Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:59:43 (373)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þessi umræða um þingsköp hófst vegna þess að sá misskilningur var uppi um að það hefði efnislega þýðingu eða væri skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga að ríkisstjórnarflokkar hefðu kannað hvort þingmeirihluti væri fyrir útgáfu þeirra. Nú hefur það verið leiðrétt og sá misskilningur er ekki lengur uppi. Spurningu um það hvað stjórnarandstaðan telur vera góða reglu í innra starfi stjórnarflokkanna er eðlilegt að bera upp í hinni almennu umræðu um málið. Hún á ekki heima í umræðum um þingsköp og ég bendi hv. þm. á þessi einföldu sannindi í þeim tilgangi að koma efnislegri umræðu áfram. Ég tel að ekki séu lengur forsendur fyrir þeirri þingskapaumræðu sem hér hefur farið fram. Ef brestur hefði verið á því að gætt hefði verið réttra skilyrða um útgáfu bráðabirgðalaganna hefði verið eðlilegt að ræða það undir liðnum þingsköp og eðlilegt að bera slíka fyrirspurn upp. Nú þegar þeim misskilningi hefur verið eytt er rétt að víkja að öðrum atriðum eins og áhyggjuefnum stjórnarandstöðunnar um góða reglu í innra starfi stjórnarflokkanna til hinnar almennu umræðu.