið nógu vel fram í þessari umræðu og stjórnvöld og hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. vilji leiða það hjá sér að sjávarútvegurinn, veiðar og vinnsla, er rekinn með 8% halla. Sameining sveitarfélaga leysir ekki þau mál.