Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:46:36 (366)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. átti hér gott erindi í ræðustól. Hann upplýsti það sem áður var fullyrt að það er forseti og ríkisstjórn sem fara með bráðabirgðalagavaldið. Hins vegar sagði hann einnig að það væri góð regla að kanna hvort það væri meiri hluti fyrir útgáfu laganna. Með því var hann að segja að það væri slæm regla að gera það ekki. Þarf nú ekki að fara langt í lögfræðina því að forseti sameinaðs þings á sínum tíma, Þorvaldur Garðar, talaði um að sér hefði verið kennt að gagnálykta. En það neyðir okkur einnig til þess að gagnálykta að hæstv. fjmrh. þegir þunnu hljóði yfir því hvað þeir sögðu forsetanum. Hafi forsetinn verið fenginn til að skrifa undir með því að ljúga að honum er það alvarlegt mál. Þá er það slíkur siðferðisbrestur að það er gersamlega ólíðandi. Þess vegna er ekki um annað að ræða en hæstv. fjmrh. svari því hér og nú: Hvað sögðu þeir forsetanum? Það trúir því ekki nokkur maður hér inni að forsetinn hafi ekki spurt um það hver staða málsins yrði í þinginu. Það trúir því ekki nokkur maður hér inni. Auðvitað hefur forsetinn spurt: Er þingmeirihluti fyrir þessu? Ég vara hæstv. ráðherra við að bera sig meira saman um það hvað eigi að segja. Það er ekki traustvekjandi ef menn þurfa að tala saman og reyna að finna út hvernig þeir eigi að bera vitni í málinu. Þeir hljóta að hafa það traust minni að þeir viti og geti svarað, ef þeir ætla að segja sannleikann umbúðalaust, hvað þeir sögðu við forsetann. Ef þeir þurfa aftur á móti að koma sér saman um það hvað þeir ætla að segja er skiljanlegt að þeir beri sig saman því að það er grundvallaratriði til að menn verði ekki tvísaga. Það er náttúrlega ekkert skrýtið að við venjulegar yfirheyrslur eru menn færðir í sundur svo að þeir geti ekki borið sig saman eins og menn hafa verið að gera núna í salnum.