Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 02:07:38 (487)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal vera mjög stuttorður en ég bendi á það, eins og kom fram núna fyrir augnabliki síðan, að þegar kemur að viðkvæmum spurningum þá víkur hæstv. utanrrh. sér undan því að svara.
    En það sem ég ætlaði að ítreka við hæstv. utanrrh. snertir sjávarútvegssamninginn. Ég hef verið að reyna að fara yfir þau mál síðustu daga og síðast í morgun fór ég yfir sjávarútvegskaflann frá A--Ö með einum okkar fremsta manni á því sviði og í viðtali við þessa aðila kemur allt annað fram en það sem hæstv. ráðherra heldur fram hér úr stólnum. Það er miklu nær því sem hv. 2. þm. Vesturl. hefur upplýst okkur um.
    Ég ætla enn einu sinni að gera tilraun og fylgja eftir spurningu hv. 2. þm. Vesturl. og nú spyr ég ( Gripið fram í: Tíu mínútur yfir tvö.). Já, klukkan tíu mínútur yfir tvö spyr ég hæstv. utanrrh. varðandi síldina: Hvar liggja vaxtarmöguleikarnir inn á Evrópumarkaðinn? Það skiptir höfuðmáli, ekki það hvað nákvæmlega á hvaða afurðum við höfum fengið tollalækkun. Það skyldi ekki vera að aðalvaxtarmöguleikarnir í síldinni liggi einmitt í þeim afurðum sem deilan stendur um og við höfum ekki fengið niðurfellda tolla af. Það er í það minnsta mat þeirra sem starfa í atvinnugreininni. Það er ediksaltaða síldin, sem vaxtarmöguleikarnir liggja í.
    Í öðru lagi vil ég ítreka spurningu sem hæstv. ráðherra svaraði ekki áðan, hvað með niðurfellinguna á tollum á karfaflökum? Karfinn hefur verið sá fiskur sem við höfum átt hvað erfiðast með og ekki náð að ná út úr verði öðruvísi en annaðhvort að sigla með hann óunninn eða sjófrysta hann. Hvað lækka tollarnir á karfaflökum mikið í upphafi og hvað verða háir tollar af karfaflökum árið 1997 þegar aðlöguninni lýkur? Þetta eru mjög einfaldar spurningar og þó svo að klukkan sé farin að ganga þrjú og kominn galsi í einstaka mann hér trúi ég ekki öðru en að hæstv. utanrrh. gefi skýr og greinileg svör við þessu.