Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 02:00:12 (482)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. er fullkunnugt var umræddur samningur ekki til þegar seinasta ríkisstjórn var til staðar. Umræddur samningur varð til á því tímabili sem núverandi ríkisstjórn starfaði. Þess vegna var ákaflega erfitt að fara í harða gagnrýni gegn samningnum á því tímabili sem hann var í sköpun.
    Hins vegar vona ég að hæstv. utanrrh. minnist þess að á lokadögum þingsins á liðnum vetri þá las ég upp í þessum ræðustól 2. gr. stjórnarskrárinnar til þess að undirstrika það álit mitt, ég er ekki lögfræðingur, að ég fengi ekki séð að þetta stæðist stjórnarskrána. ( Forseti: Forseti biður hv. þingheim forláta sér en forseti kann illa þessu orðfari að samningur standist stjórnarskrána. Konur standast menn. Lög standast gagnvart stjórnarskránni ef málskilningur minn hefur ekki mjög bilast með árunum.)