Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 18:36:14 (413)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að biðja hæstv. forseta að kanna hvort hæstv. fjmrh. vilji halda umræðunni áfram. Mér er ekki alveg grunlaust um að hann ætti að vera annars staðar, en ég sé nú að ráðherra vill halda henni áfram.
    Ég skal gera mitt ýtrasta til þess að lengja hana ekki mikið en ég vil byrja á að segja örfá orð um svona lagasetningu almennt. Þegar maður fer að lesa frv. og öll þau önnur lög sem frv., ef að lögum yrði, mundi breyta fer ekki hjá því að maður verði svolítið áhyggjufullur yfir hvort gætt hafi verið þess sem stendur í öðrum lögum. T.d. má benda á eða ég hef alltaf skilið það svo að fólk sem fær laun samkvæmt Kjaradómi eigi það sameiginlegt, ásamt reyndar mörgum öðrum, að það hefur ekki verkfallsrétt og ég vænti þess að það sé rétt skilið. Þegar ég hins vegar fór að leita að því hvar það stæði eiginlega í lögum þá er það nú ekki alveg auðséð. Í lögum nr. 94 frá 1986 er talað um til hverra heimild til verkfalls nái eigi. Þar er vísað í 29. gr laga nr. 38 frá 1954, en þá kemur í ljós að sú upptalning er raunar ekki um það fólk sem við erum að tala um. Hins vegar hnaut ég um grein í 29. gr. laga nr. 38/1954 sem kemur að lokinni upptalningu á ýmsum þeim sem ekki eiga verkfallsrétt en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrir 1. febrúar ár hvert skal fjármálaráðherra birta lista yfir þá starfsmenn sem falla undir 5. og 6. tölul. þessarar greinar.``
    Ég hef aldrei séð slíkan lista. Nú kann að vera að hann sé ævinlega gefinn út en ég hef alla vega aldrei séð hann. Síðan kemur í ljós, eins og menn urðu vitni að er ég sat í forsetastóli fyrir stundu síðan, að ákveðið var að ræða bæði 46. og 47. mál en allt eins hefði mátt ræða 63. og 71. mál því þar er fjallað um tengd frumvörp. Annað fjallar um laun ríkisendurskoðanda en hitt laun ríkissáttasemjara. Þannig að þetta sýnist allt svona heldur tætt. Og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort það er bara sjónleysi mitt eða eftirtektarleysi að ég finn hvergi hver laun umboðsmanns Alþingis eigi að vera. Ég hélt að þessi tvö meginembætti sem heyra undir hið háa Alþingi, umboðsmaðurinn og ríkisendurskoðandi, væru meðal æðstu embættismanna þjóðarinnar en ég kem hvergi auga á umboðsmann. Nú tek ég leiðréttingu ef hún kemur en ég reyndi mitt besta til að finna hana í þessari upptalningu.
    Ég skal stytta mál mitt mjög. Ég held að þetta mál þurfi að skoða mjög vandlega og ekki síst lagabálka eins og lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lög um stéttarfélög og vinnudeilur og ótal aðra lagabálka sem ég er dauðhrædd um að kynnu nú að stangast á við frv. ef að lögum yrði. Þá á ég, eins og svo margir aðrir sem hér hafa talað, afar erfitt með að sjá hvaða tilgangi það þjónar að fara að skipta Kjaradómi upp í Kjaradóm og kjaranefnd. Ég leitaði með logandi ljósi hver væri í raun og veru stöðumunur þeirra sem taka laun samkvæmt kjaranefnd og þeirra sem taka laun samkvæmt Kjaradómi og mér

finnst það ekki ljóst. Ég get ekki séð annað en að allir þessir aðilar gætu átt heima innan Kjaradóms eða væru verkefni Kjaradóms eins og þeir hafa verið.
    Þá bendi ég á að 6. gr. sem fjallar um verkefni Kjaradóms og hins vegar 10. og 11. gr. sem fjallar um verkefni kjaranefndar eru afskaplega óljósar og erfitt að sjá greinilegan mun á þessu tvennu. Ég held því að sú nefnd sem fær þessi frumvörp ætti að skoða mjög vel sinn gang og líta til allra þeirra laga sem fjalla beint eða óbeint um réttindi og skyldur embættismanna ríkisins því að ég held að þar þyrfti að taka upp ýmislegt til samræmingar sem annars kynni að verða dálítið einkennilegt í framkvæmd.
    En ég ítreka auglýsingu mína eftir því hvar umboðsmaður Alþingis eigi að búa í hinu nýja frv.