Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 00:19:24 (460)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla eingöngu að taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um skipasmíðarnar. Það er auðvitað hárrétt að minna menn á að það tókst ekki að tryggja Íslendingum það að skipasmíðar yrðu með í þessu þannig að samkeppnisskilyrði þeirra yrðu lagfærð. Einu mega menn ekki gleyma og er grundvallaratriði í sambandi við þessa samkeppni sem við höfum verið að tala um og það er ef einhverja vöru á að framleiða á Íslandi og hún á að vera samkeppnisfær á þessu svæði, þá má hvergi finnast á svæðinu fyrirtæki sem framleiðir hana á lægra verði. Við verðum sem sagt að vera þeir sem getum framleitt ódýrustu vöruna. Það eru ekki miklir möguleikar á Íslandi á því að framleiða ódýrari vörur en eru framleiddar einhvers staðar á öllu þessu svæði. Það kann vel að vera að mönnum finnist þetta svartsýnislega talað en það er bara einu sinni þannig að til þess að framleiða ódýra vöru þarf að fjöldaframleiða hana, koma henni á markað og til þess þarf mjög stór fyrirtæki ef menn ætla að keppa á þessum stóra markaði.