Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:47:00 (345)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Varðandi síðasta atriðið er ljóst að ríkisstjórnin og ríkissjóður bera þar fulla ábyrgð og mun tryggja að þar komi ekki upp sá vandi sem þingmaðurinn lýsti, annars vegar með fjáraukalögum og hins vegar með fjárlögum. En varðandi það sem hann klifaði á að ég hefði ekki viljað og ekki vilja til þess að draga úr atvinnuleysi heldur láta kenningarnar, sem ég héldi fast í, gilda. Það sem ég sagði og segi og stend við er að það hefur margoft komið fram að gervilausnir einar, sem eiga í augnablikinu að sýnast milda vandann, gera ekki gagn. Verkefnið er að tryggja efnahagsgrundvöllinn. Ef hann er traustur, og það eru menn að leggja einmitt grunninn að í okkar störfum og hefur tekist vel að mínu viti þó það taki tíma, þá verður atvinnustigið þegar til lengri tíma er horft traust.