Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:02:49 (389)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það var ekki hugmyndin að halda langa ræðu í lok þessarar umræðu. Það eru fleiri mál hér á dagskrá sem tengjast þessu dagskrármáli og mér sýnist full ástæða til þess að færa þá umræðu hér inn sem af því getur hlotist að flutt sé framsöguræða um það mál.
    Ég vil þó vegna umræðunnar, sem hér hefur átt sér stað í dag, segja frá því að eftir því sem mér sýnist þá hefur ekkert komið fram í þessari umræðu sem bendir til þess að útgáfuréttur bráðabirgðalaga sé annar eða öðruvísi en hann var áður en síðasta stjórnarskrárbreyting átti sér stað. Mér er kunnugt um það eins og margoft hefur komið fram í ræðum þingmanna að þau sjónarmið voru uppi þegar stjórnarskránni var breytt síðast og reyndar þingskapalögum að þrengja ætti rétt til að gefa út bráðabirgðalög en niðurstaðan varð ekki sú. Þvert á móti, eins og skýrt og greinilega kemur fram í frv. til breytinga á stjórnskipunarlögum, var stjórnarskránni breytt til þess að hægt sé að gefa áfram út bráðabirgðalög. Það er beinlínis tilgangur breytingarinnar að tryggja að ríkisstjórnin geti áfram gefið út bráðabirgðalög. Þetta kann að þykja nokkuð undarlegt en þannig er það samt því að ef stjórnarskrárákvæðið í 28. gr. hefði verið óbreytt hefði verið útilokað fyrir ríkisstjórnina að gefa út bráðabirgðalög vegna þess að gamla stjórnarskrárákvæðið var á þann veg að einungis mætti gefa út bráðabirgðalög á milli þinga. En með breytingum, sem urðu á stjórnarskránni um þingtímann, var enginn tími á milli þinga. Til að tryggja að ríkisstjórnir gætu gefið út bráðabirgðalög var stjórnarskránni breytt og ég bið hv. þm. að athuga þessi orð mjög gaumgæfilega vegna þess að það kemur skýrt fram í greinargerð með þessari breytingu að tilgangurinn var ekki að breyta

skilyrðum til útgáfu laganna.
    Önnur spurning, sem nokkuð hefur verið til umræðu, er sú hvort ríkisstjórninni hafi borið að kalla þingið saman. Ég er einn í hópi þeirra sem telja að það eigi að breyta lögum á þann veg að auðveldar sé við þau skilyrði sem komið geta upp í þjóðfélaginu að grípa þurfi til löggjafar með tiltölulega skömmum fyrirvara að auðvelda það með því að lög séu á þann veg að tryggt sé að slík frumvörp, sem kæmu væntanlega frá ríkisstjórn, gætu fengið umfjöllun á hinu háa Alþingi á tiltölulega skömmum tíma. Í framsöguræðu minni minntist ég á að í Danmörku er yfirleitt einn dagur látinn nægja til þess á mjög fjölmennri löggjafarsamkomu. Því miður eru lög hér á landi ekki á þann veg.
    Alþingi kom sama hinn 17. ágúst í sumar. Ég vona að ég fari rétt með en mér skilst að það sé ekki búið að vísa einu einasta máli til nefndar. Í dag er 8. september og ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns þar sem hann fjallaði um þennan kafla ræðu minnar að þetta er vandamál sem stöndum frammi fyrir og ég held að við ættum að viðurkenna það hér í þinginu. Þjóðin sér það á hverjum degi nú þegar umræðum er sjónvarpað að umræður hér eru allt of langar og ganga oft ógreiðlega. Ég er ekki hér með að ráðast að stjórnarandstöðu frekar en öðrum heldur einungis að benda á að þetta málfrelsi er svo ríkt í okkur og við teljum það svo órofið frá öllu lýðræðinu að við gleymum því stundum að ef málfrelsinu fylgir takmarkaður fundartími getur lýðræðið snúist upp í öndverðu sína og orðið eins konar frekjuræði, svo ég minnist nú á það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég viðurkenni sem sagt að um þetta megi deila og tel að umræður um slíkt séu eðlilegar.
    Í umræðunni komu auðvitað fram mörg gild og góð sjónarmið sem ég ætla ekki að fjölyrða um. Ég tel að mál séu öðruvísi nú en þegar bráðabirgðalögin voru sett sumarið 1990 og gagnrýni okkar þá sé í sjálfu sér í fullu gildi í dag. Gagnrýnin þá var á þann veg að frá 1. febr. og fram til 1. maí hefði verið leikur einn, og á það var reyndar bent á þinginu, að koma fram með frv. til að breyta ef stjórnin hefði þá haft áhuga á að breyta fyrirliggjandi kjarasamningi, einkum 1. gr. í kjarasamningi ríkisins við BHMR. Það var ekki gert og það var ekki fyrr en félagsdómur féll sem ríkisstjórnin brást við með þeim hætti að setja bráðabirgðalög og gagnrýni okkar byggðist á því að þau væru sett á dóminn. Nú hefur undirréttardómur ekki fallist á þá skoðun. Hæstaréttardómur hefur enn ekki fallið en fellur væntanlega næsta haust og gæti auðvitað haft þýðingu í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Og reyndar er hæstaréttardómurinn merkilegur vegna þess að hann hlýtur að taka á því sem undirréttardómurinn tók á í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins og reyndar í sögu íslensku stjórnarskrárinnar en það er að gefa í skyn að það sé ekki alfarið álit bráðabirgðalöggjafans sem ræður því hvenær brýna nauðsyn beri til. Það er gefið í skyn í undirréttardómnum að það sé hugsanlegt að dómstólar geti lagt mat á þetta. Þetta er auðvitað mikilvægt fyrir þá sem setja lög, hvort sem það eru bráðabirgðalög eða önnur lög.
    Menn fjalla stundum um bráðabirgðalög með þeim hætti að þau séu eitthvað öðruvísi en önnur lög. Sannleikurinn er sá að samkvæmt ævafornum lögum, þ.e. lögum frá síðustu öld, þetta á rætur sínar að rekja til konungsvaldsins, þá hafa ríkisstjórnir haft þennan rétt á meðan þing situr ekki og það gildir einu hvort ríkisstjórnirnar eru minnihlutastjórnir eða meirihlutastjórnir og hefur í sjálfu sér enga þýðingu hvort meiri hluti þingmanna stendur að baki laganna þegar þau eru sett þó það hafi oft verið gert að kanna það. Stundum hefur ekki gefist tími til þess og ég las það upp fyrr í umræðunni hvernig sá maður orðar það sem mest hefur um þetta skrifað, en það er fyrrverandi prófessor í lögum og forsætisráðherra, Ólafur Jóhannesson, í bók sinni, mig minnir á bls. 323 --- og þá er ég með nýjustu útgáfu þeirrar bókar, þ.e. sem var gefin út af Gunnari G. Schram þannig að blaðsíðutalið er án efa annað í elstu útgáfunni, þeirri sem ég las þegar ég var í skóla og hv. þm. Eyjólfur Konráð og fleiri sem tóku lagapróf við Háskóla Íslands fyrir ævalöngu síðan. En þetta er nú önnur saga.
    Það sem mér þótti hins vegar athyglivert hér í umræðunni var það sem fulltrúi Alþb. sagði, hv. þm. Jóhann Ársælsson því að mér fannst hann, og ég held að ég hafi ekki misskilið hann, hann getur þá leiðrétt það, en mér fannst hann gefa það í skyn að raunverulega hefði mátt ræða það þegar þingið sat í vor eða jafnvel eftir að þingið fór heim að setja lög sem tryggðu það að ekki væri hróflað við meginstefnu þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í apríl. Þar með finnst mér koma fram í máli hv. þm. að hann sé að gefa það í skyn að það sé eðlilegt að tryggja þá samninga með því að beita lögum á þá sem ekki höfðu gert slíka samninga, bæði þá sem taka laun samkvæmt úrskurði Kjaradóms og eins hinna sem ekki hafa enn gert samninga til að mynda við ríkið eins og BHMR. Þetta er mjög athyglisvert sjónarmið og er kannski ekkert skrýtið að það skuli vera nefnt en það er gjörsamlega á svig við það sem ég vil sjá. Því að þótt illa hafi tekist til á því sviði í mörg undanfarin ár, þá vil ég að samningarétturinn sé virtur og að menn komist að samkomulagi um kaup og kjör en að það þurfi ekki að grípa til laga. Slysið frá 1990 á að kenna okkur það, eða 1989 þegar þáv. fjmrh. gerði samning við BHMR og síðan skildu menn ákveðnar greinar í samkomulaginu með gjörsamlega ólíkum hætti og það var upphafið að því slysi sem átti sér stað sumarið 1990.
    Allt öðruvísi er með þetta mál sem við erum að fjalla hér um í dag. Það hefur margoft komið fram, og ég vil ítreka það hér, að Kjaradómur leitar fanga og upplýsinga mjög víða, þar á meðal í fjmrn. hjá starfsmannadeild og starfsmannaskrifstofu fjmrn. eins og um var spurt, en það er ekki þannig að fulltrúi fjmrh., sem reyndar var nú skipaður af fyrrv. fjmrh., komi til fjmrh. og spyrji hann um það hvernig hann eigi að haga málum sínum í Kjaradómi. Þvert á móti sagði þessi fulltrúi við mig að þeir hefðu rætt

þetta mál sérstaklega, einnig fulltrúi félmrh., sem reyndar skilaði sératkvæði, var í minni hluta, að þeir ættu að greiða atkvæði og fella sinn dóm eða taka sína ákvörðun kannski öllu heldur á grundvelli laganna. Og það gerðu þeir og ég er sammála því sem hér hefur komið fram að það er ekki efni til þess að gagnrýna í sjálfu sér vinnubrögð Kjaradóms. Ég get t.d. ekki sagt að þeir hafi komist að annarri niðurstöðu en lögin buðu þeim. Þvert á móti hef ég gagnrýnt það að þeir hafi látið undir höfuð leggjast árum saman að gera þennan samanburð og að fylgja lögunum, einmitt vegna þess, held ég, að mestallan tímann voru kjör bundin í lögum. Kjörin voru bundin í lögum. Það breytti hins vegar ekki því að á fáeinum dögum eftir að Kjaradómur var kveðinn upp, 26. júní, gerbreyttist staðan í þjóðfélaginu. Uppi voru mjög háværar kröfur um það, þar á meðal hjá langfjölmennustu launþegasamtökunum, að ef dómurinn yrði látinn standa krefðust þeir sömu launahækkunar og þar voru nefndar prósentutölur upp í 90% ef ég man rétt þannig að við svo búið gat ekki staðið. Ríkisstjórnin ákvað þess vegna að grípa til bráðabirgðalöggjafarvaldsins og um það hefur verið deilt hér og ég held að öll sjónarmið hafi komið mjög vel til skila.
    Ég held, virðulegi forseti, að það sé ekki ástæða fyrir mig til að fjölyrða meira um þetta mál. Ég vænti þess að það geti gengið greiðlega til nefndar, en bendi hv. þm. á að í raun má halda áfram efnisumræðunni við þá umræðu sem í hönd fer að þessari umræðu lokinni því þá verður fjallað um frv. til laga um Kjaradóm og kjaranefnd sem er auðvitað náskylt mál því sem hér hefur verið til umræðu.