Skoðanakönnun á þekkingu fólks á EES

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:03:00 (536)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Tvennt liggur nú fyrir og kemur kannski ekki mjög á óvart eftir umræður undafarna daga að það er álit hæstv. utanrrh. að þjóðin þekki málið um EES-samninginn ákaflega illa og hitt að sami ráðherra vill ekki að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið. Ég vil minna á að sami ráðherra hafði þá skoðun árið 1969 um sambærilegt efni á þeim tíma, að þjóðin ætti að afgreiða það, en það var aðildin að EFTA.
    Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir okkur hvort hann teldi fullreynt að þjóðin mundi kynna sér þennan EES-samning frekar eða hvort hann hefur talið árið 1969 að þjóðin vissi svo mikið um EFTA-samninginn.