Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:12:44 (436)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að hafa það stutt til að það fari ekki allt of langur tími í þetta. Hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, endursagði í grófum dráttum alveg réttilega það sem ég sagði hér í minni ræðu um það sem til gekk á fundum ríkisstjórnar í nóvemberlok og desemberbyrjun 1990 og það er gott að það hefur skilist.
    Varðandi það sem ég hef látið frá mér fara um þau efni tel ég að þar hafi alls ekki verið brotinn nokkur trúnaður. Ég hef ekki lesið upp úr fundargerðum, ég hef eingöngu fjallað um það sem að mér sneri og á þeim fundum gerðist og ég lít svo á að það sé réttur ráðherra, þegar þannig ber undir, að þeir skýri sín viðhorf og sína afstöðu og segi það sem þeir létu koma fram af sinni hálfu þegar þeir sátu í ríkisstjórn. Annað hefur komið fram opinberlega. Viðhorf þáv. og núv. hæstv. utanrrh. og hæstv fyrrv. forsrh. hafa áður komið fram. Hv. 7. þm. Reykn. hefur sjálfur í ræðum lýst því að hann hafi farið fram á þetta við mig þannig að ég var ekki að uppljóstra þar neinu sem ekki lá þegar fyrir. Staðreyndin er sú að ég sá strax á því öll tormerki að nokkuð annað dygði okkur en varanlegur fyrirvari. Ég lét það strax koma fram og það átti ekki að misskiljast að ég gat ekki fallist á að við slökuðum á þeirri kröfu. Mín afstaða var sú og það er að sjálfsögðu nærtækasta og róttækasta skýringin á því að ég féllst ekki á að menn settu traust sitt á það að hægt væri að leysa þetta vandasama og viðkvæma atriði með einhverjum öðrum hætti en þeim að halda til haga og krefjast áframhaldandi varanlegs fyrirvara af Íslands hálfu.