Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 00:17:38 (459)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að ávinningurinn fyrir sjávarútveginn, sem menn telja sig sjá með því að gerast aðilar að þessum samningi, er vissulega ofmetinn. Ég þarf ekki fleiri orð um það.
    Ég vil einnig að gefnu tilefni, vegna þess að það hefur komið hér fram, velta því upp hvort menn halda að ávinningurinn af þessum samningi verði mikill fyrir Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Skyldi hann verða mikill fyrir Slippstöðina á Akureyri? Skyldi hann verða mikill fyrir þau hundruð manna sem hafa haft atvinnu af þessari starfsemi? Trúa menn því? Trúa menn því að ávinningurinn fyrir íslenska verktakastarfsemi verði mikill með þessum samningi? Trúa menn því að húsgagnaiðnaðurinn hafi mikinn ávinning af þessum samningi? Ég gæti haldið áfram að telja upp en ég held ég láti þetta duga.