Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:41:06 (364)


     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er greinilegt að svo lengi lærir sem lifir. Ég hélt að það færi ekki á milli mála að ætlast væri til að þingmeirihluti lægi fyrir þegar bráðabirgðalög eru sett. Ef það mætti verða til upplýsingar fyrir hv. þingheim gerðist það árið 1980, en þá var forsrh. þjóðarinnar einn virtasti lögfræðingur og einn virtasti stjórnmálamaður Íslands fyrr og síðar, Gunnar Thoroddsen, að þá átti ég í nokkrum útistöðum við ríkisstjórn þó að ég styddi hana að öðru leyti vegna ákveðins máls en það var eins og ýmsir muna enn þá málefni flóttamanns að nafni Gervasoni. Eins og menn líka muna var eins atkvæðis meiri hluti fyrir þeirri ríkisstjórn og ég setti það að skilyrði þegar gefa átti út bráðabirgðalög um efnahagsmál um jólaleytið 1980 að frá þessu máli væri gengið á siðaðan hátt en ekki eins og þáv. hæstv. dómsmrh. ætlaði að voga sér að gera.
    Það fór aldrei á milli mála að þau bráðabirgðalög yrðu ekki sett nema ég féllist á þau og málinu lyktaði með því að þáv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, leysti það mál á fundi með mér og öðrum aðilum úr ríkisstjórninni vegna þess að hann taldi sig þess ekki umkominn að gefa út bráðabirgðalögin nema ég styddi þau og þau hefðu þannig meiri hluta á hinu háa Alþingi. Ég held að það deili enginn um að þetta hafi verið hin eðlilega meðferð málsins.
    Þetta vildi ég aðeins upplýsa vegna þess að svo virðist sem það sé ekki ljóst lengur hvernig standa skuli að setningu bráðabirgðalaga.