Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 00:34:53 (462)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í þeirri ræðu sem hér var flutt komu fram sjónarmið sem vissulega hljóta að vekja mikla athygli í umræðunni. Það var mikilvægt að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður Evrópustefnunefndar Alþingis, skyldi rekja hér það sem allir þingflokkar stóðu saman um sem stefnu íslensku þjóðarinnar fyrir fáeinum missirum.
    Jafnframt kom fram í ræðu hans að stefnan að gera tvíhliða samning milli Íslands og Evrópubandalagsins væri sú stefna sem hann og flokkur hans vildi fylgja. Ekki hefði verið framkvæmd breyting af hálfu Sjálfstfl. á þeirri stefnu. Hún hefði hvergi verið afgreidd í stofnunum flokksins. Vissulega er mjög mikilvægt að á Alþingi er kominn fram í þessari ræðu slíkur stuðningur við stefnuna um tvíhliða samning milli Íslands og Evrópubandalagsins. Í þessum umræðum hefur komið fram að Alþb. er fylgjandi slíku, Kvennalistinn er fylgjandi slíku, formaður Framsfl. hefur lýst því sem viðhorfum sínum og þess vegna er mjög brýnt að á næstu vikum fari fram viðræður milli þingmanna um það hvort ekki næst breið samstaða og meiri hluti í þinginu um að setja fram formlega kröfu til Evrópubandalagsins um viðræður um slíkan tvíhliða samning.