Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:21:14 (441)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er því miður ekki tími til að ræða þetta áhugaverða mál sem skyldi og ekki er nú dónalegt að hafa sjálfskipaðan sérfræðing hér í stjórnskipunarrétti og þeir gerast margir þessa dagana sem vitna í Ólaf heitinn Jóhannesson eða Bjarna heitinn Benediktsson. Einu má hv. 5. þm. Norðurl. e. ekki gleyma og það er að eftir var sú stóra ákvörðun hvort menn gerðu þennan samning, hvort undir hann yrði skrifaði. Að sjálfsögðu er það svo í þessum tilvikum eins og endranær að menn áskilja sér allan rétt og hafa allan fyrirvara þangað til niðurstaða liggur fyrir í málinu. Auðvitað var það og er það svo. Ég held að þessar tilraunir hv. 5. þm. Norðurl. e., sem ég vil helst jafna við það að setja upp hér eins manns landsdóm í þessum ræðustóli og draga menn til ábyrgðar, gangi ekki upp þegar málið er betur skoðað. Það liggur alveg ljóst fyrir hvernig þetta mál stóð. Afstaða einstakra manna í ríkisstjórninni liggur og fyrir. Ég held að þar með sé málið í raun og veru skýrt. Ég tel ekki að ég hafi í raun og veru gerst sekur um eitthvert brot gagnvart samvisku minni þótt ég hafi haft þessa afstöðu og setið áfram þessa mánuði í ríkisstjórn í ljósi allra þeirra aðstæðna sem uppi voru í samningaferlinu og þeirrar óvissu m.a. sem ég hef áður gert að umtalsefni í ræðu í kvöld.