Kynning á EES-samningi gagnvart sveitarfélögum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:47:22 (530)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá samfyrirspyrjanda mínum hefur verið staðið að þessu máli með allsendis ófullnægjandi hætti af hálfu utanrrn. sem ábyrgðaraðila málsins og auðvitað fagráðuneytis sveitarstjórnarmála, sem kemur væntanlega til umræðu í tengslum við aðra fyrirspurn. Það er ekki hægt að sleppa frá þessu máli með því að vísa á önnur ráðuneyti, út af fyrir sig, þótt skylt sé skeggið hökunni milli utanrrn. og félmrn., formanns og varaformanns Alþfl. í þessu tilviki. En ég tel það vera mikið áhyggjuefni að þessi samningur skuli liggja fyrir fullbúinn og það hefur ekki verið lagt í það að fara ofan í saumana á áhrifum hans á stöðu sveitarfélaganna í landinu með neinum viðhlítandi hætti. Það er ekki hægt að telja það þó að flutt hafi verið ein ræða á einni ráðstefnu að það sé eitthvað sem menn geti sagt að leysi málið eða taki ómakið af stjórnvöldum að öðru leyti að vinna þetta mál. Það hafa verið haldnir fundir núna að undanförnu á vegum samtaka

sveitarfélaga um land allt og mér er ekki kunnugt um að þetta mál hafi verið fært inn á þann vettvang hjá neinum þeirra, ég hef að vísu ekki farið yfir dagskrár allra þessara funda en ég varð var við það t.d. austur á landi að þar höfðu fulltrúar sveitarfélaga sem þar þinguðu á dögunum ekki fengið mikla vitneskju um þennan samning og komu í rauninni af fjöllum margir hverjir þegar nefnd voru þau stóru atriði sem snerta með beinum hætti sveitarfélögin í landinu og eiga eftir að koma mörgum á óvart þegar farið er að rýna í þetta mál og afleiðingarnar koma í ljós ef svo illa skyldi fara að þessi samningur yrði samþykktur.