Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:15:42 (438)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í athyglisverðri ræðu sinni sagði hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, að hann hefði verið sannfærður um það á þeim tíma þegar hann gegndi embætti landbrh. að ekkert dygði Íslendingum nema varanlegur fyrirvari. Miðað við málflutning þingmannsins í ræðustól áðan og þá áherslu sem hann lagði á þetta mál nú sem þingmaður, hlýtur að vera hægt að álykta að hann hafi lagt enn meiri áherslu á það þegar sú ábyrgð hvíldi á herðum hans að vera landbrh. Ef hann var þessarar skoðunar þá hvers vegna sætti hann sig við að þessir varanlegu fyrirvarar væru felldir niður? Hvers vegna sat hann áfram sem landbrh. þrátt fyrir þann mikla grundvallarmeinbug sem var á samningaferlinu?