Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:50:33 (517)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mótsagnir hæstv. utanrrh. í öllu þessu máli eru orðnar margar og sérkennilegar. Það var mikill kjarni fyrr í kvöld í hans máli að þetta mál snerti hann ekki. Þess vegna hefði engin kvöð verið á honum að vera viðstaddur þessa umræðu og var ráðherrann nokkuð þykkjuþungur þegar hann flutti það mál.
    Hins vegar er athyglisvert að ráðherra hefur ótæpt notfært sér rétt skv. 55. gr. þingskapalaga til þess að tala hér oftar en tvisvar, oftar en þrisvar, oftar en fjórum sinnum, oftar en fimm sinnum í þessu máli. Þann rétt á hann ekki og getur ekki tekið sér samkvæmt þingsköpum nema hann viðurkenni að það heyri undir þau ákvæði þingskapa sem eru á þá leið: ,,Ráðherrar, er hlut eiga að máli, mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa``. Hæstv. utanrrh. hefur því með framgöngu sinni hér í nótt staðfest það að hann telur sjálfur að hann eigi hlut að þessu frv. sem hér er verið að ræða því að ella hefði hann eingöngu átt réttinn til að tala tvisvar að eigin dómi.