Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:41:03 (342)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Þeirri spurningu var varpað fram áðan í hvaða þjóðfélagi hæstv. forsrh. lifði. Við þeirri spurningu hafa engin svör komið. Það er alveg greinilegt að hæstv. forsrh. lifir ekki í því þjóðfélagi verkafólks og sjómanna, bænda og útvegsmanna og allra síst þeirra þúsunda atvinnulausra sem nú horfa með kvíða til komandi vetrar. Hann umgengst sennilega fáa af þeim 3.600 atvinnulausu Íslendingum sem nú mæla göturnar.
    Hæstv. forsrh. viðhafði hér þau orð að efnahagsmálin væru í jákvæðum farvegi. Ég held að þetta segi meira en mörg orð um þá staðreynd að hæstv. forsrh. hefur alls ekki áttað sig á alvöru málsins. Það virðist ekki á dagskrá að gera neitt við aðsteðjandi atvinnuleysi og hæstv. forsrh. sagði undir lokin áðan að menn mættu ekki að grípa til ráðstafana með skammtímasjónarmið í huga varðandi atvinnuleysi. Það yrði að vera langtímamarkmið, grundvallað á frjálshyggjunni sem réði ferðinni og það yrði þá að hafa það þótt menn gengju atvinnulausir á meðan.
    Ég leyfi mér að halda því fram að atvinnuleysi við íslenskar aðstæður sé verra en allt annað í þessu þjóðfélagi. Það sé óþolandi. Þjóðin er hlutfallslega ung, borið saman við nágrannalöndin. Við skuldum mikið, afborgunarkjör í viðskiptum eru mikil og menn eru með þungar byrðar af verðtryggðum fjárskuldbindingum á bakinu. Það verður þess vegna verulegt hrun og það verða miklar mannlegar hörmungar þegar fullfrískar fyrirvinnur missa skyndilega atvinnuna og fara á atvinnuleysisbætur sem eru eitthvað liðlega 2.000 kr. á dag.
    Ég spurði hæstv. forsrh. að því hvorn tveggja kosta ríkisstjórn hans mundi velja á næstunni, þ.e. að grípa til aðgerða, kynna þær og hrinda þeim í framkvæmd eða segja af sér. Ég tel að í raun og veru hafi hæstv. forsrh. svarað. Hann virðist ætla að taka síðari kostinn.