Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:18:49 (391)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er sagt að orð standi gegn orði. Ég hef hvergi heyrt neitt koma fram hér í umræðunum og ekki heyrt neinn mæla gegn því að það stendur skýrum stöfum í greinargerð með stjórnarskrárfrv. þessi setning, með leyfi forseta: ,,Hér er því ekki um að ræða breytingu á þeim skilyrðum sem verið hafa fyrir útgáfu bráðabirgðalaga.`` Og að þessi breyting átti sér stað til þess að tryggja að ríkisstjórnir gætu gefið út bráðbirgðalög með sama hætti og áður, bókstaflega með þeim hætti.
    Hitt er svo önnur saga hvort menn hafi hugsað sér að láta kalla þingið saman frekar en gefa út bráðabirgðalög. Ég get fallist á að það hafi verið hugmynd manna, en því miður breyttu menn þingskapalögum ekki í takt við þau sjónarmið eins og ég sýndi einnig fram á í upphafsræðu minni hér um daginn.
    Þetta vildi ég að kæmi mjög skýrt fram og varðandi Ólaf Jóhannsson, þá veit ég að ef hv. þm. les kaflann eftir prófessor Ólaf Jóhannesson, þá er það alveg kristaltært hjá honum, og kemur reyndar enn betur fram hjá Bjarna Benediktssyni og Einari Arnórssyni, að þeir telja að það sé bráðabirgðalöggjafinn sjálfur sem geti einn metið það hvort brýn nauðsyn var fyrir hendi. Við getum auðvitað deilt um það hér hvort mönnum þykir svo. Það eru eingöngu dómstólar sem geta dæmt og í fyrsta skipti á sl. ári gat undirréttur þess að það kynni að fara svo að dómstólar gætu í framtíðinni metið það hvort brýna nauðsyn bar til á þeim tíma sem bráðabirgðalög voru sett.