Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 22:28:04 (445)


     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég var því miður fjarverandi þegar hæstv. ráðherrar, utanrrh. og forsrh., fluttu sínar svarræður í þessari umræðu. Ég hef þó haft tækifæri til að kynna mér þeirra ræður og ég sé að hæstv. utanrrh., sem gengur úr salnum, var óvenju kurteis og hógvær og ég þarf engu þar að svara. Hins vegar er ýmislegt í ræðu hæstv. forsrh. sem ég þarf að fjalla hér um. Áður en ég kem að því ætla ég að leitast við að koma á hreint því sem gerðist í síðustu ríkisstjórn í sambandi við jarðakaupamálin. Það er að vísu afar erfitt að blanda sér í framboðsræðu í Norðurlandi eystra, því þannig tók ég þessi orðaskipti fyrst og fremst, en mér þykir þó nauðsynlegt að hið rétta komi fram og ekki síst eftir að ég sá í aðalfrétt sjónvarpsins að ég hefði farið fram á það við fyrrv. landbrh. að hann hyrfi frá fyrirvörum í sambandi við jarðakaup.
    Ég vil fyrst taka það fram að ég tel alls ekki rétt að birta fundargerðir ríkisstjórnarinnar og get ekki fallist á það fyrir mitt leyti. Þær eiga að vera trúnaðarmál. Ég heyri ekki að hv. þm. hafi brotið neinn trúnað. Hann hefur greint, eins og hann sagði sjálfur, frá sínum sjónarmiðum sem komu fram í ríkisstjórninni og við það hef ég ekkert að athuga. Ég hef einnig talið mér heimilt að greina frá því áður að í ríkisstjórninni í nóvember 1990 lagði aðalsamningamaður Íslendinga fram greinargerð um hina ýmsu fyrirvara sem ég hef hér áður farið yfir og ætla að koma inn á aftur seinna. Hann gerði okkur grein fyrir því hvernig þeir virtust standa. Ég vil taka það fram að ég gerði mínum þingflokki fulla grein fyrir því síðar og taldi þar um svo stórt mál að ræða að þingflokkurinn þyrfti að fjalla um það.
    Þar kom fram hjá aðalsamningamanni að hann teldi mjög vafasamt að unnt yrði að fá skýran fyrirvara um það að stöðva mætti eða banna kaup erlendra manna á jörðum hér á landi, nytjajörðum eins og um var talað. Ég fór fram á það við hæstv. þáv. landbrh. að hann kannaði hvort unnt væri að setja girðingar í lög sem tryggðu þetta á viðunandi máta. Ástæðan fyrir því að ég gerði það var sú að aðalsamningamaður Íslendinga upplýsti að svo væri víða og nefndi Írland í því sambandi. Ég kannast hins vegar ekki við að hafa beðið hæstv. þáv. ráðherra um að falla frá fyrirvörunum. Staðreyndin var sú að ríkisstjórnin var alls ekki búin að taka afstöðu til þessara mála á þeim fundi. Ég get t.d. nefnt til viðbótar að það kom fram í þeirri skýrslu, sem samningamaðurinn lagði fram, að okkur mundi ganga erfiðlega að fá undanþágu í lyfjasölumálum. Ég bað þá m.a. hæstv. heilbrrh. að kanna hvort það væri viðunandi með einhverju móti, hvort hægt væri að haga þeim málum þannig að við gætum við unað. Ég vil taka fram að hann tjáði mér síðar að hann teldi það vera hægt.
    Ég hlýt að segja það eins og er að mér þykir illt að hafa ekki fengið þann mikla fróðleik á borðið á meðan við sátum í ríkisstjórn sem hv. þm. flutti hér áðan og sagði í lok sinnar ræðu reyndar að hann hefði verið að safna á síðustu dögum. Ég heyrði ekki betur. Ég segi alveg eins og er, hv. þm., að ég hefði viljað sjá þetta fyrr. Ég stóð t.d. í þeirri meiningu að þetta írska ákvæði hefði staðist dómstólana og ég hef ekki haft tíma til að leita að því. Þær upplýsingar tel ég að ég hafi fengið, að vísu nokkuð seint en þó fengið. Reyndar hafa fleiri þjóðir verið með slíkar girðingar. Ef þær mismuna ekki þegnum EB í þessu tilfelli veit ég ekki betur en þær eigi að geta staðist gagnvart Evrópudómstólnum. Þetta hefði verið mjög nauðsynlegt og fróðlegt að ræða og hefði getað skapað okkur möguleika til að taka skýrari afstöðu í þessu máli en ekki vannst tími til þess.
    Ég tek undir það með hv. þm. að það afsakar það svo sannarlega ekki að eftir að hafa setið á annað ár hefur núv. hæstv. landbrh. ekki lagt fram neinar upplýsingar um þessi mál. Þó hef ég séð að í ræðum sem hann hefur flutt á samkomum bænda fullyrðir núv. hæstv. landbrh. að það muni verða unnt að setja þarna girðingar og taldi upp ýmsa möguleika í því sambandi. Ég vísa aftur til þess sem hæstv. utanrrh. sagði í framsöguræðu sinni þar sem hann taldi upp fleiri möguleika en ég hafði gert mér grein fyrir og tel ég mig þó hafa gert mér far um að kynna mér þennan þátt málsins. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég tel þetta einn alvarlegasta þátt þessa máls og þetta atriði verður að vera tryggt. Það vil ég líka taka fram að ég var aldrei var við annað í síðustu ríkisstjórn en að allir væru sammála um að þetta atriði yrði að tryggja, með girðingum ef fyrirvarinn fengist ekki. Það hefur vissulega vakið athygli mína að Dönum hefur tekist að standa á slíkum fyrirvara gagnvart sumarbústaðalöndum. Staðreyndin er þó sú að Þjóðverjar hafa seilst mjög til slíkra eigna á ströndum Jótlands þrátt fyrir þennan fyrirvara og hefur það valdið Dönum verulegum áhyggjum.
    Ég vona að þetta skýri málið. Staðreyndin er sú, nákvæmlega eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson dró hér saman áðan, að ég fór fram á það að þáv. hæstv. landbrh. kannaði þetta mál vandlega og legði sínar niðurstöður fyrir mig og væntanlega ríkisstjórnina. Ég hef ekkert klagað undan því, það tókst ekki, mér þykir það leitt. Hann hefur sagt hér sjálfur að honum hafi ekki unnist tími til þess á þeim þremur til fjórum mánuðum sem síðan liðu og við það hef ég m.a. orðið að sætta mig.
    Ég ætla að koma aftur að því sem hæstv. forsrh. sagði áðan. Hann fór nokkuð geyst í sinni ræðu og kom víða við. En áður en ég kem að því þá ætla ég enn, með leyfi forseta, að lesa þá fyrirvara sem ég setti í nafni ríkisstjórnarinnar fram í Ósló í mars 1989 sem síðan mótuðust betur í umræðunni eftir að hún hófst:
  ,,1. Engar fjárfestingar erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða.
    2. Engar fjárfestingar erlendra aðila í orkulindum.

    3. Eignarhald erlendra aðila á landi takmarkist við nauðsynlegt land vegna atvinnureksturs.
    4. Engar yfirþjóðlegar stofnanir aðrar en sameiginlegur dómstóll.`` --- Ég bætti þeim hugsanlega möguleika inn síðar.
 ,,5. Heimild til að takmarka fólksflutninga til landsins.``
    Ég kem að þessu með dómstólinn síðar. Eftir því sem málinu þokaði fram þá skýrðust þessi mál. Ég sagði áðan að aðalsamningamaður landsins í þessum málum, Hannes Hafstein, setti fram upplýsingar um það hvernig tækist að mæta þessum fyrirvörum og ætla ég að ræða um fleiri þeirra síðar.
    Það er rétt hjá hæstv. forsrh. að ég sagði í viðtali eða í grein í Tímanum að ég teldi ekkert að óttast enda yrðu þessir fyrirvarar tryggðir. Ég tel enn að það hafi verið full ástæða til að ætla á þeirri stundu að það tækist að tryggja þessa fyrirvara. Ég taldi það þegar það var skrifað. Ég er ekki frá því reyndar að það hafi verið hægt þegar ég sé það hvað sumum öðrum hefur tekist í þessu sambandi, t.d. Dönum sem hér hafa verið nefndir í sambandi við landeignir í Danmörku. Þá var bara um það að ræða hvað menn stóðu stíft á þessu eða hvað menn gengu langt í að setja girðingar. Ég vek athygli á því að fyrsti fyrirvarinn, um að ekki verði fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi, tókst. Af hverju tókst það? Það tókst vegna þess að við settum lög sem tryggðu það og þau eru viðurkennd. Ég tel að það sé enn hægt að setja lög í vissum þessum greinum sem tryggja þetta. Ég er sem sagt ekki sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þetta sé ekki hægt. Ég hef ekki sannfærst um það.
    Ég hef hins vegar ekki séð núna hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að tryggja þessa hluti. Ég hef ekki séð hvernig hún ætlar sér að tryggja okkur gegn eignarhaldi erlendra aðila á landi. Ég hef bara heyrt yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að það sé hægt og ég hef heyrt að það liggi ekkert á því. Þarna höfum við frest til 1. janúar 1996, ef ég man rétt. Það er mér ekki nóg. Ég treysti mér ekki til að samþykkja aðild að EES án þess að ég sjái áður hvernig á að tryggja þetta. Ég vona að menn skilji það. Það verður ekki aftur tekið ef við verðum orðnir aðilar, það er a.m.k. mjög erfitt, ef þá kemur í ljós að við getum ekki gert slíka hluti.
    Við okkur er einnig sagt að það eigi að setja, eins og fullt samkomulag var um í síðustu ríkisstjórn, girðingar fyrir eignaraðild útlendinga að orkulindum. Ég veit að þetta er hægt og hæstv. iðnrh. hefur sagt að það sé hægt og hefur reyndar sýnt frv. sem var svo dregið til baka. Engu að síður er endanlegt frv. um það ekki komið fram svo ég viti og ég vil sjá hvernig á að gera þessa hluti.
    Við töldum að við gætum fengið sömu heimild til að takmarka fólksflutninga til landsins og viðurkenndir eru á Norðurlöndunum. En það er ekki fyrr en síðar að kemur í ljós að það mun ekki fást og það er ekki fyrr en eftir að ný ríkisstjórn er mynduð að 118. gr., ef ég man rétt, er komin í samninginn og henni er lýst sem fyrirvara í þessu sambandi. Ég tel að þegar grannt er skoðað kunni það að vera rétt með þeim yfirlýsingum sem hæstv. utanrrh. hefur gefið í því sambandi. Skýrt er tekið fram að Íslendingar hyggist nota þennan fyrirvara í sambandi við fólksflutninga ef þeir valda ójafnvægi í okkar efnahag og reyndar einnig í sambandi við jarðakaup, ef ég man rétt.
    Mér þykir hins vegar lakara að hafa ekki þarna, eins og við ætluðum okkur í upphafi, Norðurlandaorðalagið. Ég fæ satt að segja ekki séð hvernig þessi 118. gr. getur nokkurn tímann tryggt okkur gegn miklum jarðakaupum. Hvenær verða jarðakaup orðin svo mikil að þau raski eða valdi erfiðleikum í efnahag landsins? Ég held að það komi aldrei til. Miklir fólksflutningar geta það því þá gætir væntanlega fljótlega atvinnuleysis og óróa á vinnumarkaðinum. Mér finnst þar vera um nokkuð annað að ræða.
    Hæstv. forsrh. Það er hárrétt sem ég sagði þá að ég tel að þetta hefði verið hægt að gera og það hefur valdið mér mjög miklum vonbrigðum hve illa það hefur að mörgu leyti tekist, a.m.k. enn þá.
    Ég vil vekja athygli á því jafnframt að í samþykkt miðstjórnar Framsfl. er alls ekki loku fyrir það skotið að flokkurinn geti stutt þetta. Ég ætla að lesa þá samþykkt líka og ég fór yfir hana síðast. Þar segir miðstjórn Framsfl. og telur að eftirgreindum skilyrðum sé fullnægt:
  ,,1. Samningurinn standist ákvæði stjórnarskrárinnar.
    2. Í stað þeirra fyrirvara sem ekki fengust viðurkenndir verða hagsmunir landsins tryggðir með einhliða lagasetningu á Alþingi.
    3. Tvíhliða samningar um fiskveiðar reynist ásættanlegur, enda sé eftirlit með veiðum erlendra aðila fullnægjandi sem og önnur ákvæði hans.
    4. Tryggt verði að Íslendingar hafi fullar heimildir til þess að leggja jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir.
    5. Formlega verði viðhorf Evrópubandalagsins kannað til breytinga á samningi um Evrópskt efnahagssvæði í tvíhliða samningi Íslendinga og Evrópubandalagsins, ef og þegar önnur EFTA-ríki hafa gerst aðilar að EB. Að slíkri breytingu verði stefnt.``
    Í 2. lið þessarar samþykktar vísað til fyrri fyrirvara þar sem segir að þar sem þeir hafi ekki náðst inn í samninginn verði þeir tryggðir með sérstökum girðingum, eins og við köllum þær hér á Alþingi.
    Jafnframt er hér drepið á aðra þætti sem hafa komið inn síðar, t.d. landbúnaðarmálin og þá bókun sem þar er gerð, bókun 3. Það afar undarlega orðalag sem er í 9. grein við viðauka við bókun 3, sem enn þá hefur alls ekki fengist skýrt hvað þýðir, en þar segir að aldrei megi leggja hærri verðjöfnunargjöld á en lögð voru á viðkomandi vöru sem reyndar var þá aldrei flutt hingað inn og því var aldrei lagt á neitt verðjöfnunargjald. Þetta höfum við óskað eftir að fá skýrt. Sama á við um 3. lið. Þar er fjallað um tvíhliða samninginn sem alls ekki var kominn á dagskrá áður og lá ekki fyrir fyrr en seinna. Það vissu allir um þennan þrýsting. Það var ekki fyrr en seinna sem hæstv. ríkisstjórn taldi nauðsynlegt að láta undan þeim þrýstingi og hann varð mikið umræðuefni í þingsölum eins og allir vita. Ég hlýt að taka mjög stíft undir það, sem hérna hefur komið fram, að mér er óskiljanlegt hvernig menn hugsa sér að geta gengið frá þessum samningi án þess að hafa þann tvíhliða samning fyrir framan okkur.
    Ég vil líka taka það skýrt fram að ég styð þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá hæstv. sjútvrh. og um mun standa deila, að það eigi að koma veiði fyrir veiði en ekki veiðiheimild fyrir veiðiheimild, þ.e. ef íslensk skip ná ekki þeirri loðnu sem um er samið hljóti að verða dregið úr þeim karfa sem hin erlendu skip fá. Svo eru mörg önnur atriði þarna inni sem ég þekki ekki á þessari stundu hvernig standa, t.d. eftirlitið og fleira sem eru afar mikilvæg atriði, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af veiðum skipa sumra þessara þjóða í erlendri fiskveiðilögsögu, alveg sérstaklega við Kanada og reyndar Noreg og Bretlandsstrendur og víðar þar sem ógjörningur hefur reynst að fylgjast með. Þar virðist miklu frekar vera venjan en undanþágan að undan sé svikið, eins og hefur komið fram í umræðu upp á síðkastið.
    Í þessari samþykkt eru því tekin inn ný ákvæði. Það er sömuleiðis tekið inn að samningurinn standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Hæstv. forsrh. tók fram að ég hefði sagt í þingræðu, sem er alveg rétt, að ég fyrir mitt leyti og við í síðustu ríkisstjórn féllumst á að samþykkja EES-dómstól þótt sannarlega mætti færa því rök að sé yfirþjóðleg stofnun. En ég sagði miklu meira í þeirri ræðu, hæstv. forsrh., sem hefði verið rétt af hæstv. ráðherra að lesa líka. Ég sagði í þeirri ræðu jafnframt að mér hefði ekki verið ljóst þá að þetta væri brot á stjórnarskránni, það var ekki búið að athuga það. Ég sagði líka í þeirri ræðu að ef okkur hefði unnist tími til að láta athuga það þá hefði ég talið skylt að láta breyta stjórnarskránni. Við höfðum t.d. ekkert álit fjórmenninga hæstv. forsrh. ( Gripið fram í: Utanríkisráðherra.) já, utanrrh., fyrir framan okkur. Ég skil það vel að hæstv. forsrh. vilji ekki tengjast þessum fjórmenningum. ( Forsrh.: Við skulum hafa það rétt.) Já, það er alveg hárrétt. Við höfðum það ekki fyrir framan okkur. Strax við lestur þess vöknuðu a.m.k. efasemdir mínar. Ég hef sagt það líka að túlkun þeirra á 2. gr., þar sem þeir segja að það megi jafnvel hugsa sér að í 2. gr. stjórnarskrárinnar sé líka átt við erlent framkvæmdarvald og dómsvald, finnst mér satt að segja svo mikil fjarstæða að hver einasti maður sem þetta les og gerir sér grein fyrir því hvernig okkar stjórnarskrá varð til hljóti að vakna til mikillar umhugsunar um þetta.
    Ég skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það þegar mér á einhverri stundu hefur ekki verið eitthvað fullkomlega ljóst. Ég skammast mín ekki fyrir að viðurkenna að ég hafi lært eitthvað af því sem fram hefur verið lagt og ég hef lært mjög mikið af því sem fram hefur komið um stjórnarskrána. Mjög mikið. Að sjálfsögðu hefði þetta allt saman verið vandlega athugað. Ég efast satt að segja ekki um að ráðherrar í fyrri ríkisstjórn hefðu fallist á það eftir slíkar álitsgerðir, og áður en gengið væri frá samþykktum um sæmilegan dómstól, að þá yrði slíkt ákvæði tryggt í stjórnarskránni. Það lá bara ekki fyrir fyrir kosningar. Hæstv. forsrh. hefur lagt áherslu á það og spurt af hverju þessu var breytt í kosningunum. Það lá bara alls ekki fyrir þá og því var því ekki breytt. Það var svo einfalt.
    Hæstv. forsrh. gerði mikið úr því að hann hefði ekki skilið mína ræðu og hvað ég meinti með því sem ég þar sagði, sérstaklega um það að án þess að breyta stjórnarskránni væri þeim sem gætu hugsað sér að styðja samninginn málefnalega gert það ókleift. Að mínu mati hlýtur hver maður að gera sér grein fyrir því að þetta stenst ekki stjórnarskrána. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þá málsgrein hjá mér sem um þetta fjallar. Þar segir:
    ,,Efnislega er því mörgu ábótavant, mjög mörgu ábótavant við samninginn og ég skal ekki segja hvort tekst að bæta úr því með einhliða lagasetningu hér heima fyrir. Við bíðum eftir því að fá að sjá slíkt, við bíðum eftir svörum við nokkrum spurningum. Hinu er svo ekki að neita að hin hlið málsins, það sem ég kalla tæknilega hlið málsins, er öllu verri. Ég hef áður sagt það hér að mér þykir ljóst og ljósara með hverjum degi, þegar ég les samninginn oftar og álit lögfræðinganna, að ekki er hægt að gera þennan samning að óbreyttri stjórnarskrá. Það er ekki hægt. Því er vitanlega afar mikilvægt að fá að vita hvort ríkisstjórnin vill stuðla að því að þeim sem geta fylgt samningnum efnislega, að uppfylltum ýmsum skilyrðum, sé gert það kleift með því að breyta stjórnarskránni. Við höfum flutt hér á hinu háa Alþingi frv. til stjórnlagabreytinga þar sem heimild yrði veitt til slíks.``
    Er þetta ekki alveg skýrt? Ég get ómögulega séð annað en það hljóti að vera skýrt og það hlýtur að hafa staðið eitthvað illa í bólið hjá hæstv. forsrh. þegar hann hlustaði á mig flytja þetta því ég veit að hann er það skarpur maður að hann hlýtur að skilja þetta. Ég veit ekki hvað ég á að skýra betur. Meira að segja miðstjórn flokksins hefur ekki endanlega kveðið upp úrskurð um það að vera á móti af því að hún vill sjá að það standist stjórnarskrána. Reyndar bættum við líka einu skilyrði við, sem ég rakti ekki áðan en vil nefna núna, sem ég tel hvað mikilvægast í framhaldi af meðferð málsins. Það er síðasta skilyrðið: Að þegar verði sú ákvörðun tekin og mörkuð að ganga til viðræðna við EB um að breyta þessum samningi í tvíhliða samning. Ég tel satt að segja að ef það fengist í gegn og yrði tekið í lög eða samþykkt þál. eða sem samkomulag á milli allra stjórnarflokkanna þá væri mjög mikið unnið í þessu máli. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þeir eru margir sem óttast að þetta sé skref inn í EB. Ég held ekki að EES-samningurinn sem slíkur þurfi að vera skref inn í EB en ég óttast það mjög. T.d. var það fellt með einu atkvæði hjá ungum sjálfstæðismönnum að mæla ekki með aðild að EB og á flokksþingi Alþfl. hlaut það mjög mörg atkvæði, ég man ekki hver hundraðshlutinn var, 30% eða eitthvað nálægt því sem vildu

samþykkja nú þegar að við ættum að ganga inn í EB. Ég hræðist þetta mjög. Ég óttast líka það sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. í skýrslu hans á síðasta þingi að vangaveltur hans um að það bæri að skoða það að fara inn í EB. Nú getur hver sem er sagt: Hefur nokkur á móti því að skoða? Nei, ég er ekkert á móti því að skoða. Ég taldi bara að við værum búnir að skoða þetta svo vandlega og við gerðum okkur fulla grein fyrir því hvað það þýddi að ganga inn í EB og undir hvaða ok við þyrftum að gangast. Við yrðum þar ekkert annað en valdalaust peð og útkjálki í því stóra bandalagi svo að mér brá þegar ég sá að menn, sem ég hef starfað með að þessum málum og taldi að með okkur væri fullur skilningur, eru farnir að dekra við slíka hugsun því að m.a. beitti ég mér fyrir því að miðstjórn Framsfl. setti þetta skilyrði. Ég hef ekki fengið nein svör við þessu enn þannig að ég er ekki síst að vísa til þess þegar ég segi hér í upphafi: Efnislega er því mjög mörgu ábótavant við samninginn. Ég skal ekki segja hvort tekst að bæta úr því.
    Það sem ég tel ábótavant við samninginn efnislega skal ég taka í ákveðinni röð. Í fyrsta lagi er ekki búið að setja girðingarnar. Við höfum ekki fengið að sjá þær enn. Við höfum fengið orð fyrir því að það sé hægt. Að vísu segja aðrir að það sé erfitt. Lögfræðingar sem skipaðir voru í sambandi við landamálin kveða ekkert upp úr um það að neinu leyti. Við höfum ekki séð þessar girðingar, hvorki í landamálunum, eignarhaldi á landi og ekki heldur í orkumálunum. Við höfum ekki séð sjávarútvegssamninginn í sinni lokagerð. Við höfum heldur ekki í raun fengið úr því skorið hvernig er með þetta landbúnaðarklúður, ef ég má kalla það svo. Þar er orð á móti orði og hvernig er það, getum við fengið það upplýst áður en við höldum lengra með þennan samning?
    Við höfum heldur ekki fengið nein svör við því að ríkisstjórnin vilji marka þá ákveðnu stefnu að strax og hin ríkin hefja viðræður um aðild að EB skuli gengið í þær viðræður að breyta þessu í tvíhliða samning. Það á að gera samkvæmt síðustu upplýsingum nú í janúar. Er nokkurn tíma að missa? Af hverju ekki að ganga út frá því? Þetta eru allt efnisleg atriði sem ég skal viðurkenna að ég er farinn farinn mjög að efast um að við fáum nokkur svör frá hæstv. ríkisstjórn um. En svo bætist stjórnarskráratriðið ofan á.
    Ég vil segja það skýrt og skorinort að ef stjórnarskráratriðið er leyst og öll þessi atriði eru leyst sem ég hef nefnt þá mundi ég svo sannarlega skoða hug minn vandlega áður en ég hafna þessum samningi. Ég mundi sannarlega skoða hug minn mjög vandlega og gæti alveg eins orðið til þess að mæla með því að hann yrði samþykktur. Ég get að vísu ekki talað fyrir hönd allrar miðstjórnarinnar en ég hygg að ég hafi nokkur áhrif á það sem þar mundi ákvarðast svo að ég vona að þetta liggi hreint fyrir. En ég tek það skýrt fram að ég á í raun við öll þessi atriði. Ég legg kannski mismunandi mikla vigt á þessi atriði, líklega mesta vigt á það að sú stefna verði mörkuð að ganga til tvíhliða samninga og allar bollaleggingar um aðild verði út af borðinu og svo náttúrlega stjórnarskráratriðið sem verður að vera á hreinu. Annars getum við ekki samþykkt þennan samning. Ég legg vitanlega líka mikla áherslu á þetta með jarðeignirnar o.s.frv. og vonast til að úr því verði bætt. En ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu.
    Ég vona að hæstv. forsrh. sé ekki í nokkrum vafa um við hvað ég á og ég hef enn einu sinni farið yfir. Hæstv. forsrh. sagði að vísu að það hefði legið alveg ljóst fyrir á miðju ári 1990 að stjórnarskrárbreyting þyrfti að verða. Hann hefur þar líklega verið að vísa í skýrslu sem Stefán Már Stefánsson gerði fyrir vinnunefnd hæstv. utanrrh. þar sem hann fyrst og fremst talar um forúrskurði sem leitað yrði hjá dómstólum og um dómstól EES. Ég hef áður sagt, ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. var með í þeim orðaskiptum, að ég tel þetta með forúrskurðina ekki það alvarlegasta í sambandi við stjórnarskrármálið því að um þá verður að biðja. Ég get verið sammála fjórmenningunum í því að áður en unnt er að biðja um forúrskurði þyrfti að breyta stjórnarskránni. Sem sagt, við getum ekkert notað okkur það atriði eins og stjórnarskráin er skrifuð núna. Ég hygg að með tilliti til þess að sé það nokkuð rétt sem kom fram í skýrslu hæstv. utanrrh. frá mars 1991 þar sem hann telur að eins og málin stóðu þá sé þetta í lagi. Að vísu þótti mér síðasta málsgrein í þeim kafla skýrslunnar ekki síður athyglisverð þar sem hann bendir réttilega á að breyta þurfi stjórnarskránni af ýmsum ástæðum í þessu sambandi.
    Ég ætla ekki að eyða mörgum fleiri orðum í að yfirfara það sem hæstv. forsrh. sagði en mig langar til að koma að fáeinum atriðum öðrum. Vitanlega er það ljóst og því er ekki hægt að neita að öll aðstaða í þessu sambandi hefur gerbreyst frá því að við hófum þetta starf í mars 1989 og það er ekki fyrr en síðar meir að það liggur fyrir að öll EFTA-ríkin, að vísu vil ég undanskilja Noreg, hugsa sér að ganga í EB og náttúrlega er engin furða þó að menn fari að hugleiða hvað verður þá um okkur og mér þykir það satt að segja hreint og beint ótrúlegt ef hæstv. ríkisstjórn hefur ekki rætt það mjög ítarlega. Vitanlega hlýtur það að breyta viðhorfum margra manna til þessa samnings að allur grundvöllur hans, sem sagt samstaða EFTA-þjóðanna í EES, er hruninn. Og vitanlega hlýtur það líka að vekja upp þær spurningar hvort hinar EFTA-þjóðirnar hafi í raun haft mikinn áhuga á því að ná þarna inn fyrirvörum eða styðja okkur í þeim því að þeim var náttúrlega ljóst að þær gátu ekki fengið neina slíka fyrirvara þegar þær væru komnir í EB.
    Ég held einnig að mönnum hljóti að vera ljóst að margt af því sem fram hefur komið í allri þessari umræðu er allt annað en við töldum þegar við fórum af stað. Ég ætla bara að leyfa mér að fara nokkrum orðum yfir greinar frv. sem eru ekki nema fimm. Í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd:
    1. Samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), þ.e. meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka, ásamt gerðum sem í viðaukunum er getið, milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola-

og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar . . .  `` o.s.frv. Ég hefði gaman að vita það frá hæstv. utanrrh. hvort hann gerði sér grein fyrir því þegar við hófum þessar viðræður hvað þetta er viðamikið. Ég trúi því varla því að nú er upplýst að fyrir utan meginmál samningsins eru þessar bókanir við hann og viðaukar 8.700 síður. Og það er búið að þýða um það bil 5.000 síður og auk þess er eitthvað á þriðja þúsund síður sem ekki falla beint undir þetta en þarf að þýða. Fyrir utan þetta kemur mjög víða fram í þessum samningi að það verður að taka tillit til fyrri dóma EB og ég hef ekki hugmynd um hvað þeir eru margar síður. Ég hef ekki fengið nokkurn til að segja mér það. Ég hef spurt að því en það getur enginn sagt mér það. Þeir er ekki þýddir en gaman væri að vita hvort t.d. hæstv. ráðherrar hafa lesið allar þessar 8.700 síður.
    Svo segir í 2. gr., ég ætla að taka fram að hér er verið að tala um að fullgilda samninginn, þ.e. þjóðréttarlega, og þarna verðum við að greina á milli sem margir hafa ekki gert af hálfu stjórnarliða:
    ,,Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi. Sama gildir um ákvæði bókunar 1 við samninginn og ákvæði 9. tölul. VIII. viðauka og g-liðar 1. tölul. XII. viðauka við samninginn.
    Ákvæði EES-samningsins, bókunarinnar og viðaukanna, sem vísað er til í 1. mgr., eru prentuð sem fylgiskjöl 1--4 . . .  `` o.s.frv. --- ,, . . .  með lögum þessum.`` Sem er nú dálítið undarlegt að setja inn í frv. en hvað um það.
    Þegar maður fer að lesa þetta og ég gæti rakið fjöldamargar greinar þá er alltaf verið að vísa í ýmislegt fleira. Þetta er byggt á fjölmörgum öðrum greinum og ég tala nú ekki um þegar að bókununum kemur þá er aftur verið að vísa í fleiri bókanir. Ég sé ekki annað en að þegar þetta er rakið þá sé í raun og veru verið að lögtaka þetta mestallt, þessar 8.700 síður. Það er hlutur sem ég held að okkur þáv. hæstv. utanrrh. hafi aldrei dottið í hug, jafnvel ekki í okkar villtustu draumum. Það held ég ekki. Ég þori að fullyrða að hér er náttúrlega um allt annað að ræða. Hér er um skrímsli að ræða sem engum okkar datt í hug að gæti með nokkru móti komið út úr þessu.
    Ég vil ekki lengja umræður með því að lesa greinar þar sem verið er að vísa áfram í annað. Það er hér hvað eftir annað, það er í 9. gr., það er í 21. gr. og það er í 23. gr. o.s.frv. Það er út um allt í þessum samningi alltaf verið að vísa í annað. Er það þá ekki í raun og veru allt saman lögtekið? Og svo segir í 3. gr.:
    Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.`` Hér er bara opið. Að vísu vil ég trúa því að hér sé eingöngu átt við lög og reglur sem koma fjórfrelsinu við að sjálfsögðu en það er töluvert mikið í okkar lögum. Svarið við þessu er að verið sé að gera þetta með því að breyta ýmsum lögum með þessum sextíu og eitthvað frumvörpum sem liggja fyrir. En sum þessi frumvörp eru þannig að í einu frv. eru felld úr gildi mörg lög og svo bara sagt: Ráðherra ákveður framkvæmdina með reglugerð. Ætli nokkurn tíma hafi tíðkast slík lagasetning á hinu háa Alþingi? Ég leyfi mér einnig að fullyrða að okkur hæstv. utnrrh. datt aldrei í hug hvorki í draumi né vöku að við þyrftum að ganga í gegnum þessa herleiðslu.
    Í 4. gr. er dálítið athyglisvert ákvæði:
    ,,Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins.`` Hæstv. forsrh. ræddi mikið um brot á stjórnarskránni í umræðu um stjórnarskipunarlögin þar sem Alþingi hefur veitt ráðherrum allt of víðtækar heimildir með reglugerðum og sem sumir lögfræðingar, sérstaklega prófessor Sigurður Líndal, hafa lagt sig fram um að skoða. Hvað segir hæstv. forsrh. um þessa grein? Hér er bara sagt opið að ráðherra, sem í hlut á, sem sagt iðnrh., viðskrh., sjútvrh. og hver sem í hlut á, getur ,,vær så god`` bara breytt öllum lögum með reglugerðum ef þær stangast á við EES. Það þarf ekki einu sinni að koma með þær til Alþingis. ( Gripið fram í: Að eigin mati.) Já, að eigin mati, það stendur þar ,,ef sérstök nauðsyn krefur``. Vitanlega að eigin mati, ráðherra er ábyrgur fyrir því. Hann þarf ekki að koma með það fyrir Alþingi. Ég held að engum geti dottið í hug að þetta standist. Ég vil skýra frá því að ég hef í utanrmn. óskað eftir því að leitað verði álits prófessors Sigurðar Líndals á þessu ákvæði, hvort þetta bókstaflega stenst. Í samræmi við hans ályktanir um ýmis lög þá held ég satt að segja að þetta standist ekki og það hljóti að þurfa að leggja fyrir Alþingi allar slíkar breytingar.
    Ég vil að lokum taka það fram í þessu sambandi að ég hef oft sagt og stend við það enn að það er enginn kostur fyrir okkur Íslendinga að einangrast í alþjóðlegu samstarfi. Við höfum gert samning um EFTA. Ég skýrði frá því að ég studdi hann fyrir mitt leyti. Og ég studdi eindregið samninginn við EB og það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., sem sagði einhvern tíma í þingræðu, ég held að hann hafi sagt eitthvað sem svo að Framsfl. hafi aldrei staðið að alþjóðlegum samningi en hefði tækifæri til að standa að honum núna. Samningurinn við Evrópubandalagið var gerður við ríkisstjórn Ólafs Johannessonar á árinu 1972, ef ég man rétt. Hann var gerður í þeirri ríkisstjórn. Og Framsfl. studdi eindregið þann samning og ég tel að sá samningur og bókun 6 hafi verið mjög mikilvægur samningur í raun og veru, að öllum líkindum miklu mikilvægara skref fyrir sjávarútveginn en það sem verið er að taka hér. Og ræða hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur hefur vakið mjög mikla athygli því að þar er talað af þekkingu um sjávarútveginn og að sjálfsögðu hljóta menn að krefjast þess að þeir sem þekkja sjávarútveginn gerst, eru þar forustumenn, komi fram og meti það öðruvísi en í almennum orðum hvaða hag sjávarútvegurinn hefur af þessum samningi. Við höfum talið að tollalækkanir og opnanir þýði svona 1,5--2 milljarða. Vitanlega er það rétt að sumt af

því og kannski mikið af því fellur til neytenda. En okkur sagt núna að síldin sé ekki með. Þetta var mikið rætt á síðasta þingi og var sagt: Hafið ekki áhyggjur, þetta skýrist allt, hún er vissulega með. Nú er manni sagt að hún sé ekki með. Síldarútvegsnefnd fær engin svör við því hvort síldarflök séu með. Okkur var einu sinni sagt að það ætti eingöngu við síldarflök með einhverju ákveðnu kryddi. En nú er það á huldu og meira að segja er upplýst að þau lönd sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við síldina leggjast eindregið gegn því að síldarflök verði með í EES-samningnum, þ.e. lönd innan EB. Væri nú ekki verðugt verkefni fyrir hæstv. utanrrh. að gera sér jafnvel enn eitt erindi, þó að ég viti að hann sé orðinn leiður á því, og fara til Brussel og fá nú úr þessu skorið svo við vitum þetta í eitt skipti fyrir öll?
    En eins og ég segi, við Íslendingar, þessi litla þjóð, verður vitanlega að vera í alþjóðasamstarfi. Og það er alveg hárrétt að Evrópubandalagið, eitt af þessum þremur efnahagsrisum sem nú berjast um yfirráðin í heiminum, mun, eða sá sem sigrar, ákveða reglurnar sem við verðum að beygja okkur undir. Við setjum ekki okkar eigin reglur í alþjóðlegum viðskiptum. En ég rakti það hins vegar hér síðast að við þurfum að gæta okkar afar mikið á því sem við fórnum fyrir aðild að slíkum samtökum. Ég ræddi það líka að vitanlega stendur lítil þjóð miklu veikar í öllu slíku. Þjóðverjar hafa ekkert að óttast frá okkar hendi. Við kaupum ekki upp Deutsche Bank eða einhver slík fyrirtæki þar, jafnvel þótt minni væru. En það er áreiðanlega rétt sem stundum hefur verið sagt að Deutsche Bank gæti keypt upp alla íslensku bankana á einum eftirmiðdegi og fyndi ekki fyrir því í sínum reikningum. Það er þessi afar misjafna aðstaða sem hlýtur að vekja menn til umræðu um hvernig smáríki, ef það vill halda sínu fullveldi og sjálfstæði, á að haga sér. En ég heyri það á sumum mönnum sem boða aðild að þeim virðist vera nokkuð sama um hvort Íslendingar halda sínu fullveldi og sjálfstæði.
    Menn segja: Jú, jú. Menn hafa þegar fórnað miklu af sínu fullveldi. Ég tek undir það og við munum fórna ýmsu af okkar fullveldi, sjálfsákvörðunarrétti. Við hljótum að gera það t.d. í umhverfismálum. Það hljóta allar þjóðir að verða að gera. En það er vitanlega hrein endileysa að segja að fullveldishugtakið sé ekki enn þá í fullu gildi. Að sjálfsögðu er það í fullu gildi. Við erum að tala um að halda sjálfsákvörðunarrétti okkar, innan þeirra marka sem þjóðirnar í heiminum geta haldið sjálfsákvörðunarrétti sínum í breyttum heimi. Við erum að tala um það eins og það verður vonandi markað með alþjóðlegu samstarfi. Ég vil ljúka þessu með því að segja að við framsóknarmenn viljum stuðla að alþjóðlegu samstarfi. Við teljum að samninga við öll þessi stóru bandalög eða ríki sem nú berjast, þau eru þrjú, ætti að kanna og ég fagna því að hæstv. utanrrh. kannar slíkt við Bandaríkin. Við teljum hins vegar afar nauðsynlegt að gæta sín á því hvað við erum lítil og vanmáttug í öllum þessum slag og verðum þess vegna að halda vörnum okkar vel og gæta okkar mjög á því sem gerist í öllu þessu sambandi.
    Ég vil líka segja í þessu sambandi að lokum að við framsóknarmenn erum svo sannarlega til viðræðu um ýmsar breytingar t.d. á því frv. sem við lögðum fram um stjórnarskrána. Ég tala vitanlega ekki fyrir aðra sem þar flytja málið. En það má auðvitað tryggja að stjórnarskrárákvæðið náist með öðrum hætti og er sjálfsagt að setjast niður og ræða um þá hluti. En eins og málið stendur núna sýnist mér afar vonlítið að Framsfl. geti stutt þetta mál, það þarf þá mikið að breytast og kannski gerist það.