Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 02:18:36 (495)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá virðulegum forseta að ég var kominn langt í ræðu minni þegar umræðunni var frestað. Áður en ég lýk henni vil ég segja við hæstv. utanrrh.: Mér finnst það hvorki kurteisi né drengilegt af honum hefja hér í kvöld sína svarræðu með því að tíunda ræðutíma, dagafjölda og annað þegar stjórnarandstaðan féllst góðfúslega á það að hæstv. ráðherra gæti farið í þrjá daga burtu frá umræðunni. Það var auðvitað alveg ljóst öllum sem fylgdust með henni meðan hún fór fram að fjarvera hæstv. ráðherra lengdi mjög umræðurnar. Ein af ástæðum þess að ég er til knúinn að standa hér upp klukkan hálfþrjú að nóttu til að ljúka ræðu minni er fjarvera hæstv. utanrrh. Ég endurtek það að mér finnst það hvorki sanngjarnt né drengilegt af hæstv. utanrrh. að mikla þessa hluti með þeim hætti sem hann hefur gert hér.

Ef hæstv. ráðherra hefði metið þingið það mikils að vera hér þyrftum við ekki að standa hér klukkan hálf þrjú um nótt til að ræða það frv. sem nú kemur til umræðu. (Gripið fram í.) Hvað er formaður þingflokks Alþfl. að gjamma hér fram í? ( ÖS: Menn geta sofið fram eftir.) ( Gripið fram í: Að skora á þingmenn að mæta ekki á nefndarfundi í fyrramálið.) Formaður þingflokks Alþfl. segir hér að menn geti sofið fram eftir. Ég veit ekki hverjir það eru. Það er kannski ráðherrann sem getur sofið fram eftir. Við hin eigum að mæta hér í þinginu eftir ekki mjög langa stund til þess að halda áfram vinnu okkar.
    Ég ætla ekki að gera þetta að stóru máli en ég vil bara segja við hæstv. utanrrh. að það verður kannski bið á því að maður sýni kurteisi næst ef henni er mætt með derringi eins og fram kom hjá ráðherranum hér í kvöld.
    Í fyrri hluta ræðu minnar í síðustu viku rakti ég nokkuð rækilega það sem fram kom í skoðanakönnun sem utanrrn. lét gera. Ég ætla ekki að endurtaka það hér en það er auðvitað ljóst að sú könnun varpar margvíslegu ljósi á þetta mál sem utanrrn. er ekki mjög hagstætt.
    Varðandi stjórnarskrárfrumvarpið hefur það komið fram að bæði hæstv. forsrh. og nokkrir þingmenn stjórnarliðsins, sem talað hafa um stjórnarskrármálið, hafa velt því fyrir sér að e.t.v. væri æskilegt að breyta frv. Þeir teldu að frv. gæti ekki fullnægt ætlunarverki sínu í núverandi búningi. Ég vil lýsa því hér yfir að ef það getur orðið til samkomulags við fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna að orða þessa nýju grein stjórnarskrárinnar með þeim hætti sem þeir telja fullnægjandi að þá erum við flutningsmenn frv. örugglega reiðubúnir til þess.
    Ég vil í öðru lagi benda hæstv. utanrrh. á að það væri fróðlegt fyrir hann að fá prófessor Björn Þ. Guðmundsson til að rekja þær grundvallarkenningar í dönskum og íslenskum stjórnskipunarrétti sem prófessorinn hefur vitnað í til að rökstyðja niðurstöður sínar í greinargerð til utanrmn. Alþingis. Það er lýsing sem er örugglega ekki síður forvitnileg fyrir hæstv. utanrrh. en greinargerðir frá Hannesi Hafstein sendiherra.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að Stefán Már Stefánsson, sem utanrrh. hefur haft sem sérstakan ráðgjafa í þessum efnum, hefur í sérstakri grein í riti umboðsmanns Alþingis rakið sjónarmið um hugsanlegan árekstur við stjórnarskrá lýðveldisins sem mjög koma heim og saman við þau sjónarmið sem fram hafa komið á síðustu vikum.
    Það er einnig nauðsynlegt að ítreka það hér að við flutningsmenn þessa frv. höfum flutt annað frv. til breytingar á stjórnarskránni sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi tvö frv. eru samtengd. Það verður mælt fyrir því frv. væntanlega í næstu viku og þá hafa menn betra tækifæri til að sýna fram á með hvaða hætti þessi tvö frv. eru samtengd.
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hér áður þá var það ekki mikill hluti af minni ræðu sem ég átti eftir en þó ætla ég aðeins að minna á það að í umræðu um þetta mál hefur verið sérstakur kafli sem ég hef kallað fundagerðamál hæstv. forsrh. þegar þeir í sameiningu, hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason og hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, sviðsettu hér í þingsalnum tilefni til þess að hæstv. forsrh. færi að endursegja efni fundargerðar ríkisstjórnarinnar. Því máli er ekki lokið. Ég ætla ekki klukkan hálfþrjú um nótt að fylgja því eftir en vil aðeins geta þess hér að því er ekki lokið og tækifæri gefst til þess síðar á þessu þingi að leiða það mál til lykta.
    Virðulegi forseti. Ég reikna með því að samkvæmt þingsköpum verði kosin sérstök nefnd til að fjalla um þetta frv. Hún mun einnig fjalla um það frv. sem hv. þm. Ragnar Arnalds er 1. flm. að. Ég vil ítreka þá ósk sem við höfum sett fram, forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna og flutningsmenn þessa frv., að frv. verði afgreidd áður en kemur að afgreiðslu EES-samningsins. Þessi tvö frv., annars vegar það frv. sem hér er til umræðu og hins vegar frv. hv. þm. Ragnars Arnalds, komi til afgreiðslu hér í þinginu áður en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði kemur til endanlegrar afgreiðslu.