Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:29:56 (359)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þó að þingmenn hafi orðið vitni að því að ráðherrar báru sig saman áður en þeir mættu hér í ræðustól til að gera grein fyrir því hvað þeir ættu að segja, þá er verulegur munur á því hvað þeir tilkynna þingheimi. Hæstv. umhvrh. segir: Að sjálfsögðu var leitað til þingmanna Alþfl. og kannað hver þeirra afstaða var. Það eru hin eðlilegu vinnubrögð að það liggi fyrir. Nú hristir hæstv. umhvrh. höfuðið og það þýðir yfirleitt nei, en ég veit ekki hvort hann telur að Alþfl. hafi þá viðhaft óeðlileg vinnubrögð. Hann verður þá að vera einn um þá skoðun og enn hristir hann höfuðið.
    Hins vegar segir hæstv. fjmrh. að það þurfi ekki að vera meiri hluti. Hann segir: Ríkisstjórnin ein hefur vald á bráðabirgðalögum. Það er einfaldlega ekki rétt. Hvers vegna þurfti þá forsetinn að skrifa undir? Hér liggur spurningin fyrir. Hvað sögðuð þið forsetanum? Það þýðir ekkert að sitja og svara þessari spurningu ekki. Hvað sagði Sjálfstfl. forsetanum? Sagði hann forsetanum að nauðsyn væri svo brýn að þeir teldu að jafnvel þó ekki væri þingmeirihluti yrðu þeir að setja lögin. Þessari spurningu verður hæstv. fjmrh. að svara úr ræðustól. Það þýðir ekki að hrista höfuðið. Ég veit ekki hvað þeir sögðu forsetanum. Það eru ekki nægilega skýr skilaboð að hrista aðeins höfuðið yfir þessari spurningu. Hvað sagði Sjálfstfl. forsetanum? Hvað sögðu ráðherrarnir? Það veit enginn hvort forseti Íslands hefði skrifað undir afturvirk lög, eins og hér var gert, ef sannleikurinn hefði verið sagður um þessa hluti.