Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:53:25 (520)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Nær rennur saman upphaf og endir því það eru aðeins örfá orð af minni hálfu. Ég er sem sagt uppgefinn á því að ræða þetta frekar við hæstv. utanrrh. úr því að þessi gállinn er á honum, ef ég leyfi mér nú að taka svo til orða. Fullyrðingar hans um það að hann hafi dregið fram hinn eina rétta sannleik í því hver sé tilgangur með flutningi þessa frv. verða bara að standa hvað sem aðstandendur þess segja. Ég vænti þess að þegar frá líður muni menn taka meira mark á því sem flm. sjálfir og aðstandendur frv. segja um tilgang sinn með því en fullyrðingum hæstv. utanrrh. um hið sama. Hvað sem fullyrðingum hæstv. utanrrh. líður, af því að ég er þeirrar skoðunar að þetta sé alvörumál, þá vil ég a.m.k. að það sé alveg ljóst hvað í mínum huga vakir þarna og ég ætla því að endurtaka það að lokum sem ég sagði. Það er ekki síður í mínum huga mikilvægt í þessu sambandi að hér er verið að setja úrræði inn í stjórnarskrána gagnvart því sem kann að koma upp og er uppi í þessum efnum sem tryggja það að með sambærilegum hætti er gengið frá því í íslensku stjórnarskránni að um svona afdrifarík mál þurfi að fara að tilteknum hætti þegar lögum er breytt og tryggja það með því að setja inn ákvæði um aukinn meiri hluta að í raun og veru er torveldað með þeim hætti að einfaldur eða naumur meiri hluti á löggjafarsamkomunni geti beitt valdi sínu við að koma slíku fram. Ég held að hæstv. utanrrh., sem á að vera bærilega gefinn maður það best er vitað, þó syfjaður sé, hljóti að átta sig á þessu einfalda atriði málsins. Það er ekki hægt að snúa þessu við og hér lýsi ég því yfir að það sem ég tel mikilvægast við þetta frv., bæði gagnvart núverandi aðstæðum í íslenskum stjórnmálum og framtíðinni, er þetta að það mun væntanlega við allar venjulegar aðstæður þingbundinna meirihlutaríkisstjórna, sem hér starfa, en hafandi þó ekki þann yfirgnæfandi þingstuðning að baki hér sem þyrfti, kosta það og þýða það að um slík mál þurfi að takast víðtækari samstaða en nemur einföldum eða naumum meiri hluta á hverjum tíma. Það er mjög mikilvæg trygging fyrir því að slík mál hafi breiðan stuðning því að við skulum leyfa okkur að vona að jafnan sé sæmileg trygging fyrir því hvernig hugur þjóðarinnar stendur til slíkra mála að um þau sé þá mjög víðtæk samstaða á löggjafarsamkomunni. Þannig eru þessi ákvæði hugsuð í stjórnarskrá nágrannalandanna og þannig er það að mínu mati einnig í frumvarpsflutningi okkar.