Jarðhitaleit í Austur-Skaftafellssýslu

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:32:37 (524)


     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hefur beint til mín fsp. í tveimur liðum. Í fyrra lagi hvaða niðurstöður eða vísbendingar liggi fyrir eftir jarðhitaleit í Austur-Skaftafellssýslu á þessu ári. Og í öðru lagi hvort ráðherra muni beita sér fyrir fjárveitingu til áframhaldandi rannsókna á þessu svæði á fjárlögum 1993.
    Ég sný mér fyrst að fyrri lið fsp. Það er frá því að segja að héraðsnefnd Austur-Skaftafellssýslu, sem reyndar er enn nefnd sýslunefnd, sótti um styrk til jarðhitaleitar í sýslunni með bréfi til orkuráðs 11. des. 1991. Orkuráð samþykkti þessa styrkveitingu á fundi sínum 17. jan. 1992 með því skilyrði að borað yrði sem næst Höfn í Hornafirði og að kostnaði við rannsóknina yrði stillt í hóf. Iðnrh. staðfesti svo samþykkt orkuráðs.
    Jarðhitaleitin í Austur-Skaftafellssýslu er framkvæmd af Jarðfræðistofunni Stapa í Reykjavík fyrir héraðsnefndina eftir hennar ósk. Orkustofnun hefur hins vegar eftirlit með því fyrir orkuráð að leitin fari fram í samræmi við þau skilyrði sem ráðið hefur sett fyrir styrkveitingunni. Jarðfræðistofan Stapi hefur skilað héraðsnefndinni tveimur áfangaskýrslum um rannsóknina og nú er heildarskýrsla um hana á lokastigi. Það hafa verið boraðar 50 hitastigulsholur, þar af voru 39 kostaðar af styrk frá Orkusjóði og eru 22 þeirra í landi Hafnar- og Neshrepps. Landeigendur hafa sjálfir kostað 11 borholur.
    Helstu niðurstöður af leitinni eru þær að hitastigull reyndist hærri en utan jarðhitasvæða, þ.e. hærri en á svokölluðum köldum svæðum, í borholum við Skaftafell og Svínafell í Öræfum, Hrollaugsstaði, Reynivelli, Hala og e.t.v. við Skálafell í Suðursveit, og svo við Miðfell og Hoffell í Nesjum og hugsanlega einnig við Krossbæ. Á Mýrum vex hitastigullinn í átt að Vatnsdal og Vandræðatungum en engin merki eru um jarðhita þar á láglendi. Niðurstöðurnar í Lóni gefa tæplega tilefni til að ætla að þar finnist nýtanlegur jarðvarmi til hitunar.
    Í seinni áfangaskýrslu Jarðfræðistofunnar Stapa frá því í júní á þessu ári segir að rétt sé að staldra við í rannsókn á jarðhita við Miðfell og Hoffell í Nesjum sem er eins og kunnugt er í u.þ.b. 20 km fjarlægð frá Höfn í Hornafirði þannig að ráðrúm gefist til að taka þar fullkomin sýni af vatni úr holunum og kanna efnainnihald þeirra ítarlega, en sýni sem þar hafa verið tekin gefa vísbendingu um að þar kunni að vera að finna vatn með hitastigi nálægt 80°C. Í framhaldi af rannsókn á efnainnihaldinu er það álit Jarðfræðistofunnar Stapa að kanna þurfi svæðið nánar með ýmiss konar jarðeðlisfræðilegum mælingum, kortleggja ganga og sprungur og bora nokkrar 100--200 m djúpar holur til rannsókna. Þeim rannsóknaráfanga lyki svo með borun holu til vinnslu í tilraunaskyni. Holan þyrfti væntanlega að vera 500--1.000 m djúp. Úr henni þyrfti að dæla í nokkra mánuði til þess að kanna viðbrögð svæðisins við vinnslu.
    Orkustofnun telur ástæðu til að gera yfirlitsúttekt á hagkvæmni jarðvarmaveitu fyrir Höfn og nágrenni í samanburði við hitun vatns með rafmagni og olíu til vara eins og nú er framkvæmt í kyndistöð, áður en gerð er áætlun um frekari fjárfrekar rannsóknir á svæðinu.
    Eins og kunnugt er eru íbúar á Höfn nú um 1.700 og í Nesjum um 300, en ég leyfi mér að benda á að það hefur þegar verið ráðist í verulegar fjárfestingar á þessu svæði í því skyni að unnt sé að sjá fyrir húshitunarþörfinni með raforku.
    Þá kem ég að síðari lið fyrirspurnarinnar og vildi taka það fram að fé hefur verið veitt af fjárlögum til Orkusjóðs til jarðhitaleitar og mun svo væntanlega verða með samþykki Alþingis í fjárlögum fyrir árið 1993. Ráðherra hefur ekki gert tillögur til Alþingis um að einstakir aðilar eða svæði fái aðstoð Orkusjóðs heldur er það lögum samkvæmt hlutverk orkuráðs að fjalla um slíkar tillögur. Ég hef ekki í hyggju að víkja frá þeirri venju, en mér er ljóst að þarna er um mikilvægt viðfangsefni að ræða sem ég er ekki í nokkrum vafa um að orkuráð mun sinna.
    Samkvæmt orkulögunum gerir orkuráð svo tillögu til iðnrh. um ráðstöfun þess fjár sem ætlað er til jarðhitaleitar. Ég leyfi mér að benda á að það liggur ekki fyrir beiðni frá héraðsnefnd Austur-Skaftafellssýslu eða öðrum aðilum á þessu svæði til Orkusjóðs um stuðning til frekari jarðhitaleitar.