Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 02:11:02 (489)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé ekki beinlínis rétt krafa á hendur utanrrh. að hann svari hér um efnisatriði frv. sem ekki er á dagskrá. Frv. um vörugjöld er að sjálfsögðu á ábyrgð fjmrh. Um það er að segja að við erum samkvæmt EES-samningnum skuldbundnir til þess að leggja af fjáröflunartolla sem úreltir eru. Okkur er hins vegar frjálst að bæta ríkissjóði upp það tap svo lengi sem það mismunar ekki samningsaðilum í formi vörugjalda. Það er það sem við erum að gera.
    Að því er varðar spurninguna um saltsíldarflökin er það rétt, sem fram hefur komið, að tiltekin edikblanda, sem samkvæmt úrskurði þeirrar nefndar sem fjallar um tollflokkun Brussel-kerfisins, flokkast ekki undir saltsíldarflök sem náðist fram tollfrelsi fyrir. Að því er varðar karfa þá er það líka rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það tókst ekki, þrátt fyrir mikinn árangur í niðurfellingu tolla, að ná núll-tolli fyrir karfaflök.