Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:05:55 (432)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta eru notaleg skoðanaskipti. Ég var ekki að flytja varnarræðu hér nema þá fyrir íslenska landið og forræði og réttindi íslenskrar þjóðar í því landi, vonandi um ókomin ár. Ég var fyrst og fremst í efnislegri umfjöllun um þetta mál sem hefði verið flutt hvort sem hv. 6. þm. Norðurl. e. hefði talað hér í dag eða ekki. Ég hafði undirbúið þessa ræðu nokkuð vel, eins og ég vona að hafi komið í ljós, og ég hafði þegar beðið um orðið til að flytja þetta mál. Það var svo í andsvörðum sem komu til síðar, vegna ummæla sem hv. 6. þm. Norðurl. e. lét falla, að ég kvaddi mér hljóðs. Það var ósköp einfaldlega vegna þess, hv. 6. þm. Norðurl. e. og aðrir góðir tilheyrendur, að ég nenni ekki að sitja undir því ítrekað að vera sakaður um vanrækslu sem ég tel að ég sé ekki sekur um. Svo einfalt er það. Ég ver hendur mínar ef ég er, hvort sem það er hér í þessum sölum eða frétti af því annars staðar, borin þeim sökum að vera sekur um vanrækslu. Ef ég veit upp á mig skömmina þá verð ég vonandi maður til þess að viðurkenna það og biðjast afsökunar. Svo er ekki í þessu tilviki. Ég tel og ég vona að mér hafi tekist að sýna fram á það hér að það voru ærin rök fyrir því að ég hélt því til haga, breytti ekki um skoðun, féllst ekki á að það væri okkur nægjanleg trygging að ganga frá þessu með einhverjum ráðstöfunum í innlendri löggjöf en falla frá kröfum um varanlegan fyrirvara eða undanþágu í samningunum. Það er út af fyrir sig rétt og ég þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir að vekja athygli á því að ég hef verið að reyna að kynna mér þetta talsvert. Ég hafði auðvitað á þessu talsverða þekkingu þegar veturinn 1990, skárra væri það nú, ég var landbrh. og hafði með þessi mál að gera. Ég leyfi mér næstum því að segja að ég hafi vitað mest þálifandi Íslendinga um það hvernig þessi mál stóðu. Eðlilega. Ég vissi mætavel að framkvæmd jarðalaga og ábúðarlaga hafði verið með þessum hætti á undangengnum árum og áratugum og það skapaði okkur mikinn vanda og í þeim vanda stöndum við enn.