Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 19:20:00 (416)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst og hef fengið upplýsingar um að laun umboðsmanns Alþingis eru ákveðin með lögum um það embætti. En ástæðan fyrir því er auðvitað sú að það var ekki verið að taka upp lög um Kjaradóm þegar þau lög voru sett og þess vegna eru laun umboðsmannsins í þeim lagabálki sjálfum. En það sem ég var einmitt að benda á er að þegar hvort sem er er verið að setja ný lög um Kjaradóm þá finnst mér ástæða til að færa inn í upptalningu þar þá sem taka í raun og veru laun samkvæmt Kjaradómi og það séu þá öll þau laun á sama stað.
    Aðeins af því að ég gleymdi því áðan þá finnst mér óeðlilegt með öllu það sem stendur í 7. gr. að einn nefndarmanna skipi fjmrh. samkvæmt tilnefningu forseta Alþingis. Ég leyfi mér stórlega að efast um að það geti verið í verkahring forseta Alþingis að tilnefna í kjaranefnd. Ég held að það hljóti að vera eðlilegra að Alþingi geri það en ekki forsetinn einn og sjálfur. Ég tel það mjög óeðlilegt að það sé lagt í vald forseta þingsins að tilnefna í slíka nefnd.
    Þriðja atriðið sem ég vil minnast á til umhugsunar og ætlast ekki til að fá svör núna en eins og allir vita má ríkisstarfsmaður, sem kjörinn er á þing, einungis halda hálfum launum ef hann heldur þeirri stöðu sem hann gegndi. En engin ákvæði eru þó um að menn stjórni stórum stofnunum, sjálfseignarstofnunum, einkafyrirtækjum, verkalýðsfélögum eða hverju öðru, og varðandi það að ráðuneytisstjórar séu kannski skipaðir í einhverjar nefndir, þá finnst mér að inn í þetta hefði átt að koma ósköp skýrt ákvæði eða hliðarfrv., hvernig sem menn vilja hafa það, um að hv. þm. gegni ekki launuðum störfum sem kefjast fjarveru frá þingi þegar það situr. Það er auðvitað þeirra eigið mál hvað þeir kunna að gera í frístundum sínum. En það er siðlaust með öllu að menn taki laun á tveimur stöðum eða í tveim stofnunum, hinu háa Alþingi og einhverjum öðrum stofnunum sem starfa á sama tíma. Það segir sig auðvitað sjálft að á öðrum hvorum staðnum eru menn að svíkjast um. Og það veikir stöðu hv. þm. verulega í allri umræðu um launakjör þeirra þegar í ljós kemur að hið eiginlega þingfararkaup er ekki nema lítið brot af þeim tekjum sem kemur í ljós að menn hafa. Ég held að það sé kominn tími til að taka inn í þetta aðrar stofnanir en stofnanir á vegum ríkisins. Það er viðveruskylda hér á hinu háa Alþingi og það hlýtur því að vera harla óeðlilegt að menn geti beinlínis, eins og ég kann dæmi um, auglýst viðtalstíma í þeirri stofnun sem þeir stjórna á yfirlýstum þingtíma. Ég held að menn verði að líta til þessa ef einhvern tíma á að koma eitthvert vit í þessi laun sem hér er verið að fjalla um.
    Hæstv. forseti. Ég hefði kosið að halda miklu lengri ræðu. Það er af einni saman vinsemd við hæstv. fjmrh. að ég ætla ekki að fara að setja hér á langloku kl. 7.30 að kvöldi. En um þessi mál hef ég ýmislegt sagt sem aðrir þingmenn hafa ekki haft kjark til að segja í fjölmiðlum og ég hygg að flestir þekki mínar skoðanir á þessum hlutum og þá ókristilegu hræsni sem hér viðgengst --- og horfi ég nú beint í augu hins eina prestlærða og prestsvígða. hv. þm. sem hér er að finna. En ég ætla ekkert að hafa þá ræðu uppi við þessa umræðu. Það getur vel verið að ég taki til máls við 2. umr. þegar í ljós kemur hvernig hv. nefnd hefur farið með þetta mál en ósköp væri ánægjulegt að hið háa Alþingi mæti sjálft sig einhvers og færi ekki með veggjum ef umræða hefst um hver launakjör og starfskjör þingmenn skuli búa við. Það er auðvitað ekki von til þess að aðrir meti þá sem einskis meta sig sjálfir.