Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:17:10 (439)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er áhugavert, sagnfræðilegt atriði sem hv. 5. þm. Norðurl. e. velti upp eins og hann á vanda til hér. Hann kemur með skemmtilegar hliðargreinar á þennan mikla meið sem er umræðan um Evrópusamningana sem jafnan lúta að fornfræðilegum eða sagnfræðilegum atriðum sem tengjast e.t.v. afstöðu eða örlögum tiltekinna manna en hafa ekki praktíska þýðingu á deginum í dag frekar en það atriði sem hann hér nefnir. Vegna þessa sagnfræðiþorsta hv. 5. þm. Norðurl. e. er rétt að upplýsa það að staða málsins var nokkuð sérkennileg þennan tíma, frá og með desember 1990 til og með 30. apríl eða öllu heldur 5. maí 1991, þegar hæstv. utanrrh. fékk loksins umboð frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem tekið hafði við völdum, til að ganga til samninganna á þeim nýja grundvelli að öllum varanlegum fyrirvörum væri kastað. Það mál var aldrei útkljáð í tíð þriðja ráðuneytis Steingríms Hermannssonar. Málin stóðu þess vegna þannig í þeirri ríkisstjórn að ekki var samstaða um það að falla frá fyrirvörunum. Fyrir lá algjör andstaða mín við það til að mynda að þessi varanlegi fyrirvari varðandi vandamálin félli brott. Ég var reyndar einnig, svo að það komi hér fram, andvígur því að gefa með öllu eftir tiltekna fyrirvara sem tengdust fjarskiptamálum og stöðu Pósts og síma. Þannig stóð málið. Það er eins rétt og ég kann að segja frá því. Það má út af fyrir sig segja að þetta sé nokkuð sérkennileg staða en hún var svona eins og ég kann hana réttasta og ég hef þess vegna leyft mér að segja héðan úr þessum ræðustól að það sem gerst hafi á þessu tímabili frá og með desember/janúar 1990--1991 og fram til 5. maí verði að teljast á ábyrgð hæstv. utanrrh. og samningamanna hans sem fóru með málið.