Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:41:18 (471)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi með því að draga í land frá fyrri ummælum sínum í kvöld eins og hann gerði áðan skýrt málið nokkuð og staðfest stöðu þess í raun og veru eins og hún var og atburðirnir 19. des. hljóta auðvitað að skrifast á ábyrgð utanrrh. Staðan liggur fyrir eins og hún var í málinu í þáv. ríkisstjórn.
    Ég vil svo nota það sem ég á eftir, 33 sekúndur, til þess að útskýra aðeins betur það sem ég ætlaði að gera í mínu fyrra andsvari. Ég hef engan heyrt halda því fram í þessum umræðum að það séu ekki hagsbætur fyrir íslenskan sjávarútveg út af fyrir sig í þeirri hlið samningsins. Það sem menn hafa rætt um er í fyrsta lagi hvort þeir hagsmunir séu ekki ofmetnir og í öðru lagi hafa menn spurt: Hvernig ætlar íslenskur sjávarútvegur að nýta sér þessi sóknarfæri? Hver eru þau? Hvar liggja þróunarmöguleikarnir og hvernig ætla menn að grípa þá? Þar hefur meira farið fyrir fullyrðingum en útlistunum og ég skal viðurkenna að hæstv. utanrrh. gerði nokkra tilraun til þess, en þá sakna ég enn sjútvrh. og leyfi mér að inna eftir honum. Hvenær kemur hann til leiksins og svarar fyrir þá hlið mála? ( Forseti: Það skal strax upplýst að hæstv. sjútvrh. er ekki í húsinu.)