Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:48:51 (515)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt í allri vinsemd að vísa því á bug sem hv. seinasti ræðumaður sagði að ég hefði gert flutningsmönnum upp hvað fyrir þeim vekti með frumvarpsflutningnum. Ég spurði einfaldlega og ég er þakklátur fyrir að ég hef fengið skýr svör. Svörin eru þau að fyrir flutningsmönnum vakir, í ljósi væntanlegrar alþjóðlegrar þróunar, að greiða fyrir því að unnt sé að framselja vald í hendur fjölþjóðlegum stofnunum. Það ber flutningsmönnum saman um að sé tilgangurinn. Það vakir fyrir þeim að greiða fyrir framsali valds. Það er hins vegar ómótmælanleg staðreynd að sumir þessara sömu flutningsmanna hafa talið það ganga landráði næst að með EES-samningnum sé verið að framselja vald. Að vísu brestur þá rök fyrir því og þau eru röng. Þetta tvennt fer ekki saman, hv. þm. Það er það eina sem ég er að benda á. Það er núna alveg staðfest og ljóst hvað fyrir flutningsmönnum vakir, að greiða fyrir framsali valds. Það er jafnskýrt þegar frv. er skoðað að þeim tilgangi er ekki náð vegna þess að það er missmíð á frv. Það er svo smíðagalli en varðar ekki tilganginn. Söm var þeirra gjörðin. ( SJS: Var þetta ræða, forseti?)