Fjarvera forsætisráðherra

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 17:08:12 (402)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Miðað við þá verkaskiptingu innan ríkisstjórnarinnar að hæstv. forsrh. hefur mjög verið í forsvari fyrir umræðu um efnahagsmál eins og honum ber, þ.e. almenn efnahagsmál heyra undir forsrh., þá er að mínu viti vonlaust að þessi umræða fari fram nema það sé vitað að hæstv. forsrh. hafi tíma aflögu til að gegna sinni þingskyldu. Það er náttúrlega algerlega út og suður að búa við það að menn tilkynni ekki forföll en mæti svo ekki. Forfallalistinn er lesinn upp. Þjóðin veit að þessir menn hafa óskað eftir því að vera fjarverandi. Þjóðin trúir því að hinir séu að störfum. Þetta er eins og að stimpla sig inn

um morguninn og hverfa svo bara á braut og mæta ekki nema til að stimpla sig út. (Gripið fram í.) Það breytir engu þó að hv. 5. þm. Austurl. veki á því athygli að vafalaust hafi hæstv. forsrh. eitthvað fyrir stafni. ( Gripið fram í: Hann er kominn í innsta hring stuðningsmanna forsrh.) Það er ekki verið að bera það á forsrh. að hann sofi eða neitt slíkt. Það er gersamlega vonlaust að búa við það að hér sé tekin upp þessi umræða án þess að hæstv. forsrh. heiðri þingið með nærveru sinni.