Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:23:41 (356)


     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur borið fram spurningu sem ekki snertir efnishlið þessa máls. Spurning hans snýst um það grundvallaratriði hvort forseta lýðveldisins hafi verið greint rangt frá. Það er grundvallarregla í okkar stjórnskipan að áður en bráðabirgðalög eru sett verður forsrh. og/eða sá ráðherra sem setur lögin að fullvissa forseta lýðveldisins um að það sé meiri hluti þingmanna á bak við bráðabirgðalögin.
    Nú hefur hv. þm. Stefán Guðmundsson spurst fyrir um hvort það sé rétt að þingflokkur Sjálfstfl. og þingflokkur Alþfl. hafi ekki komið saman til fundar til að taka afstöðu til þessa máls fyrr en eftir að bráðabirgðalögin voru sett. Við vitum það öll hér í þessum sal að ríkisstjórnin lokaði sig inni í sumarbústað forsrh. á Þingvöllum um hádegisbil þann dag sem bráðabirgðalögin voru sett og kom ekki út fyrr en kl. 8 eða 9 um kvöldið með bráðabirgðalögin í hendinni. Síðan lá svo mikið við að ráðuneytisstjóri forsrn. var fluttur í lögreglufylgd á Vesturland til þess að láta forseta lýðveldisins undirrita lögin.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að það er fullkomlega óeðlilegt að halda áfram efnisumræðu um bráðabirgðalögin, virðulegi forseti, fyrr en það fást alveg skýr svör við því hvort forseta lýðveldisins var greint rétt frá eða ekki og það er ekki mjög flókið að svara því. Hæstv. fjmrh., varaformaður Sjálfstfl., þarf ekki annað en koma hér upp í stólinn og svara því með einföldu já-i eða nei-i. Voru þingflokksfundir um efni bráðabirgðalaganna haldnir áður en þau voru sett eða á eftir? Já eða nei. Voru þeir haldnir áður? Já. Voru þeir haldnir á eftir? Já. Það er ekki hægt að ætlast til þess, virðulegi forseti, að þingmenn tali í málinu áfram, eins og virðulegi forseti gaf til kynna, áður en þessu verður svarað og hæstv. fjmrh. skáki í því skjólinu að hann geti bara setið hér og setið lon og don undir umræðunni án þess að svara þessari einföldu spurningu. Þess vegna vil ég ítreka það sem kom hér fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að hæstv. fjmrh. svari því undir þessum lið um þingsköp svo að menn viti hvort verið er að ræða bráðabirgðalög sem hafa verið sett með réttum hætti eða hvort verið er að ræða bráðabirgðalög sem hafa verið sett með þeim hætti að forseta lýðveldisins var ekki greint frá því hvort þingflokkar stjórnarflokkanna stæðu á bak við þessi bráðabirgðalög.