Fjarvera forsætisráðherra

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 17:11:43 (404)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það stendur ekki til að gera lítið úr vinnuframlagi hæstv. fjmrh. á þessum drottins degi. Hann hefur gegnt sinni þingskyldu fullkomlega og verið til hreinnar fyrirmyndar hvað það snertir. Það vill svo til að hann fer aðeins með eitt ráðherraembætti, hann fer með embætti hæstv. fjmrh. Undir forsrh. heyra efnahagsmál. Það er ekki nýtilkomið, það er ekki skipting sem orðið hefur milli þessarar ríkisstjórnar sérstaklega. Þetta er einfaldlega bundið á þann veg og kjarasamningar opinberra starfsmanna eru málefni sem eðlilegt er að séu rædd í tengslum við almenn efnahagsmál. Það fer ekkert á milli mála. Mér finnst að annaðhvort sé verið að gera of mikið úr hæstv. fjmrh. eða of lítið úr hæstv. forsrh. með því að litið sé svo á að það skipti ekki máli hvort hann er við eða að hæstv. fjmrh. geti tekið að sér líka að vera fyrir hans hönd.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst ansi hart sótt fram í þessu máli ef það er gersamlega vonlaust að fá hæstv. forsrh. á þennan fund í ljósi þess að hann hefur ekki beðið um fjarvistarleyfi. Það er þó einfalt mál hjá forseta þingsins að athuga það hjá skrifstofunni hvort hæstv. forsrh. óski eftir fjarvistarleyfi. Ef hér liggur fyrir ósk um fjarvistarleyfi munum við að sjálfsögðu ekki krefjast þess að hann lúti neinum öðrum reglum en aðrir og það verði hægt að verða við því. Meðan slík ósk liggur ekki fyrir hlýtur að vera hægt að fara fram á það að hann mæti hér til fundar eins og gert hefur verið þegar óskað er eftir því að ráðherrar séu við. Ég held að þar breyti engu hvort mætur þjóðhöfðingi frá Noregi er hér staddur. Reglur þingsins eru þær sömu.