Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:03:15 (431)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegir forseti. Ef ræða mín í dag var tilefni þessarar miklu varnarræðu í kvöld þá hefur hún verið að nokkru leyti á misskilningi byggð. Það mátti skilja orð síðasta ræðumanns þannig að ég hefði sakað hann um að hafa ekki unnið að lagagerð á þessum tíma. Það sagði ég alls ekki. Ég nefndi það að ég hefði viljað sjá unna í landbrn. þá vinnu sem hv. síðasti ræðumaður var reyndar að inna núv. landbrh. eftir í sínum lokaorðum. Mér heyrðist á ræðu hans að hann hefði verið búinn að kynna sér þessi mál mjög

rækilega í sinni ráðherratíð og hefði átt að koma þeim upplýsingum á framfæri til okkar fáfróðra stjórnarsinna á þeim tíma.
    Ég vil ítreka það að ég held að milli okkar þingmanna í Norðurl. e. --- og nú horfist ég í augu við hv. 5. þm. kjördæmisins --- sé engin ágreiningsmeining um það að verja beri forréttindi okkar Íslendinga að landi. Ég er alveg sammála hv. síðasta þingmanni um að það er kannski eitt af því fáa sem veruleg hætta er á að ásókn útlendinga verði í, það eru vissir þættir sem tengjast landi, landnýtingu og hlunnindum. E.t.v. hefur verið gerður hér úlfaldi úr mýflugu en einhvern veginn varð nú samt svo að viðbrögð hv. 4. þm. Norðul. e. voru, held ég, harðari í dag heldur en hann hafði ætlað sér.