Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:38:20 (469)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Því miður gefst ekki tími til að fara efnislega ofan í ræðu hæstv. utanrrh. en eitt vil ég þó þakka honum og það er nokkuð viðamikil tilraun til efnislegra svara á nokkrum sviðum og þar gerir hann betur en starfsbræður hans sem sjást ekki í þingsalnum enda þótt mörgum spurningum hafi verið beint til þeirra.
    Um lýsingu hæstv. ráðherra á atburðum í síðustu ríkisstjórn síðustu mánuði ársins 1990 get ég tímans vegna aðeins sagt þetta: Því miður segir hæstv. utanrrh. ekki rétt frá þeim atburðum. Hann misminnir eða skortir verulega á nákvæmni í lýsingu hans á því hvernig þá bar að. Það liggur fyrir að það var óleystur ágreiningur í þeirri ríkisstjórn um þau atriði sem hér eiga við og hæstv. utanrrh. fékk ekki afgreitt umboð til þess í þeirri ríkisstjórn að ganga til samninga á grundvelli þess að fallið væri frá varanlegum fyrirvörum.
    Svo bið ég að lokum hæstv. utanrrh. að vanda endursögn sína á ræðum manna hér því að ég tel að engir ræðumenn hafi sagt það um útkomu sjávarútvegsins í þessum samningum sem hæstv. utanrrh. lagði þeim hér í munn.