Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:33:45 (466)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í máli hæstv. forsrh. áðan kom fram við hvaða kringumstæður samningurinn, sem er fjölþjóðlegur þjóðréttarsamningur að uppruna, getur breyst í tvíhliða samning. Það gerist með þeim hætti að ef hin bandalagsríki okkar í EFTA ná því markmiði sínu einhvern tíma seinna á þessum áratug að ganga í Evrópubandalagið þannig að Ísland yrði eitt eftir utan Evrópubandalagsins með þennan samning, þá hefur hann þar með breyst í tvíhliða samning milli Íslands og stækkaðs Evrópubandalags. Það breytir ekki því að samningnum var komið á í fjölþjóðasamfloti en hann yrði þetta að forminu til. Það mundi þýða að við þyrftum að semja upp á nýtt um eftirlitsþáttinn, þann sem stýrir lausn deilumála. Ég tek sérstaklega fram að við höfum þegar rætt við Evrópubandalagið og varaforseta þess, Andriessen, um þennan skilning okkar á samningnum og hann hefur staðfest að þetta sé skilningur hans líka.
    Að því er varðar hvaða sjávarafurðir ég var að ræða um, niðurlagðar, niðursoðnar eða varðar skemmdum eða á annan hátt, tilbúna fiskrétti, þá ítreka ég að þar lækka tollar úr 10% í 3% og bið hv. fyrirspyrja eða ræðumann að rugla því ekki saman við frystar afurðir.