Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:13:12 (544)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Austurl. að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. um áhrif samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á sveitarfélögin. Nú þegar hefur verið upplýst fyrr á þessum fundi að kynning á málinu af hálfu utanrrn. hefur verið í mjög miklu skötulíki hvað þetta varðar. Því er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort tekin hafi verið saman einhver heildstæð greinargerð a.m.k. af hálfu fagráðherra um þau áhrif sem samningurinn mun hafa á sveitarfélögin í landinu. Því miður urðum við einskis vísari í umræðunni um frumvarpið sjálft um Evrópska efnahagssvæðið um þetta atriði því að hæstv. félmrh. tók ekki til máls í þeirri umræðu. Menn eru því ekki upplýstari um samninginn hvað þetta varðar og hæstv. utanrrh. fjallaði ekkert um það svið málsins.
    Augljóslega eru þó nokkuð mörg atriði í þessum samningi sem snerta sveitarfélögin beint og óbeint þó í mismiklum mæli sé eftir málum. Ég get nefnt sem dæmi að ákvæði samningsins um atvinnufrelsi hefur áhrif á starfsmannahald sveitarfélagsins þó að menn geti greint á um það hversu víðtæk þau áhrif verða. Ég get nefnt sem dæmi að samningurinn hefur áhrif á framkvæmdir sveitarfélags, hvernig það stendur að þeim og hvernig það stendur að útboðum. Mér sýnist samkvæmt skýringum með samningnum að við tiltekin stærðarmörk á verkum sé sveitarfélagi skylt að bjóða það út á evrópskum markaði og möguleikar sveitarfélags til þess að hyggja að sínum mönnum í sveitarfélaginu eru hverfandi eftir þennan samning.
    Ég get líka nefnt tryggingamál eins og brunatryggingar. Ljóst er að a.m.k. Reykjavíkurborg hefur haft verulegar áhyggjur af áhrifum samningsins á húsatryggingar í Reykjavík, eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir. Ég get líka nefnt sparisjóði en sveitarfélög eru aðilar að sparisjóðum og mér er tjáð af kunnáttumönnum að þessi samningur muni hafa þau áhrif á sparisjóði á Vestfjörðum vegna kröfu um eiginfjárstöðu að loka verður þeim öllum nema einum. Einungis einn sparisjóður á Vestfjörðum mun uppfylla lágmarksskilyrði hvað þetta varðar. Aðrir sparisjóðir verða að loka starfsemi sinni og hætta.
    Það má líka nefna kaflann um ríkisaðstoð en það er skýrlega tekið fram á bls. 157 að með ríkisaðstoð sé ekki bara átt við bein fjárframlög heldur ábyrgðir og skattaívilnanir, tryggingar og niðurgreiðslu lánskjara af hálfu ríkis, sveitarfélaga og stofnana. Þetta eru

allt atriði sem munu snerta verkefni sveitarfélagsins mikið og ekki hvað síst þetta síðastnefnda í ljósi þeirrar stöðu sem sveitarfélögin hafa verið í á undanförnum tveimur árum skulum við segja þar sem þau hafa verið að verja sína stöðu með því að styrkja atvinnulífið í sveitarfélagi sínu.