Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 14:46:23 (420)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið til máls í þessari umræðu áður en kom að svarræðum hæstv. ráðherra, hæstv. utanrrh. og forsrh. Ég hafði ætlað mér að geyma það til seinni umræðu en ræður þeirra

urðu til þess að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umræðu. Ég hef reyndar verið varfærinn í yfirlýsingum varðandi þetta mál, stöðuna í samningum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég hef talið að ég yrði að taka nokkurt mið af því að ég sem þingmaður haustið 1989 varði ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar falli þegar Sjálfstfl. og Kvennalisti fluttu vantrauststillögu sem var byggð á því að við skyldum ekki ganga til samninga um Evrópskt efnahagssvæði heldur tvíhliða samninga við EB. Þar fór fremstur í flokki hv. 4 þm. Reykv. þegar þeirri skoðun var haldið fram. Ég býst við að hann sé sjálfum sér samkvæmur enn í dag. ( EKJ: Svo sannarlega við sömu aðstæður.) Ég tel því að við sem vorum í það minnsta einhvern tíma almennir þingmenn stjórnarflokkanna á síðasta kjörtímabili verðum að skoða afstöðu okkar eilítið í þessu ljósi og ég tala nú ekki um ráðherrana.
    Ég mun hér fyrst og fremst ræða um hina pólitísku umgjörð samningsins sem slíks og einstaka efnisþætti og þá kannski fyrst og fremst sjávarútvegsmálin.
    Annað hefur mér fundist einkenna þessa umræðu hér mjög mikið. Það eru vangaveltur um fortíðina. Það er alveg rétt að hér er um að ræða mikilvægt mál svo það er sjálfsagt gott að skoða fortíðina, hvað einstakir menn sögðu á þeim tíma. En menn mega ekki ganga of langt í því. Þeir verða að reyna láta umræðuna taka mið af því að við erum að fjalla um mál sem snýr fyrst og fremst að framtíðinni og er eitthvert mikilvægasta mál sem við höfum fjallað hér um á Alþingi um langt árabil. Menn verða líka í allri fortíðarskoðuninni að taka mið af því að hlutverk stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi er nokkuð misjafnt og það er í raun hlutverk og skylda stjórnarandstöðu að benda á brestina í því sem stjórnvöld eru að gera á hverjum tíma. Það fer ekki hjá því að einstöku sinnum kann það að líta þannig út að menn segi eitt í stjórn og annað í stjórnarandstöðu.
    Ég geri mér fulla grein fyrir mikilvægi þess að við náum góðum viðskiptasamningum við Evrópu og ég geri mér líka grein fyrir því að við verðum að halda þannig á þessu máli að það slitni ekki upp úr þeim samningum sem hafa verið í gangi um nokkurt árabil. Það er mjög mikilvægt. Ég geri mér alveg grein fyrir því hvað það getur þýtt ef samningnum yrði á þessu stigi hafnað. Það gæti þýtt það að þráðurinn mundi slitna, ekki bara um eitthvert mánaðabil heldur um eitthvert árabil meðan gengju yfir samningar annarra EFTA-ríkja um aðild að EB. Við hefðum að vísu áfram bókun 6 sem er góð svo langt sem hún nær, en hún nær bara ekki eins langt og sumir sem hér hafa talað hafa viljað vera láta. Þetta vildi ég hafa minn formála að þessu máli.
    Ég kem að ræðu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar á fimmtudaginn var. Hún var á margan hátt mjög sérstæð og ég vona að það gerist ekki oft að forsætisráðherrar haldi ræður sem hafa þann svip sem sú ræða hafði. Það hlýtur að vera skylda forsrh. að reyna að ná ólíkum öflum saman, sætta og draga fram efnisrök í málinu. Það getur ekki verið að það sé hlutverk forsrh. að skvetta olíu á eld hinnar pólitísku umræðu á hverjum tíma. Þetta held ég að forsætisráðherrar, hver sem er, hljóti alltaf að hafa í huga.
    Það var eitt í ræðu hæstv. forsrh. sem ég óttaðist öðru fremur. Það var þessi vissa hans um það að samningurinn eins og hann lægi fyrir núna væri það eina rétta. Það er alltaf mjög hættulegt þegar menn taka blinda trú. Það hefur komið fram í þessari umræðu áður að það er ekki trúin á málstaðinn sem er aflvaki sögunnar, það er efinn, það eru efasemdirnar um það sem menn eru að gera á hverjum tíma sem eru aflvaki nýrra hreyfinga.
    Ég vil benda hæstv. forsrh. á að það eru á margan hátt allt önnur sjónarmið uppi núna heldur en var þegar fráfarandi ríkisstjórn fór frá. Ég nefni ekki nema eitt: Nú er svo komið að öll hin EFTA-ríkin hafa annaðhvort sótt um aðild eða boðað að þau muni sækja um aðild að EB. Þá hefur það einnig komið fram, og komið í ljós á lokasprettinum, að það hafa verið gerð stór tæknileg mistök í samningagerðinni. Ég nefni landbúnaðarmálin. Þar gerist það að þegar við sjáum samninginn þá eru þar inni mjög óljós ákvæði um leyfi til töku jöfnunargjalda, það á sérstaklega við um einn vöruflokk sem er jógúrt, og í samningnum eru mjög afdráttarlaus atriði, og enn þá afdráttarlausari ef enska útgáfan er lesin, þess efnis að ekki megi taka hærri jöfnunargjöld en sem nam tollum eða aðflutningsgjöldum á viðkomandi vöru árið 1991. Á því ári voru engin slík gjöld tekin, m.a. vegna þess að viðkomandi vara var ekki flutt inn en það er mjög óljóst hvernig þetta atriði verður túlkað og bendir flest til þess að það fáist ekki endanleg niðurstaða í því fyrr en málið færi fyrir dómstóla EES-samningsins. Ef svo færi að í ljós kæmi að samkvæmt þeim dómi væri leyfilegt að flytja viðkomandi afurð inn án nokkurra jöfnunargjalda, þá væri það mjög alvarlegt mál fyrir íslenskan landbúnað í því kerfi styrkja og niðurgreiðslna sem evrópskur landbúnaður er í í dag, og ekki síður í EB-löndunum en hér heima á Íslandi. Þetta mundi þýða miklu meira en bara markaðshlutdeild jógúrtar vegna þess að þetta mundi koma inn á hliðstæðar afurðir, súrmjólk, skyr og fleiri.
    Ég nefni líka að það er mikið tilfinningamál fyrir stóran hluta Íslendinga að það takist að halda þeim fyrirvara að Íslendingar hafi forgang að nýtingu landsins. Samkvæmt þeirri greinargerð sem núv. hæstv. landbrh. hefur látið vinna er mjög erfitt að koma slíku við. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir þá vinnu um leið og ég hlýt að harma það að fráfarandi landbrh., hv. 4. þm. Norðurl. e., skyldi ekki hafa látið vinna þá vinnu í sinni ráðherratíð. Hann hefur talað hér fjálglega til okkar framsóknarmanna um að við viljum girðingar en vitum síðan ekkert hvað við meinum þegar kemur að því að skilgreina hverjar girðingarnar eiga að vera. Það er m.a. vegna þess að sú vinna sem yrði lögð til grundvallar ákvörðunartöku í þessu máli lá ekki fyrir í tíð fyrri ríkisstjórnar, því miður.
    Ég mun síðar koma að sjávarútveginum. Ég vil taka það fram að ég er ekki með þessu að segja

að þessi tæknilegu mistök sem hafa verið gerð séu gerð vitandi vits eða af einhverjum illvilja. Ég held að stór hluti af skýringunni sé einfaldlega sá að við erum svo lítil, við höfum svo lítið apparat til þess að vinna í þessu að menn sáu ekki yfir málið. Og það segir heilmikla sögu um stöðu okkar litla samfélags í hinni stóru Evrópu.
    Þá vil ég koma að öðru atriði sem ég tel að hafi farið óhöndugleika úr hendi hjá ríkisstjórninni. Það er kynningin á samningnum. Kynning hæstv. utanrrh. og samstarfsmanna hans hefur byggst á hástemmdum lýsingarorðum um ágæti samningsins. Hún hefur ekki byggst á því sem ég hefði talið hið rétta og hefði verið miklu trúverðugra að það hefðu verið kynntir bæði kostir og gallar. Vissulega hefur þessi samningur bæði kosti og galla og það er hlutverk okkar hér að vega þá og meta. En þessar hástemmdu lýsingar hafa m.a. gert það að verkum að utanrrh. á ekki lengur trúnað hagsmunaaðila í þjóðfélaginu eða þjóðarinnar. Það hygg ég að ráðherra hafi mjög rækilega verið minntur á á fundarferð sinni um landið á síðasta ári og það þarf ekki að ræða lengi við hagsmunaaðila í sjávarútvegi til þess að finna að það er enginn trúnaður milli þeirra og utanrrh. í þessu máli.
    Það hefði átt að vera hlutverk utanrrh. að leita leiða til pólitískrar samstöðu í málinu. Það finnst kannski einhverjum að ég taki mikið upp í mig varðandi þetta atriði, en ég ætla að nefna eitt máli mínu til stuðnings. Ég fór á kynningarfund sem utanrrh. hélt á Akureyri eftir að hann kom heim eftir að hafa gengið frá samningnum.
    Hæstv. utanrrh. hélt ræðu upp á einn og hálfan klukkutíma, en það hefði verið hægt að draga hana saman í eina setningu sem hefði staðfest það sem oft hefur áður verið sagt: Allt fyrir ekkert.
    Það kom fleira fram þar þegar kom að því að ræða um landbúnaðarmál og yfirráð yfir landi. Þá beitti hæstv. utanrrh. því orðalagi að hann talaði um, með háðsbrosi, annars vegar að menn óttuðust hinn ,,eðalborna bústofn`` á Íslandi og hins vegar væru menn hræddir um örlög ,,óðala feðranna``. Svona málflutningur, á þennan hátt, kippir algjörlega fótunum undan trúverðugleikanum og því miður eru hlutirnir svona vaxnir.
    Ég var einn af þeim sem voru þeirrar skoðunar að þegar EFTA-löndin, önnur en Ísland, sóttu um aðild að EB þá hefði skapast allt annar og nýr pólitískur flötur að málinu. Í umræðunni fram að því hafði samningurinn oft af andstæðingum hans verið túlkaður sem fordyrið að EB. Ég var þeirrar skoðunar að þegar þessi staða var komin upp, þá hefðum við getað skoðað samninginn sem fordyri að tvíhliða samningi við Evrópuríkin. Það bendir allt til þess sem við höfum séð af ummælum og viðtölum við forsvarsmenn EB að þeir séu þeirrar skoðunar líka. Ég vitna í sjónvarpsviðtal við Frans Andriessen í vor þar sem þetta sjónarmið kom fram, að það væri mjög eðlilegt framhald af því að hin ríkin gengju í EB að samningnum yrði breytt í tvíhliða samning.
    Þarna held ég að hafi verið á borðinu leikur til þess að ná pólitískri samstöðu í málinu. Ég legg á þetta áherslu ekki síst vegna þess að ég tel það mjög skaðlegt ef eina ferðina enn verði þjóðinni steypt í hatrammar deilur tveggja andstæðra fylkinga í utanríkismálum rétt eftir að við erum komin út úr áratugaumræðum um aðild okkar að NATO og varnarsamninginn.
    Menn mega hins vegar passa sig að ganga ekki of langt í þessum málflutingi og ég tel reyndar að þær hugmyndir, sem Alþb. hefur sett fram um það að menn geti búið til á hnjám sér tvíhliða samning hér heima og farið síðan með út og fengið upp á skrifað, eigi ekki alveg við rök að styðjast.
    En hvers vegna var þessi leið ekki skoðuð? Hvers vegna var það ekki skoðað á þessum tímapunkti að við mundum strax hefja viðræður við EB og önnur EFTA-ríki á þessum grunni? Ég held að fyrir því sé einföld ástæða. Það var ekki pólitískur vilji. Það eru öfl innan beggja stjórnarflokkanna sem horfa á framhaldið á þann veg að við þróum þennan samning í þá veru að við göngum inn í EB.
    Ég varpa því hins vegar til hæstv. utanrrh.: Er ekki enn tími til þess að skoða þennan flöt? Er ekki enn tími til þess að finna sameiginlegan flöt á málinu á þessum grundvelli? En sá flötur getur ekki byggst á öðru en því að við verðum sammála um það að aðild að EB komi ekki til greina í þeirri framtíð sem við sjáum í dag. Ég held reyndar að ef menn skoða það mál þá sjái allir sanngjarnir menn að okkar litla samfélag á ekkert erindi þangað inn. Við verðum að hafa tækifæri til þess að stýra á nokkurn hátt sjálf hvernig við viljum taka þátt í frjálsara samfélagi. Ef við ætlum að varðveita okkar fullveldi sem 250--300 þúsund manna þjóð þá verðum við að hafa tækifæri til þess að stýra þessari þróun að einhverju leyti sjálf.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um það sem er að gerast í Evrópu í dag, þar á ég við Maastricht-samkomulagið sem, eins og allir vita, gengur í átt til miklu meiri miðstýringar, pólitískrar sameiningar Evrópuríkja á mjög mörgum sviðum. Ég get sagt það hér sem mína skoðun að að mínu mati væri það heppilegast fyrir alla aðila að Frakkar mundu fella það samkomulag og losa Evrópuríki undan því framhaldi sem annars mundi fylgja.
    Hugsjónin, hugmyndafræðin á bak við Maastricht byggir á hugmyndafræði sem aldrei hefur gengið upp í Evrópu. Það er búið að reyna þetta áður. Það hefur verið gert með nokkru millibili. Napóleon reyndi þetta og það hafa fleiri gert án þess ég fari að nefna nöfn.
    Styrkur Evrópu liggur að mínu mati í flóru hinna margbreytilegu menningarsamfélaga sem þar eru og maður þarf ekki nema ferðast eilítið um Evrópu til að skynja það að þar er þjóðerniskennd það sterk, þar eru aðstæður svo ólíkar að samkomulag eins og Maastricht-samkomulagið hlyti alltaf að verða brotið á bak aftur fyrr eða seinna. En hin fjölbreytilega flóra Evrópuríkja getur hins vegar styrkt stöðu sína með

því að ná samkomulagi á viðskiptasviðinu. Undir það get ég hins vegar tekið og undir það held ég í raun að allir séu sammála um hér í þessum sal.
    Annað sem ég vil nefna varðandi þetta er að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það verður ekkert hlé á umræðunni eftir og ef EES-samningurinn verður samþykktur. Hún mun halda áfram af fullum krafti og þá munu kristallast þau andstæðu sjónarmið, annars vegar þeirra sem vilja þróa þetta yfir í að ganga inn í EB og hinna sem vilja að við njótum góðs viðskiptasamnings við Evrópu. Geri menn sér grein fyrir þessu þá hljóta menn að verða sammála því sjónarmiði mínu að það er mjög mikilvægt að menn opni sig um það nú þegar hvað menn vilja í framhaldinu af EES og hvernig menn ætla að nálgast það mál.
    Ég ætla að koma hér aðeins að sjávarútveginum. Ég geri ekki lítið úr mikilvægi sjávarútvegssamningsins við Evrópuþjóðir. Þar er eitt atriði sem í mínum huga er ofar öðru og það er samkeppnisstaðan við Norðmenn. Við höfum réttilega bókun 6 áfram, en það yrði okkur mjög erfitt ef Norðmenn fengju hagstæðari samninga inn á Evrópumarkað heldur en við í dag, ekki síst vegna þess að meðan við búum við minnkandi afla þá sjá Norðmenn fram á það á næstu árum að það verður mjög mikil þorskgengd í Barentshafi og að þeir muni hafa úr miklu að spila.
    Ég vil hins vegar taka undir það sem hér hefur komið fram að lýsingarnar á ágæti samningsins fyrir okkar sjávarútveg hafa verið miklu hástemmdari heldur en efni eru til, burt séð frá því að þar hafa menn gert --- og nú kem ég að því sem ég ræddi áður --- tæknileg mistök. Það var ákveðið að frumkvæði utanrrh. að geyma sjávarútvegskaflann þangað til á lokaspretti samninganna. Það var að mati utanrrh. hagstæðara fyrir okkur að vinna þetta á þann hátt. En hvað hefur komið á daginn? Það hefur komið á daginn að langhalinn breyttist í karfa og enn var ekki búið að ganga frá samningnum. Síðan þegar í nauðvörn var fallist á það að langhalinn væri karfi þá var hagsmunaaðilum sagt að um leið hefðu hagsmunir vegna síldarútflutnings verið tryggðir. Nú er að koma í ljós að svo er ekki. Nú vil ég biðja hæstv. utanrrh. að svara strax á eftir, hann getur gert það í andsvörum ef hann vill: Hvernig standa samningarnir um síldina? Þetta er mjög mikilvægt mál og þetta er einn af þrem stærstu þáttunum varðandi hagsmuni sjávarútvegsins.
    Saltfiskurinn er mikilvægur, m.a. vegna þess að þar hafa Norðmenn haft visst forskot. Þeir hafa haft magntolla meðan við höfum orðið að vinna eingöngu inn á sameiginlega tollfrjálsa magnið upp á 25.000 tonn. Þeir hafa það nú þegar og forskot þeirra mundi aukast enn ef þeir næðu samningum en við ekki.
    Fersku flökin eru mikilvæg og þar opnast fyrir okkur nýr markaður.
    En þriðji þátturinn, síldin, er í uppnámi enn. Og ég leyfi mér að fullyrða það að sá þáttur er í uppnámi og gef utanrrh. tækifæri til þess að mótmæla því ef það er ekki rétt. Í síldinni stendur málið þannig, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, varðandi ediksöltuðu flökin, sem er langmikilvægasta málið fyrir okkur og skiptir öllu máli, að það er ekki búið að tryggja það mál enn þá. Það er í höndum Evrópubandalagsþjóðanna að ákveða hvort við fáum að fara með þau inn eða ekki.
    Ég ætla aðeins að koma að því sem menn hafa rætt um um fersku flökin. Þar hafa menn haft stór orð um möguleikana og rætt um fullvinnslu. Það er að nokkru leyti rétt, fersk flök, pökkuð og frágengin til sölu eru í raun neytendapakkningar. En í umræðunni um neytendapakkningar hafa menn síðan grautað öllu saman og því hefur verið haldið fram fullum fetum að þessi samningur sé forsenda þess að við komumst inn á Evrópumarkaðinn með neytendavörur, unnar úr sjávarfangi. Nú vill svo til að ég veit betur, ekki síst af því að ég hef setið í stjórn sjávarútvegsfyrirtækis um nokkurt árabil sem hefur verið að þreifa fyrir sér og er komið inn á inn hinn evrópska markað með neytendapakkningar. Þar eru engir tollar á frystum neytendapakkningum, hvort sem þær eru meira eða minna unnar. Það var núna síðast verið að kanna það hvaða leið meira unnar neytendavörur ættu, þ.e. ef búið væri að velta upp úr raspi eða öðru slíku brauðmeti. Það er allt opið og hefur verið. Þar er engin breyting.
    Öðru hafa forsvarsmenn samningsins, og sérstaklega utanrrh., haldið mjög á lofti og það er að hann sé mjög mikilvægur fyrir sjávarútveginn á landsbyggðinni. Hvar liggja nýju möguleikarnir? Þeir liggja í saltfisknum og það getur skipt máli fyrir sjávarútvegsfyrirtæki um allt land. Þeir liggja í síldinni sem skiptir mjög miklu máli fyrir ákveðna landshluta, en sá þáttur er í uppnámi. Síðan liggja þeir í fersku flökunum og það er samdóma álit allra þeirra aðila í sjávarútvegi sem ég hef rætt við, að þeir möguleikar liggi fyrst og fremst á ákveðnum radíus frá höfuðborgarsvæðinu því þeir byggjast á daglegum flutningum til útlanda og að koma vörunni á sem allra skemmstum tíma á áfangastað. Það kann að vísu að vera sá möguleiki ef menn hafa kjark í að fara í aukna vegagerð í dag að hægt væri að koma upp á Austurlandi útskipunarhöfn fyrir ferskar vörur sem gæti einnig nýst Norðlendingum ef kominn væri að tillögu okkar hv. 4. þm. Reykv. góður vegur milli allra landshluta.
    En þannig stendur sjávarútvegskaflinn með kostum og göllum eins og ég hef verið að reyna að kynna mér síðustu daga, m.a. með viðræðum við hóp af forustumönnum í sjávarútveginum. Það hefur m.a., eins og ég sagði hér áðan, fært mér heim sanninn um að það er enginn trúnaður milli þessara manna og þeirra sem eru að vinna að þessum samningi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, hæstv. utanrrh. og hans manna.
    Að lokum, svo ég verði ekki misskilinn, það er okkur mjög mikilvægt að það takist að klára viðskiptasamning gagnvart sjávarútvegi. Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að hástemmdu lýsingarorðin eigi ekki við rök að styðjast, þá er okkur mikil nauðsyn að ná slíkum samningi. Það er að vísu vafamál í mínum huga

ef síldin er ekki með.
    Ég ætla aðeins að koma að milliríkjasamningum almennt, m.a. vegna þess að hæstv. forsrh. hélt því fram í umræðum á fimmtudaginn var að Framsfl. hefði aldrei komið að slíkum samningum á sínum ferli og ætti nú fyrsta tækifæri til þess.
    Ég ætla að líta aðeins á EFTA-samninginn sem var fríverslunarsamningur með iðnaðarvörur. Okkur var sagt að hann mundi skapa ný tækifæri fyrir íslenskan iðnað. Hvað gerðist? Það sem gerðist var það að ákveðnar greinar hafa náð fótfestu erlendis, það eru fyrst og fremst þær sem hafa haft öflugan heimamarkað og númer eitt tæknigreinarnar í kringum sjávarútveg. Annar iðnaður hefur á þeim 20 árum sem liðin eru verið að berjast við það að halda einhverju hlutfalli af innanlandsmarkaðnum og sumar greinar hafa fallið alveg út. Þessi samningur hefur knúið okkur til þess að ná hámarksarði út úr sjávarútveginum og ég vil ekki vanmeta það. Nú vil ég ekki segja það að ástæðan fyrir því að ekki tókst betur til með iðnaðinn eftir EFTA-samninginn hafi verið sú að samningurinn eða fríverslunin sem slík hafi verið slæm. Ég held reyndar að það sem hafi gerst sé miklu frekar það að við vanræktum heimavinnuna, og þar eiga allir stjórnmálaflokkar sök nema þá Kvennalistinn. Við vanræktum heimavinnuna, að skapa atvinnulífinu þann grundvöll sem það þurfti til þess að takast á við aukna samkeppni. Það er kannski lykilatriðið í dag. Það er ekkert lausnarorð í viðskiptasamningum. Þetta byggist allt á heimavinnunni. Þetta byggist allt á því hvernig við stöndum okkur sjálf. Því miður sé ég engin teikn á lofti um það að núverandi hæstv. ríkisstjórn sé að vinna að því að skapa íslensku atvinnulífi betri starfsskilyrði til að takast á við samkeppni. Og ef það verður ekki gert, fer þá ekki eins fyrir þjónustunni og fór fyrir iðnaðinum eftir inngönguna í EFTA?
    Ég nefni eitt einfalt atriði sem atvinnulífið leggur orðið höfuðáherslu á, það er afnám aðstöðugjaldsins. Þar hafa komið fram tillögur sem eru þess eðlis og koma þannig við atvinnulífið að maður spyr sjálfan sig: Hvað eru þeir menn að hugsa sem setja þær fram? Ég veit að Vinnumálasambandið telur að þeir menn séu að hugsa það eitt að slá málinu á dreif þannig að ekkert verði úr þessu. Reykjavíkurborg hefur fram að þessu tekist að verjast öllum áhlaupum á aðstöðugjaldið, enda er aðstöðugjaldið það sem hefur gert það að verkum að Reykjavíkurborg hefur haft ægishjálm yfir önnur sveitarfélög varðandi tekjuöflun á hvern íbúa. Ég er ekki bjartsýnn á það að verið sé að takast á við þessi vandamál í dag og ég leyfi mér að vitna, eins og ég gerði í ræðu á mánudaginn var, í grein eftir Þórleif Jónsson, framkvæmdastjóra Landssambands iðnaðarmanna, þar sem hann segir að geri stjórnmálamenn sér ekki grein fyrir því að það sé grundvallaratriði, að skapa atvinnulífinu viðunandi starfsgrundvöll, þá eigi menn að greiða atkvæði gegn samningnum um EES.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um framgöngu þessa máls á Alþingi, ég gerði það reyndar eilítið í mínum upphafsorðum, en hvernig verður framhaldið? Hæstv. fjmrh. bar sig illa í gær yfir því að það væru engin mál komin til nefndar á þessu þingi. Ég hefði spurt hann, ef hann væri hér, hvaða mál ættu að vera komin til nefndar. Nefndirnar eru meira og minna að vinna að þeim frv. sem tengjast samningnum. Og ég get nefnt það hér að það liggur þvílíkt verk fram undan sem tengist beint og óbeint Evrópska efnahagssvæðinu í efh.- og viðskn. að það er miklu meira en það sem nefndin kemst yfir fram að áramótum. Í tengslum við þetta er ríkisstjórnin að koma inn með heila lagabálka um mjög stór mál. Við vorum að fjalla um ný samkeppnislög í nefndinni í dag og sá lagabálkur einn væri út af fyrir sig nægilegt verkefni fyrir nefndina fram að áramótum með þeim föstu rútínuverkefnum sem koma inn til efh.- og viðskn. á hverju hausti. Áður en nefndir þingsins eru búnar að fjalla um fylgifrumvörpin, eru búnar að kalla menn þar til viðtals og fá einhverja yfirsýn yfir það sem fylgir þessu, áður en það hefur verið gert er að mínu mati ekki hægt að gera kröfur til þess að samningurinn sé afgreiddur hér frá Alþingi. Og eins og ég sagði áðan, af hreinum tæknilegum ástæðum, sem byggjast eingöngu á umfangi þess efnis sem verið er að fjalla um, þá er langt í að þeirri vinnu verði lokið.
    Virðulegi forseti. Ég er búinn að tala lengur en ég ætlaði mér í upphafi. Það er þó ýmislegt órætt. Ég hef ekkert rætt um stjórnarskrármálið, það hafa aðrir gert hér. Það er þáttur sem verður að leysa samhliða þessu. Ég hef ekki rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna en ég tel að það sé í raun skylda Alþingis, skylda ríkisstjórnar að leggja samninginn fyrir þjóðaratkvæði. Þau rök sem hafa verið færð gegn því standast ekki. Almenningur á Íslandi er einfaldlega betur upplýstur og betur fær um að kynna sér mál heldur en komið hefur fram í ræðum stjórnarþingmanna hér.
    En ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði fyrr í ræðu minni að það er mjög mikilvægt ef nokkur kostur er að það finnist sameiginlegur pólitískur flötur á þessu máli, en þar verða menn að taka tillit til þess að meðal annars vegna þess hvernig samningurinn hefur verið kynntur, þá er þjóðin búin að skipta sér í nokkuð skarpar fylkingar.
    Menn verða að taka tillit til þess að þó að stjórnmálamenn samkvæmt stjórnarskránni eigi að fylgja sannfæringu sinni við atkvæðagreiðslu á Alþingi og engu öðru, þá hafa stjórnmálamenn líka vissar skyldur og vissan trúnað við sína kjósendur. Það hefur gerst í hliðstæðum málum í nálægum löndum að það hefur orðið þvílíkur trúnaðarbrestur milli kjósenda og forustu flokka að það hefur tekið mjög langan tíma að bæta fyrir þann brest. Þetta held ég að m.a. fulltrúar Sjálfstfl. ættu að hafa í huga því þegar rætt er um Evrópusamninginn við fólk úti á landsbyggðinni þá heyri ég engan mun á sjónarmiði sjálfstæðismanna og annarra þar. Þetta kristallaðist m.a. mjög vel á nýafstöðnum aðalfundi Stéttarsambands bænda. Þó svo að menn vinni þar ekki eftir pólitískum fylkingum þá gera menn sér þær ljósar og það var enginn munur þar. Ef

eitthvað var þá voru fulltrúar, trúnaðarmenn Sjálfstfl. vítt og breitt um landið, enn þá harðari í afstöðu sinni gegn málinu eins og það stendur í dag heldur en aðrir á þeim vettvangi.