Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:29:11 (502)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hafi einhver maður efast um að þetta stjórnarskrármál væri stórlega viðkvæmt mál fyrir hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn þá hefur það sannast hér í nótt. Það er eina pólitíska ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. kýs að halda umræðunni áfram með þeim hætti sem hann hefur hér gert. Hann er í slíkri vörn að hann telur nauðsynlegt að nota hánóttina til að tala vörnina inn í þingtíðindin af því að hann telur sig geta orðið fyrir slíkum höggum síðar meir að hann þurfi að eiga einhverja texta hér í þingtíðindunum. Það er það sem er að gerast. Hann er ekki að tala fyrir okkur hér í salnum. Hann er að reyna að smíða einhverjar brynjur handa sjálfum sér og æsingurinn í málflutningnum er ekki vegna þess sem við höfum sagt hér í salnum sem hefur yfirleitt verið rólegt og málefnalegt, heldur er það vegna þess að hann er að reyna að verja sig gagnvart framtíðinni. Hann segir: talað í síbylju. Hver hefur talað í síbylju hér í nótt annar en hæstv. utanrrh.? Það hafa staðið hér umræður í þrjá og hálfan tíma frá miðnætti. Hæstv. utanrrh. hefur talað helminginn af þeim tíma þannig að hann ætti nú að vara sig að vera að tala hér af einhverjum hroka um síbylju á undanförnum klukkustundum.
    Það er í þessu máli eins og öðru að hæstv. utanrrh. er hræddur maður. Hann þorir ekki að láta óháða aðila frá háskólanum og Dómarafélaginu meta stjórnarskrármálið. Hann þorir ekki að láta þjóðina dæma málið í kosningum þar sem stjórnarskrármálið er tekið til breytingar. Hann þorir ekki að láta þjóðina dæma málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann þorir ekki að hafa mann með sjálfstæða skoðun sem formann utanrmn. Þannig er nú komið fyrir hæstv. utanrrh. í þessu máli.