Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:49:36 (367)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það var vegna þess að ég hélt að það mundi greiða fyrir umræðum sem við tókum þátt í þessari þingskapaumræðu sem hér fer fram. Mig langar til að ítreka að við síðustu breytingar á stjórnarskránni var ekki breytt skilyrðum til útgáfu bráðabirgðalaga. Það kemur skýrt fram í greinargerð með frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem segir: ,,Hér er því ekki um að ræða breytingu á þeim skilyrðum sem verið hafa fyrir útgáfu bráðabirgðalaga`` þannig að það eru nákvæmlega sömu skilyrðin nú og voru áður. Í öðru lagi hefur það komið fram að sá maður sem mest hefur skrifað um þetta efni, sá fræðimaður sem reyndar er fyrrv. formaður Framsfl. skrifar á bls. 323 í bók sinni segir hann m.a. orðrétt:
    ,,Sú framkvæmd hefur samt eigi leitt til neinna verulegra árerkstra milli þings og stjórnar, enda eru bráðabirgðalögin stundum sett í samráði við þingmenn eða þann þingmeirihluta sem stjórnin styðst við eða jafnvel stundum samkvæmt ályktun eða áskorun Alþingis eða meiri hluta þingmanna.``
    Þetta vita allir lögfræðingar og þetta eiga náttúrlega stjórnmálafræðingar að vita líka. Bráðabirgðalögin eru gefin út af forseta Íslands að minni tillögu. Án þess að ég þurfi að geta um það, þá var ég ekki spurður um þetta atriði en það er auðvitað ljóst og hefur komið skýrt fram að það er meirihlutastuðningur við þetta frv. En það er athyglivert að sá maður sem hér gengur fyrstur og fremstur í flokki til þess að gæta þess að sannleikurinn komi í ljós er sá maður sem fyrir örfáum dögum sagði opinberlega þrisvar sinnum að núv. fjmrh. hefði greitt atkvæði með tilteknum hætti á tilteknum degi hér í þessum sal. Þegar því var hins vegar flett upp kom í ljós að fjmrh. hafði verið fjarverandi. Það er athyglivert að þessi fulltrúi sannleikans skuli nú tala um það að einhverjir séu að ljúga að forseta Íslands.