Kynning á EES-samningi gagnvart sveitarfélögum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:40:47 (527)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 38 ber ég fram svofellda fsp. til hæstv. utanrrh. um kynningu á EES-samningi gagnvart sveitarfélögum. Með mér stendur að fyrirspurninni hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.:
    ,,Með hvaða hætti hefur verið staðið að kynningu á EES-samningi gagnvart sveitarfélögum og samtökum þeirra?``
    Ástæða þess að um þetta er spurt er sú að ég hef ekki orðið var við það --- eru hæstv. ráðherrar að deila um hver eigi að svara? --- Ástæðan fyrir fyrirspurninni er sú að ég hef ekki orðið var við að fram færi á vegum utanrrn. og raunar ekki heldur annarra ráðuneyta, eins og ráðuneyti sveitarstjórnarmála, sérstök kynning á afleiðingum eða áhrifum EES-samnings gagnvart sveitarfélögum í landinu.
    Nú er það svo að þessi samningur hefur auðvitað verið kynntur með allsendis ófullnægjandi hætti og er þetta ekki eina dæmið um það ef mín tilgáta er rétt. En ég hef t.d. farið í gegnum safnrit frá viðskiptaskrifstofu utanrrn. um einstaka málaflokka varðandi EES-samninginn. Þar er hvergi að finna neina sérúttekt á því sem snertir sveitarfélögin í landinu. Er það þó ljóst að þessi samningur mun hafa mjög veruleg og í ýmsum tilvikum stórfelld áhrif á stöðu og hag sveitarfélaganna í landinu. Margt af því er auðvitað erfitt að sjá fyrir fram, ef samningurinn yrði að veruleika, en hitt ætti þó að vera skylt að lesa í spilin þannig að menn komi ekki óviðbúnir að þessu máli. Þetta er ástæðan fyrir því að þessi fsp. er fram borin.
    Ég leyfi mér að nefna sem dæmi um málaflokka sem snúa beint að sveitarfélögunum þær breytingar á skipun opinberra útboða sem þarna er um að ræða varðandi opinberan stuðning við fyrirtæki, ríkisstyrki og annað þess háttar sem er þó kannski minna mál en mál samt. Í öðru lagi vinnumarkaðsmálin og atvinnuréttindi sem verið er að veita öllum íbúum Vestur-Evrópu til jafns við Íslendinga sem varðar auðvitað mjög verulega stöðu sveitarfélaganna og félagslega þjónustu þeirra, ekki síst kannski í sjávarbyggðunum þar sem um verulegt vinnuafl hefur verið að ræða, tímabundið, útlent, í fiskvinnslu m.a. Ég nefni í þriðja lagi kaup á landi og landareignum þar sem aðstaða sveitarfélaga til þess að nýta forkaupsrétt sinn gjörbreytist auðvitað með þessum samningi. Ég nefni í fjórða lagi umhverfismálin, sem er kannski ekki síst sá málaflokkur sem snýr að sveitarfélögunum með

stórfelldum útgjöldum, fyllilega réttmætum mörgum hverjum og velflestum þó það sé álitamál hver eigi að borga þær aðgerðir sem þarna þarf að gera og þarf auðvitað ekki EES-samning til að standa að slíkum aðgerðum.
    Þetta eru svona bein atriði, þar fyrir utan eru síðan fjárhagsmálefni ýmiss konar og hin almenna aðstaða atvinnurekstrar í landinu vegna óheftra fjármagnshreyfinga og fleira og fleira sem þarna kemur til. Ég leyfði mér að nefna þetta í samhengi við þessa fyrirspurn.