Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 20:30:12 (429)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Á meðan umræður hafa staðið yfir á Alþingi um frv. um Evrópskt efnahagssvæði hafa mörg atriði verið rædd og ýmsir atburðir gerst sem hafa varpað skýrara ljósi á hvert eðli þessa samnings er sem nú er verið smátt og smátt að leggja á borð okkar þingmanna í hinum margvíslegu gögnum.
    Af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur verið dregið fram í fyrsta lagi það meginatriði að með samningnum skuldbindum við okkur að hlíta lögum og reglum EB á þeim sviðum sem samningurinn nær til og þar sem íslensk lög stangast á við reglur EB skuldbindum við okkur að breyta íslenskum lögum í samræmi við það.
    Í öðru lagi má réttarstaða þegna annarra þjóða innan EES aldrei verða lakari en Íslendinga, t.d. hvað varðar forræði um eignarrétt á landi.
    Utan Alþingis hafa einnig verið að gerast atburðir sem varpa nýju ljósi á stöðuna. Okkur er sjálfsagt öllum í fersku minni þeir atburðir sem hafa verið að gerast í Þýskalandi, sem er langstærsta ríkið innan Evrópubandalagsins og þá innan EES og sú þróun sem þar er að verða hjá þessu ríki sem væntanlega mun hafa forustu um málefni alls þessa svæðis.
    Mér fundust athyglisverð ummæli utanríkisráðherra Noregs sem kom í heimsókn hingað fyrir skömmu þegar hann sagði að þjóðir okkar, Íslands og Noregs, yrðu að lúta vilja Evrópubandalagsins hvernig sem tengslum okkar við það yrði háttað. Hann virtist sannfærður um að Evrópubandalagið ætli að láta smáþjóðirnar kenna á valdi sínu í eiginhagsmunaskyni og nota til þess vald fjármagnsins í stað hervalds sem þær sumar hverjar notuðu stundum áður og við minnumst öll.
    Spurningin er því sú hvernig við eigum að bregðast við þessari stöðu, þessu sterka valdi. Eigum við að beygja okkur í hlýðni fyrir þessu veldi fjármagnsins og ganga til samninga við Evrópubandalagið við þessar aðstæður í þeirri von að með því að ganga til samstarfs verði hlutur okkar skárri þó að staða okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins verði, eins og fram kemur í yfirlýsingu Van der Pas, eins af samninganefndarmönnum EB við þessa samningsgerð, þar sem hann segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Mikilvægt var að EFTA-ríkin fengju á tilfinninguna að þau ættu hlutdeild í þessu. Ljóst er að það er afar óþægilegt fyrir EFTA-ríkin að standa frammi fyrir gerðum hlut en það hugtak heyrðist oft á skotspónum meðan á umræðunum stóð. Málsmeðferð sú sem samþykkt hefur verið þess efnis að EFTA-ríkin taki eins mikinn þátt í innri starfsemi okkar og hægt er án þess að þau verði í raun með í spilinu.``
    Í skugga þessarar stöðu og hótana, sem koma fram í þessum orðum, vaknar t.d. sú spurning hvernig staða okkar verður þegar verja þarf fiskveiðilandhelgina við endurskoðun samningsins við EB, fiskveiðisamningsins, sem á að gera fljótlega eftir að hann tekur gildi, eftir að við höfum opnað landhelgina fyrir flota Spánverja og Portúgala. Hann hefur aðeins heimild til að veiða 3.000 tonn af karfa. Mun ekki þrýstingurinn verða mikill á að auka það magn?
    Þótt ýmislegt hafi komið fram sem skýrir þetta málefni betur en áður verður það sama varla sagt um svörin í ræðu hæstv. utanrrh. við spurningum mínum og annarra að undanskildum örfáum tölum um kostnað okkar við væntanlega þátttöku í Evrópska efnahagssvæði. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau svör svo langt sem þau ná þótt hann sé að vísu ekki nærstaddur og telji umræðuna ekki þess virði að mæta hér í þingsalnum.
    Ég varpaði fram mörgum fleiri spurningum. Ég óskaði eftir því að við hv. þm. fengjum skipurit af því flókna kerfi mörg hundruð nefnda og ráða sem eiga að móta ákvarðanir um málefni íslensku þjóðarinnar sem við eigum að taka þátt í til þess að við fáum á tilfinninguna að við eigum þar einhverja hlutdeild án þess að vera með í raun eins og Van der Pas segir. Af hverju fáum við ekki slíkt skipurit í hendur? Megum við ekki sjá það svart á hvítu hvernig þetta kerfi á að vera? Er það talið til ávinnings að það sé sem best falið fyrir alþingismönnum og íslensku þjóðinni áður en ákvörðun verður tekin?
    Ég spurði hæstv. utanrrh. einnig af hverju hann hefði breytt 5. gr. í viðauka I, í bókun 3 við samninginn, hinn 4. des. sl. sem fjallar um álagningu jöfnunargjalda á innfluttar landbúnaðarafurðir, einum og hálfum mánuði eftir að hann sagði Alþingi að samningurinn væri fullfrágenginn. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi verið að hlýða skipun Evrópubandalagsins af fúsum vilja, en úr því að þannig þarf að bæta mikilvægum atriðum, þýðingarmiklum atriðum sem geta verið mjög örlagarík, inn í samninginn áður en hann hefur verið fullgiltur og áður en við erum búin að afsala okkur þessum mikla rétti sem hann felur í sér til Evrópubandalagsins, hvernig mun þá staða okkar verða á eftir? Það væri fróðlegt að fá svör við því. Það er ekki aðeins hæstv. utanrrh. sem ekki vill vera við þessa umræðu, heldur er enginn hæstv. ráðherra sem þorir að láta sjá sig hér í salnum. ( Forseti: Forseti vill aðeins upplýsa það að hæstv. ráðherrar munu ekki vera komnir til fundarins. Það var ríkisstjórnarfundur, eins og hv. þm. veit kannski. Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til þess að minna hæstv. ráðherra á að umræður séu hafnar og vonast til þess að það líði ekki á löngu þar til þeir mæta hér til fundar.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar en eins og hæstv. forseti veit er ég ekki boðaður til ríkisstjórnarfundar nú og veit því ekki hvenær þeir eru haldnir eða hvernig ástandið er á því heimili. Ég ætla, þrátt fyrir það að ráðherrar vilji ekki hlusta, að halda áfram að ítreka þessar spurningar sem ég bar fram og fékk ekki svör við þar sem ég veit að ef ráðherra vill getur hann fengið útskrift af því sem ég hér segi.
    Ég spurði hæstv. utanrrh. einnig að því hvort það væru mörg önnur óútkljáð deilumál um atriði sem eru komin á blað í samningnum eins og þetta umdeilda atriði um aðflutningsgjöldin sem hæstv. viðskrh. sagði á síðasta vori að við yrðum að bíða með að vita hvað það þýddi þangað til samningurinn hefði verið fullgiltur og sameiginlega nefndin hefði fjallað um það.
    Mér finnst ríkari ástæða til að spyrja um þetta atriði vegna þess hvernig samningurinn er fenginn okkur í hendur. Í bókun 3 er viðbætir sem ég vitnaði til, viðbætir I, um aðflutningsgjöldin og fleira. Á eftir þessum viðbæti I er ein síða sem hv. alþm. geta séð. Þar stendur: II. viðbætir, III. viðbætir, IV. viðbætir, V. viðbætir, VI. viðbætir og VII. viðbætir. Undir þessum fyrirsögnum er aðeins ein eða tvær línur og þær segja aðeins um hvaða efni á að verða í öllum þessum viðbætum. En meira er ekki sagt. Getum við átt von á því að inn í alla þessa viðbæti verði sett mörg ákvæði sem eru eins slæm og það sem Evrópubandalagið sagði hæstv. utanrrh. að setja inn í viðbæti I, sem eru jafnslæm fyrir okkur eða jafnvel verri en það ákvæði? Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það en mér var tjáð að í sumar hefði verið haldinn fundur í Brussel þar sem verið var að fjalla um eitthvert þessara atriða milli fulltrúa Evrópubandalagsins og EFTA-þjóðanna. Þegar EFTA-fulltrúarnir fóru að bera fram sínar skoðanir var svarið frá fulltrúum Evrópubandalagsins: Svona er þetta hjá okkur og svona á það að vera. Af hverju viljið þið hafa þetta öðruvísi þegar þið verðið komnir inn í Evrópubandalagið eftir tvö ár? Ég veit ekki hversu víða í öllum þessum bókunum og viðbætum eru opnir víxlar sem við vitum ekki hvernig muni líta út þegar upp verður staðið miðað við þá stöðu sem Evrópubandalaginu er ætlað í okkar samskiptum.
    Í ræðu sinni sagði hæstv. utanrrh. að við værum komin að endimörkum vaxtar að því er varðar nýtingu auðlinda sjávar og því yrðum við að nýta hina meginauðlind okkar, orkuna. Ég kom fyrir fáum dögum í saltfiskverkun. Þar er fiskurinn aðeins saltaður, látinn standa í örfáa daga og síðan fluttur út til dansks fyrirtækis sem gerir ekkert annað en að þurrka fiskinn og dreifa honum til kaupenda. Ég spurði af hverju þessi íslenska fiskverkun þurrkaði ekki fiskinn og sendi hann út meira unninn. Þá var svarið að hið danska fyrirtæki fengi orkuna til þess að þurrka fiskinn á 70% lægra verði en íslensku samkeppnisfyrirtækjum er skammtað í dag. Við vitum að fiskverkunin og fleiri aðilar, eins og ég mun kannski minnast á síðar, hefur óskað þess mjög að fá orkuna á samkeppnisfæru verði. Við þær aðstæður sem eru í dag þegar vatninu er hleypt fram hjá túrbínunum í orkuverkum Landsvirkjunar þar sem notendurna vantar. Það virðist býsna furðulegt að ekki skuli reynt að nýta þennan trygga markað sem er fyrir orkuna með því að selja hana á samkeppnisfæru verði í staðinn fyrir að fá ekki neitt. Með því mætti þar að auki skapa vinnu fyrir atvinnulaust fólk og arð fyrir íslenskt þjóðarbú. Af hverju er þetta augljósa tækifæri og mörg önnur, sem benda má á, ekki notað til að auka arð þjóðarbúsins og draga úr atvinnuleysi þegar ekki þarf að leggja neitt í sölurnar sem neinn tapar á og það er á valdi íslenskra stjórnvalda að gera þá breytingu?
    Hæstv. viðskrh., sem er ekki staddur hér frekar en aðrir hæstv. ráðherrar, sagði á þá leið í umræðu utan dagskrár í fyrradag um atvinnumál að það þyrfti að bæta stöðu íslensks atvinnurekstrar þegar erlendir aðilar hafa orðið heimild til að gerast þátttakendur í atvinnurekstrinum eftir að samningurinn hefur verið gerður um Evrópska efnahagssvæðið. Það ætti þá að skapa íslenskum atvinnuvegi jöfn skilyrði með skattalækkunum og öðrum aðgerðum þegar erlendir aðilar hefðu orðið þann rétt til þess að vekja áhuga þeirra á að koma hingað. Af hverju má ekki gera slíkt á meðan fyrirtækin eru í höndum íslenskra aðila eingöngu? Af hverju þarf að bíða þangað til erlendir aðilar eiga rétt til þess að gerast þar þátttakendur?
    Í atvinnumálaumræðunni hömruðu hæstv. ráðherrar, sem tóku þátt, á því sama og hæstv. utanrrh. gerði í svarræðu sinni í þessari umræðu að fjárfesting í fiskeldi hefði mistekist og hæstv. forsrh. tók það sem dæmi um ráðleysi fyrrv. ríkisstjórnar vegna þess hvernig hún hefði beitt sér fyrir því að það yrði tekið upp. Ég tel nauðsynlegt að minnast á þetta vegna þess að hér er hlutunum á svo margan hátt snúið við.
    Þegar áhugi fór vaxandi fyrir því að auka fiskeldi hér á landi á síðasta áratug var það ekki síst vegna þess að erlendir aðilar sýndu áhuga á því að leggja fjármagn í þessar framkvæmdir þar sem þeir álitu að þarna væri um framtíðaratvinnuveg að ræða. Og þegar þarna var farið af stað lögðu samtök þessarar atvinnugreinar mikla áherslu á að ríkisvaldið færi ekki að skipta sér af þróun þessara mála. Við viljum ekki afskipti eða hömlur ríkisvaldsins. Við viljum vera frjálsir og fá að gera eins og við getum og viljum, sögðu þeir. Og framhaldið vitum við. Fjárfestingin varð mikil. Þá ræddu við mig erlendir aðilar sem komu með fjármagn í þessa atvinnugrein eins og sagt er að þessi samningur eigi að gera á fleiri sviðum. Mér er sérstaklega minnisstæður Curt Nicolin, sænski iðnjöfurinn, sem lagði miklar upphæðir í fiskeldi. En svo gerðist það að ný ríkisstjórn kom og þá skildu leiðir milli viðhorfa Curt Nicolins og íslensku ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin afskrifaði fiskeldið á sl. ári og til málamynda ákvað hún að veita 150 millj. sem lán til alls fiskeldisins í landinu á sl. ári sem var harla lítið til skiptanna í þá atvinnugrein og skipting á því fjármagni líka nokkuð torskilin. En Curt Nicolin hélt áfram af því að hann hafði trú á því að hér væri um að ræða tímabundna sveiflu. Nú er okkur sagt að kílóið af útfluttum íslenskum eldisfiski sé að skila útflytjendunum á fimmta hundrað kr. kg og þá vaknar spurningin: Hversu dýr var sú afstaða núv. ríkisstjórnar til fiskeldisins fyrir íslenskt þjóðarbú, að leggja það svo að segja hér um bil í rúst eins og hún

gerði með afskiptaleysi sínu í fyrra? Hvað eru það háar upphæðir sem þar hafa tapast fyrir íslenskt þjóðarbú í stað þess að veita tímabundna aðstoð og nýta fjármuni, þekkingu og vilja þeirra sem í þessu stóðu? En það má einnig benda á að víða er orkuverðið einn stærsti útgjaldaliður þessa atvinnurekstrar og þar hafa líka farið forgörðum markaðir fyrir íslenska orku.
    Ég hef minnst á örfá atriði og borið fram spurningar sem ég hef ekki fengið svör við. En ég ætla að láta staðar numið þar sem kannski er frekar að vænta að fá svör ef spurningarnar eru ekki hafðar allt of margar. En ég vil í lokin vekja athygli á þeim orðum í ræðu hæstv. utanrrh. í þessari umræðu þar sem hann sagði að við eigum að meta þennan samning út frá þeim vanda sem nú blasir við okkur. Ég tel að það sé ákaflega hættulegt að nota þá erfiðu stöðu sem íslenska þjóðin er nú að komast í eftir 16 mánaða setu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar til þess að hræða þjóðina og segja að við eigum engra annarra kosta völ en að gerast aðilar að þessum samningi eins og hann lítur út núna, gerólíkur þeim forsendum sem lagt var af stað með í upphafi þegar gengið var til samninganna. Við verðum að horfa lengra fram á veginn í þeirri trú að stjórnarfarið muni innan skamms breytast til batnaðar.