Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:48:49 (388)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þau rök hafa verið færð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, ráðherra í ríkisstjórninni, að þing hafi ekki verið kallað saman í sumar til að fjalla um úrskurð Kjaradóms vegna tímaskorts. Það hafi ekki gefist tími til þess að kalla þingið saman og eyða þeim tíma í þingstörf sem þeir töldu þingið þurfa og þess vegna hefði þingið ekki verið kallað saman. Ég hjó sérstaklega eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. að hann kom með þau rök, sem út af fyrir sig eru athyglisverð, að ekki fari saman hér í þingstörfum ótakmarkaður ræðutími og takmarkaður fundatími. Og ég skal játa að ég hef hugsað svolítið um þetta síðan fjmrh. sagði þetta og ég get verið honum sammála um það að þetta tvennt fer að mörgu leyti afskaplega illa saman og gerir það að verkum að þetta svokallaða málfrelsi, sem ríkir hér í þingsalnum og á að ríkja hér í þingsalnum, verður oft og tíðum það sem má kalla hálfgert frekjufrelsi. Hér verður oft ríkjandi nokkurs konar frumskógarlögmál sem við verðum öll sem hér erum að lifa við og lifa eftir hvort sem okkur líkar það nú betur eða verr. Það er vandmeðfarið, frelsið, og þó að maður hafi frelsi til einhverra hluta er ekki þar með sagt að maður eigi að nýta sér það til hins ýtrasta. Maður þarf sjálfur að skynja hvar mörkin liggja og hvenær maður á sjálfviljugur að setja sínu eigin frelsi ákveðnar skorður. Þetta finnst mér stundum vanta upp á hér í þingsalnum þannig að ég get út af fyrir sig tekið undir þau rök. Hins vegar held ég að tímaskortur hafi ekki verið ástæða fyrir bráðabirgðalagasetningunni í sumar og svokölluð málgleði þingmanna hafi ekki verið það sem hamlaði að þing væri kallað saman.
    Ég vil benda á að það leið langur tími frá því að bráðabirgðalögin voru sett og þar til Kjaradómur kom saman. Fulltrúar í Kjaradómnum voru sumir hverjir í fríi og svo virtist sem þeir væru ekkert að flýta sér til baka og það leið eins og ég segi langur tími, ég man ekki hversu langur hann var, frá því að bráðabirgðalögin voru sett og þar til Kjaradómur kom saman. Á þeim tíma vil ég fullyrða að þingmenn hefðu getað talað frá sér allt vit ef því hefði verið að skipta og notað þennan tíma til þess og komist að einhverri niðurstöðu í lokin um þetta mál. Ég tek það því ekki sem gild rök að það hafi verið tímaskortur og það hafi verið málgleði þingmanna að kenna að ekki var hægt kalla saman þing í sumar. Ég held að ástæðan sé allt önnur. Ég held að ástæðan sé sú að ráðherrarnir vildu stilla sínum eigin þingmönnum andspænis gerðum hlut. Þeir treystu ekki sínum eigin þingmönnum til að koma hér til fundar og fjalla um úrskurð Kjaradóms og standa að lagasetningu og vildu þess vegna setja bráðabirgðalög og stilla þingmönnum sínum andspænis gerðum hlut. Ég held að þeir hafi ekki viljað sleppa þingmönnum sínum lausbeisluðum í þetta mál vegna þess að þeir vissu það sem við vissum öll að þingmenn voru mjög ósáttir við að setja lög á úrskurð Kjaradóms og þó að þeir segðu það ekki margir upphátt þá voru mjög margir ósáttir við það og menn töluðu um það sín á milli og það væri eins og hver önnur hræsni að viðurkenna það ekki. Og það átti alveg jafnt við um stjórnarþingmenn sem stjórnarandstöðuþingmenn. Menn geta síðan verið þeirrar skoðunar að það hafi verið nauðugur einn kostur að gera þetta en ekki voru þeir ánægðir með það, a.m.k. þegar þeir áttu hér tveggja manna tal saman í húsinu.
    En eins og ég segi, menn hafa getað verið þeirrar skoðunar að það væri nauðugur einn kostur að gera þetta og ég ætla ekki að dvelja lengur við bráðabirgðalögin í sjálfu sér, þ.e. formið sem ríkisstjórnin valdi sér til að taka á úrskurði Kjaradóms. Það hefur verið gert hér á undan og ég ætla ekki að dvelja við það heldur ætla ég aðeins að dvelja við inntak bráðabirgðalaganna. Í fyrsta lagi var ríkisstjórninni auðvitað mikill vandi á höndum vegna þess að viðbrögðin voru mjög hörð. Viðbrögðin í samfélaginu voru mjög hörð við úrskurði Kjaradóms og það er kannski ekkert mjög skrýtið vegna þess að núverandi ráðamenn og ráðamenn á undan þeim hafa staðið gegn hvers kyns launahækkunum, kauphækkunum og leiðréttingum og fólk hefur ekki getað sótt neitt slíkt til þessara manna og þess vegna vaknar auðvitað upp mikil reiði hjá almenningi þegar þeir fyrstu til að fá leiðréttingu sinna launa eru kannski þessir sömu ráðamenn og hafa staðið þversum fyrir öllu slíku í langan tíma. Viðbrögðin eru skiljanlega hörð en þau og það hvernig tekið var á þeim einstaklingum, sem sitja í Kjaradómi, eru líka um leið þannig að verið er hengja boðbera slæmra tíðinda því að Kjaradómur gerði það sem honum bar að gera skv. 6. gr. þágildandi laga eins og segir:
    ,,Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í launum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.``
    Og það var það sem Kjaradómur gerði. Hann fór og kannaði hver væru laun þeirra sem geta talist sambærilegir með tilliti til starfa og ábyrgðar og hann komst náttúrlega að því að þau laun eru svo miklu hærri en launin t.d. hjá þingmönnum og ráðherrum svo að við tölum nú hreint út úr pokanum. Þó að við, þingmenn og ráðherrar, höngum ekkert á horriminni og sé engin vorkunn miðað við marga í þessu samfélagi þá eru kannski þessir hópar samt sem áður í stjórnkerfinu eins og taxtavinnufólkið er á almennum markaði, þ.e. það eru ákvörðuð laun þessara hópa og það er ekkert greitt umfram það. Það er alveg eins og hjá taxtavinnufólkinu á almenna vinnumarkaðinum. Það fær laun samkvæmt þeim töxtum sem í gildi eru og ekkert umfram það. Og þess vegna hefur myndast þessi gjá t.d. milli taxtavinnufólks og hópa sem geta skammtað sér laun sjálfir og milli þingmanna og ýmissa aðila í stjórnkerfinu sem geta að ýmsu leyti skammtað sér laun eða bætt launin sín upp með yfirvinnu og álagsgreiðslum.
    Við vitum það að yfirborganir af öllu tagi eru alþekkt fyrirbæri og þær eru sérstaklega þekkt fyrirbæri hjá körlum í stjórnunarstöðum því að hvergi eru þær eins tíðkaðar og þar. Og við þurfum ekki annað en kíkja á lífskjarakannanir sem gerðar eru. Það var t.d. unnin lífskjarakönnun fyrir BSRB árið 1990, 25. okt. 1990. Þar kemur fram að ef litið er á félagsmenn BSRB og ASÍ þá taka 87,7% karla innan BSRB laun samkvæmt töxtum og 89,7% kvenna. Þetta eru opinberir starfsmenn í BSRB. Hjá ASÍ taka 41,8% karla laun samkvæmt töxtum og 62,6% kvenna. Þetta segir samt ekki alla söguna vegna þess að fólk innan ASÍ er mjög missett. Það er mikill launamunur innan ASÍ eins og víða annars staðar og ef við lítum á ASÍ og skoðum hvaða starfshópar þar fá greitt samkvæmt taxta þá eru það 60,6% af almennum starfsmönnum sem fá greitt samkvæmt taxta en aðeins 21,9% af deildastjórum og hærri yfirmönnum. 45% af deildarstjórum og hærri yfirmönnum eru með samning án taxta, þ.e. þeir eru með einstaklingsbundinn samning við sinn atvinnurekanda. Þetta er veruleikinn sem blasir við okkur á vinnumarkaðinum. Og það var í rauninni þetta sem opinberaðist svo hræðilega í úrskurði Kjaradóms.
    Ég sagði áðan að það hefði ekki um langt árabil mátt hrófla við töxtum og ríkisvaldið og atvinnurekendur hafa ekki síst staðið gegn slíku. Það hefur svo sem verið reynt að sækja leiðréttingar en þær hafa ekki fengist. Afleiðing þess að ekki hefur fengist leiðrétting á lægstu launum og hækkun taxtakaups hefur verið aukinn launamunur í samfélaginu og ekki síst aukinn launamunur milli karla og kvenna vegna þess eins og ég lýsti áðan að konur taka fyrst og fremst laun samkvæmt töxtum. Þjóðhagsstofnun gerði úttekt á dreifingu atvinnutekna frá 1986--1990 og þar kemur fram að tekjumunur eykst öll þessi ár og það er einmitt á þessum árum sem alltaf er verið að reyna að frysta launin, halda launatöxtunum niðri.
    Í þessari frétt frá Þjóðhagsstofnun kemur fram að tekjuójöfnuður hafði aukist einkum á milli áranna 1989 og 1990 og síðan var þjóðarsáttin frysting á því en þá færðist um 0,9% af tekjunum frá tekjulægri helmingnum til hins tekjuhærri. Í krónum talið nemur tilfærslan tæpum 950 millj. kr.
    Menn hafa talað um þjóðarsáttina og nefnt að hún hafi verið einhvers konar vopnahlé sem þingmenn hefðu líka átt að taka þátt í. Mér finnst auðvitað alveg sjálfsagt að þeir þingmenn og þeir ráðamenn sem hvað ákafast hafa prísað þessa þjóðarsátt og talið hana af hinu góða geri það og lýsi auðvitað mórölskum stuðningi við það að halda þingmönnum líka í frosti og ráðherrum og öðrum mönnum. Ég get hins vegar ekki tekið þátt í því að prísa þjóðarsáttina vegna þess að þjóðarsáttin var í raun og veru frysting á slæmu ástandi og frysting á ákveðnum launamun. Ég get ekki tekið þátt í að prísa hana og talað hér fyrir því að allir hefðu átt að taka þátt í þjóðarsátt. Það er ekki mín skoðun.
    Það er kannski dálítið athyglisvert að standa í þessari umræðu um bráðabirgðalögin og um nýtt frv. um Kjaradóm og kjaranefnd með einmitt nýjar upplýsingar í höndunum um laun æðstu manna í stjórnkerfinu, atvinnulífi og viðskiptum sem hafa verið að dynja á okkur á undanförnum dögum. Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig --- af því að talað hefur verið um þjóðarsáttina sem vopnahléi. Tóku þessir menn þátt í því vopnahléi? Það þarf enginn að segja mér að þeir hafi gert það. Það kemur þá a.m.k. ekki fram í krónum og aurum og sá launamunur, sem við blasir þegar maður les þessar kannanir, er vandamálið sem við blasir, það er vandamálið sem við þurfum að taka á. Ef við lítum á þessa forstjóra þá hafa þeir tekjur upp á milljón og 1,2 millj. kr. á mánuði. Þeir eru með sexföld þingmannalaun og þeir eru með timmtán- ef ekki tuttuguföld lágmarkslaun. Þetta er launamunur sem er ekki hægt að þola og það er bara siðferðilega rangt að taka þessi laun í samfélaginu í dag, ég tala nú ekki um að taka laun af þessu tagi í ríkisfyrirtæki, í ríkisreknum bönkum. Tökum Landsbankann, Seðlabankann eða Búnaðarbankann sem dæmi. Það er siðferðilega rangt að þeir sem eru í stjórnunarstöðum í þessum bönkum séu með frá 800 þús. og upp í milljón á mánuði. Það er ekki hægt að sætta sig við það. Og það er þetta vandamál sem við verðum að taka á, það er þessi launamunur sem gerist m.a. vegna tvískinnungsins í samfélaginu. Það má aldrei hrófla við taxtakaupi, það má aldrei hreyfa það og meðan leika þeir lausum hala til að geta samið fyrir sig sjálfir. Þetta er vandamálið sem við blasir og vandamál sem mér sýnist að með því frv., sem hér liggur fyrir og verður væntanlega rætt á eftir, að ekki eigi að taka á, heldur á nú bara eina ferðina enn að sópa öllu undir teppið með nýjum lögum. Næsta skref á að verða það að þingmenn og ráðherrar eigi eins og allir aðrir að fá greidd föst laun og svo eitthvað sem heitir önnur laun. Það má, og ég hef ekki heyrt nein sérstök mótmæli eða reiði yfir því í samfélaginu að það skuli eiga að koma á slíku kerfi. Nei, það er allt í lagi því að þannig er það hér fyrir utan svo að þingmenn mega vera með í þeim leik. Og ætli það yrði þá ekki leiðin sú til þess að reyna að bæta kjör þingmanna og til þess að sigla nú lygnan sjó og fá engar reiðiöldur á móti sér, að hreyfa aldrei föstu launin heldur bara það sem heitir önnur laun? Það verður leikurinn sem verður leikinn og þannig er hægt að viðhalda tvískinnungnum.
    Þetta ætlaði ég að hafa mitt innlegg í þessa umræðu að sinni hvort sem maður blandar sér í hana á síðari stigum eða ekki.